Trúnaði aflétt af orkusamningi Norðuráls og OR

Orkusölusamningur Norðuráls við Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið birtur í heild sinni á vef Norðuráls í samræmi við samkomulag milli fyrirtækjanna tveggja um að aflétta trúnaði af langtímasamningum.

Þann 13. nóvember 2020 óskaði Norðurál eftir því við alla orkusala sína um að trúnaði af langtímasamningum yrði aflétt.

Orkuveita Reykjavíkur hefur nú fyrst orkufyrirtækja gengið frá afléttingu trúnaðar af samningum og nær afléttingin til orkusölusamnings frá árinu 2008 (hér kallaður OR 2008) þar sem fyrirtækin tvö eru einu aðilarnir að þeim samningi.

Um OR 2008: Norðurál og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu samning 30. desember 2008 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, en einnig var heimild til að nýta orkuna í álveri Norðuráls á Grundartanga. Afhending samkvæmt samningnum hófst árið 2011.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls: „Við fögnum því að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið svona vel í umleitanir okkar um að aflétta trúnaði af samningnum. Þetta er mikilvægt skref í að auka gagnsæi á íslenskum raforkumarkaði, sem við teljum mjög til bóta fyrir bæði kaupendur og seljendur raforku, og jafnframt fyrir íslenskan almenning.“