Raforkukaup Norðuráls

Í nóvember 2020 óskaði Norðurál eftir afléttingu trúnaðar af raforkusamningum fyrirtækisins. Norðurál telur eðlilegt að gagnsæi ríki um það verð sem fyrirtækið greiðir fyrir raforku sem unnin er á Íslandi og mikilvægt að umræða um samkeppnisumhverfi fyrirtækisins byggi á áreiðanlegum upplýsingum. Norðurál nýtir um fjórðung allrar raforku sem framleidd er á Íslandi og við höfum fullan skilning á því að almenningur vilji hafa skýra mynd af nýtingu og afgjaldi auðlinda í sameiginlegri eigu þjóðarinnar.

 

Raforkusamningar við stórnotendur

Raforkureikningur álfyrirtækis er talsvert flóknari en rafmagnsreikningur heimilis, en þó er hægt að gefa nokkuð glögga mynd af kaupum Norðuráls á raforku til framleiðslunnar. Norðurál er með langtímasamninga við þrjá raforkuframleiðendur upp á samtals 536,5 MW (verður 546,5 MW þegar nýi steypuskálinn verður gangsettur). Samningarnir voru undirritaðir á mismunandi tíma síðastliðna áratugi og hafa mislangan gildistíma. Þeir samningar sem nú eru í gildi eru fjórir: Sameiginlegur samningur við HS Orku og OR frá 2005, samningur við OR frá 2008 og tveir samningar við Landsvirkjun frá 1997 og 2009. Samningur við Landsvirkjun frá 1997 var síðast  framlengdur árið 2021, og tók gildi sama ár.

Langtímasamningar um kaup og sölu á raforku taka til margra atriða. Helst er að nefna samningstíma, magn, verð, kaupskyldu (e. take-or-pay) og fyrirkomulag á flutningsgjöldum til Landsnets.

Verð í öllum fjórum samningum Norðuráls er tengt heimsmarkaðsverði á áli að einhverju leyti. Við endurnýjun á 1997 samningi við Landsvirkjun árið 2016 var horfið frá álverðstengingu og tekin upp tenging við raforkumarkað Norðurlanda, Nord Pool, og tók sú verðtenging gildi í nóvember árið 2019 og gilti út árið 2023. Nýjasta framlenging samningsins gildir fyrir árin 2024-2026 og er samningurinnn á því tímabili á föstu verði að viðbættri álverðstengingu.

 

172 MW frá Landsvirkjun (1997)

Norðurál og Landsvirkjun undirrituðu fyrsta raforkusamning Norðuráls 7. ágúst 1997. Sá samningur var um kaup á 107 MW til 20 ára frá fyrstu afhendingu til að styðja við framleiðslu á 60.000 tonnum á áli árlega (LV 1997). Raforkuverðið var tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Afhending á raforku hófst í júní 1998 þegar Norðurál var gangsett. Fyrsti viðauki samningsins var undirritaður þann 29. október 1999 um afhendingu á samtals 161 MW til að auka framleiðslugetu í 90.000 tonn á ári. Einnig var samningstíminn lengdur um eitt ár. Annar viðauki var undirritaður 21. apríl 2004 til að skýra rekstur samnings og opna á möguleika á afhendingu á raforku frá öðrum raforkusala en Landsvirkjun. Þriðji viðauki var undirritaður 31. ágúst 2016 og tók gildi árið 2019. Í þriðja viðauka var verðformúlunni breytt úr álverðstenginu í tengingu við raforkumarkað Norðurlanda, Nord Pool, og samningurinn framlengdur til loka árs 2023. Fjórði viðauki var undirritaður 24. febrúar 2021 og aflétti þar með trúnaði af samningnum. Fimmti viðauki var undirritaður 19. júlí 2021 þar sem magnið var aukið til að auka enn frekar framleiðslugetu álversins bæði á hefðbundnu áli og virðisaukandi sérvöru og gildistíminn lengdur til loka árs 2026. Einnig var samið um að árið 2024 verður samningurinn á föstu verði í stað tengingu við Nord Pool. Sjötti viðauki var undirritaður 5. september 2022 þar sem dregið var úr verðtengingu við Nord Pool að hluta til í stað fasts verðs. Einnig var bætt við álverðstengingu á fast verð síðar á samningstímanum.

