Svona gerum við
Íslenskt ál úr hreinni orku
Ísland er eitt örfárra landa í heiminum sem framleiða rafmagn nær eingöngu úr endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Rafmagnið nýtum við að langstærstum hluta til að vinna hreint ál úr áloxíði og nálgast hlutur Íslands 2% af heimsframleiðslunni.
Losun CO2 vegna álvinnslu er minni á Íslandi en í nokkru öðru framleiðslulandi. Þessi árangur næst með frábæru starfsfólki og stöðugleika í rekstri, ásamt notkun umhverfisvænna orkugjafa. Skýr umhverfisvitund gegnir lykilhlutverki á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá aðföngum í fjarlægum löndum að hámarksnýtingu og endurvinnslu allra hráefna.
Norðurál hefur náð frábærum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og bæta nýtingu hráefna. Við losum stöðugt minna af gróðurhúsalofttegundum, aukum hlut endurvinnslu ár frá ári og bætum aðferðir okkar stöðugt. Þess vegna köllum við álið okkar umhverfisvænasta ál í heimi.
Áloxíð
Aðalhráefnið okkar er áloxíð, sem einnig er oft kallað súrál, samband áls og súrefnis. Þetta er gráhvítur fínkorna sandur, sem við flytjum inn í u.þ.b. tvöföldu magni miðað við álið sem við vinnum. Áloxíð er unnið úr báxíti, rauðleitri steintegund sem er algeng og tiltölulega auðunnin á Jamaica, Ástralíu, Gíneu og Suður-Ameríku, en steintegundin er nefnd eftir franska bænum Le Baux. Áloxíðið sem við kaupum er svo fínkorna að við getum hreinlega ryksugað það upp úr skipinu í geymslusíló og þaðan alla leið inn í kerskálana, í lokuðu kerfi.
Kerskálar og skautsmiðja
Í hverju keri eru 20 skaut sem skipt er um á 30 daga fresti. Skautin eru steypt við skautgaffla í skautsmiðjunni áður en þeim er komið fyrir í kerunum. Hvert nýtt skaut er um 1200 kg en eyðist smám saman og að notkun lokinni eru eftir um 250 kg af skautleifum. Skautin eru flutt aftur í skautsmiðjuna þar sem skautleifarnar eru hreinsaðar af skautgafflinum, muldar niður og sendar utan þar sem þær eru endurunnar sem hráefni í ný skaut. Nýtt skaut er steypt á skautgaffalinn og ferlið endurtekur sig.
Steypuskálinn
Í hverju keri eru framleidd um 1,5 tonn af áli á dag. Álið er flutt í steypuskálann þar sem málminum er safnað í steypuofna sem hver tekur um 60 tonn. Þegar málmurinn hefur náð kjörhitastigi fyrir steypu (720°C) er ofninum lyft og málminum rennt í steypumót og steyptur í um 22 kg hleifa. Hleifarnir eru bundnir í stæður sem vega um 1 tonn og fluttir þannig í gámum á markað.
Prófun búnaðar og framleiðsluferla nýrrar framleiðslulínu eru hafnar. Í nýrri framleiðslulínu eru framleiddar álstangir (e.billets). Sjá meira um verkefnið hér
Álstangir, hleifar og melmi
Helsta afurð okkar er hreint ál sem er selt á alþjóðlegum markaði og notað í allskyns vörur. Flestir álhlutir sem við þekkjum – dósir og allskyns umbúðir, byggingarefni, bílfelgur, reiðhjól og tölvukassar – eru úr málmblöndum þar sem ál er langstærsti hlutinn en öðrum málmum er blandað við álið til að gefa því aukna hörku, burðarþol, hærra eða lægra bræðslumark eða aðra sérstaka eiginleika. Algengustu málmar í álmelmi eru kopar, magnesíum, mangan, kísill og sink.
Liðsheild — Heilindi — Hagsýni
Markmið okkar er að vera framúrskarandi fyrirtæki og öruggur og góður vinnustaður.
Á Grundartanga frá 1997
Norðurál á Grundartanga er í hópi stærstu álvera Evrópu, með rúmlega 300.000 tonna ársframleiðslu og um 600 manns að störfum. Með Norðuráli breyta Íslendingar hluta þeirrar miklu orku sem landið okkar býr yfir í meira en 600 milljón dollara útflutningsverðmæti og ýta um leið undir notkun vistvænna orkugjafa og umhverfisvænna efna í farartæki, umbúðir og ótalmargt fleira.
