Grænt Bókhald 2020

Grænt bókhald er nákvæm skrá yfir allt efni sem kemur til álversins og allt sem fer frá því. Markmið okkar er að nýta allt hráefni eins vel og kostur er og gera ítarlega grein fyrir því hvað verður um öll óæskileg efni. Grænt bókhald bætir umhverfismenningu fyrirtækja með beinum og óbeinum hætti. Grænt bókhald bætir umhverfismenningu fyrirtækja með beinum og óbeinum hætti. Það eykur varkárni í meðhöndlun óæskilegra efna og auðveldar starfsfólki að leita nýrra leiða til að minnka losun og sóun, sem og fækka atvikum sem gætu haft neikvæð áhrif á umhverfið.

 

 
Allt starfsfólk Norðuráls fær bónusgreiðslur, sem eru m.a. tengdar frammistöðu fyrirtækisins á sviði umhverfismála. Við trúum því að með árvekni og vitund um áhrif okkar á umhverfið getum við bætt okkur jafnt og þétt í stóru sem smáu. Um er að ræða 10% bónus á laun. 50% miðast við deildartengdan árangur og 50% er sameiginlegur árangur okkar.

40% minni losun árið 2030

Við höfum sett okkur metnaðarfullt markmið um losun gróðurhúsalofttegunda. Árið 2030 ætlum við að hafa dregið saman losun utan viðskiptakerfis ESB um að minnsta kosti 40% miðað við árið 2015. Á sama tíma ætlum við að draga saman urðun á blönduðum úrgangi um minnst 40%. Við settum fram aðgerðaáætlun og höfum nú þegar náð góðum árangri. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur dregist saman um 29% og úrgangsmagn um 2%. Þessi árangur er starfsfólki Norðuráls hvatning til að halda áfram að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.

Grænt Bókhald 2020

Norðurál hefur náð góðum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og bæta nýtingu hráefna. Þessi árangur næst með frábæru starfsfólki og stöðugleika í rekstri, ásamt notkun umhverfisvænna orkugjafa. Skýr umhverfisvitund gegnir lykilhlutverki á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá aðföngum í fjarlægum löndum að hámarksnýtingu og endurvinnslu allra hráefna. Grænt bókhald er mikilvægt verkfæri til að ná og viðhalda þessum árangri.
 

 
Magn blandaðs úrgangs jókst um 3% milli ára. Ástæðan er rakin til aukinna sóttvarna og notkunar persónuhlífa vegna Covid-19. Við vinnum áfram að því að minnka losun í þessum flokki en hún er nú 2% minni en árið 2015. Markmið okkar er að losun á blönduðum úrgangi dragist saman um 40% til ársins 2030.
 

 
 

Við höfum fjárfest í orkuskiptum véla og tækja á framleiðslusvæði okkar til að minnka notkun á olíu. Milli áranna 2015 og 2020 dróst olíunotkun á vélar og tæki saman um 77.600 lítra sem skilar 14,3% samdrætti í losun CO₂ ígilda. Góður árangur hefur náðst við að draga úr losun á brennisteinsdíoxíði. Milli áranna 2019 og 2020 dróst hún saman um 8%, en ef farið er aftur til ársins 2012 hefur losun dregist saman um 22%.

 


 
Norðurál heldur grænt bókhald í samræmi við reglugerð nr. 851/2002 og skilar því endurskoðuðu til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí ár hvert. Einnig er fært útstreymisbókhald í samræmi við reglugerð nr. 990/2008. Ef einhverjar spurningar vakna við lesturinn má senda þær á netfangið umhverfi@nordural.is og munum við svara þeim eftir bestu getu.