 

292 MW frá OR og HS Orku (2005)

Norðurál undirritaði samning við Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku (þá Hitaveitu Suðurnesja) 17. apríl 2004 um kaup á 153 MW til 20 ára frá fyrstu afhendingu til að styðja við framleiðsluaukningu í 180.000 tonn af áli árlega. Raforkuverðið var tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Þann 28. október 2004 var fyrsti viðauki samningsins undirritaður þar sem aflið var hækkað í 222 MW til að styðja við framleiðsluaukningu í 220.000 tonn árlega. Þann 6. apríl 2005 var breyttur og uppfærður samningur undirritaður og stækkaður í 292 MW til að styðja við framleiðsluaukningu í 260.000 tonn árlega (OR og HS 2005). Afhending hófst í febrúar 2006. Ekki hefur fengist heimild til að aflétta trúnaði um verð í samningnum.

47,5 MW frá OR (2008)

Norðurál og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu samning 30. desember 2008 (OR 2008) vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, en einnig var heimild til að nýta orkuna í álveri Norðuráls á Grundartanga í ljósi óvissu um byggingu og gangsetningu álvers í Helguvík. Afhending samkvæmt samningnum hófst árið 2011. Árið 2021 var trúnaði aflétt af samningnum.

 

25 MW frá Landsvirkjun (2009)

Norðurál og Landsvirkjun undirrituðu samning þann 25. febrúar 2009 um kaup á allt að 50 MW til rúmlega 20 ára. Síðar var afhent magn lækkað í 25 MW (LV 2009). Samningurinn er tengdur við álverð. Fyrsti viðauki var undirritaður 24. febrúar 2021 og aflétti þar með trúnaði af samningnum.

Afrit af öllum samningum ásamt viðaukum, þar sem trúnaði hefur verið aflétt, má nálgast á pdf formi með því að smella á viðeigandi hlekk í töflunni hér að neðan.

 


Skýringar

 

MW og MWst

Mælieining á afli er kallað watt (W). Afli sem beitt er í ákveðinn tíma kallast orka og er mælt í wattstundum (Wst). Þar sem einingarnar í afl- og raforkunotkun orkusækins iðnaðar eru í stærra lagi er oftast notast við megawatt (milljón wött), gígawatt (þúsund megawött) eða jafnvel terawött (þúsund gígawött).

14,2 (MWst/t) er sú orka sem miðað er við að þurfi til að framleiða eitt tonn af áli. Árleg raforkunotkun Norðuráls er um 4,6 milljónir MWst.

LME

LME stendur fyrir London Metal Exchange, þar sem viðskipti með ál eiga sér stað. LME birtir verð á áli ($/tonn af áli).

LME cash er stundar-spot verð (e. spot) og LME3M er þriggja mánaða verð í framvirkum viðskiptum.

Verðformúla sem miðast við LME virkar þannig að mánaðarmeðaltal LME fyrir uppgjörsmánuð ($/t) er margfaldað með prósentu sem stendur fyrir hluta raforkukostnaðar í verðinu á áli. Í þá tölu er deilt með 14,2 (MWst/t) og fæst þá verð fyrir viðkomandi mánuð í $/MWst.

Álverð á London Metal Exchange má finna HÉR.

Nord Pool

Nord Pool er norræni raforkumarkaðurinn.

Verð á Nord Pool má finna HÉR.

Kaupskylda (e. take-or-pay)

Hlutfall af undirliggjandi orku í samningum sem kaupandi tryggir að greiða fyrir hverju sinni, hvort heldur sem að hún er notuð eða ekki.

Heimild til að áframselja

Heimild til að selja áfram til þriðja aðila þá orku sem fyrirtækið kaupir undir samningi, t.d. ef það verður framleiðslustopp eða óhagkvæmt að nýta orkuna undir samningi.

Flutningur á raforku

Í samningum er mismunandi hvernig kostnaði vegna flutningskostnaðar (þ.e. greiðslum til Landsnets) er skipt milli orkufyrirtækja og kaupenda.