- 1995 Undirbúningur að nýju álveri hefst hjá CVC Inc. (Columbia Ventures Corporation). CVC er í eigu Kenneth D. Peterson jr. og með höfuðstöðvar í Washington fylki í Bandaríkjunum.
- 1996 CVC ákveður að leita út fyrir Bandaríkin og verður Ísland fyrir valinu.
- 1997 Fyrsta skóflustungan tekin að álveri á Grundartanga í apríl 1997. 1.500 umsóknir bárust í þau 150 störf sem í boði voru.
- 1998 Fyrsta kerið gangsett, aðeins 14 mánuðum eftir fyrstu skóflustungu. Hvalfjarðargöngin opnuð 11. júlí. Umhverfisvöktun hefst.
- 1999 Framleiðslugeta fyrsta áfanga var um 60.000 tonn.
- 2000 Starfsmenn orðnir 220, langflestir úr nærliggjandi sveitarfélögum og frá Reykjavík. Bónuskerfi innleitt.
- 2001 Annar áfangi gangsettur og framleiðslugetan orðin 90.000 tonn. „Baðhúsið“ tekið í notkun, mikil framför í starfsmannaaðstöðu.
- 2002 Innleiðing á rafmagnshitun biðofna hefst í Steypuskála. Með því dregur úr losun CO2 í framleiðsluferlinu.
- 2003 Fimm ára afmæli fagnað á veglegan hátt á athafnasvæðinu þann 27. september.
- 2004 Century Aluminum festir kaup á Norðuráli þann 16. mars. Fyrsta skóflustunga að þriðja áfanga tekin 7. maí.
- 2005 Fyrstu ker gangsett í kerlínu 2, þann 14. febrúar.
- 2006 Framleiðslugetan aukin í 220.000 tonn. Fjöldi starfsfólks orðinn 320.
- 2007 Lokið við kerskála í núverandi stærð og framleiðslugetan orðin 260.000 tonn. 480 starfsmenn.
- 2008 Haldið upp á 10 ára afmæli Norðuráls með fjölskylduhátíð í blíðskaparveðri á Grundartanga.
- 2009 Baðhúsið stækkað til að mæta sístækkandi starfsmannahópi.
- 2010 Ársframleiðslan orðin um 270.000 tonn og stöðugildin 530.
- 2011 Starfsfólk skrifstofu Norðuráls í Reykjavík flyst úr Borgartúni í Skógarhlíð. Innleiðing ISO gæðakerfis hefst.
- 2012 Norðurál kaupir rafskautaverksmiðju í Vlissingen í Hollandi. Fyrstu nemendurnir hefja nám við Stóriðjuskóla Norðuráls.
- 2013 Umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi ISO vottuð. Umfangsmikil endurnýjun í skautsmiðju.
- 2014 Framleiðsluaukning með straumhækkun undirbúin og framleiðsla á melmi hefst. Mercedes-Benz notar ál frá Norðuáli í C-Class bílinn sem er næstum 50% úr áli.
- 2015 Norðurál undirritar Parísarsáttmálann og skuldbindur sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs.
- 2016 Flokkun á lífrænum úrgangi hafin í mötuneyti, en þar eru um 110 þúsund máltíðir snæddar ár hvert. Græn stæði tekin í notkun.
- 2017 Um 317.000 tonn af áli og álblöndum framleidd. Starfsmenn eru um 600.
- 2018 Átaksverkefnið "Öll saman" hefst, þar sem minnt er á að öryggi er samstarfsverkefni allra starfsmanna.
- 2019 Norðurál hlýtur alþjóðlega ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu, sem og Jafnlaunavottun með gullmerki PwC
- 2020 Norðurál setur á markað vörulínuna Natur-Al™ sem hefur eitt lægsta kolefnisfótspor sem völ er á í heiminum.
- 2021 Gengið frá sölusamningi um Natur‐Al™ til austurríska fyrirtækisins HAI. Um er að ræða fyrsta langtímasamning um grænt ál, á heimsvísu.
- 2022 Norðurál er valið Umhverfisfyrirtæki ársins af Samtökum Atvinnulífsins.
- 2023 Markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í loftslagáætlun Norðuráls er náð. Stefnt er að enn frekari árangri og markið sett á 55% samdrátt árið 2030.