Þrjátíu og tveir nemendur útskrifast frá Stóriðjuskóla Norðuráls

Þrjátíu og tveir nemendur útskrifuðust frá Stóriðjuskóla Norðuráls í maí, fjórtán úr grunnnámi og átján úr framhaldsnámi.

Stóriðjuskóli Norðuráls hefur verið starfræktur frá árinu 2012 og hafa 164 nemendur útskrifast frá skólanum á þessum tíma. Tilgangur námsins er að auka kunnáttu og öryggi starfsfólks, efla starfsánægju, auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Einnig má líta á Stóriðjuskólann sem framlag Norðuráls gagnvart ákalli um aukna menntun á sviði iðnaðar hér á landi, jafnframt því að markmið skólans falla að áherslum á þekkingu, tækniþróun og umhverfi nýsköpunar.

Þetta er sjötti hópurinn sem útskrifaðist frá Stóriðjuskólanum. Um 80% þeirra sem hafa lokið námi eru í starfi hjá Norðuráli en aðrir hafa kosið að afla sér enn frekari menntunar.

Norðurál er í samstarfi við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi og Fjölbrautarskóla Vesturlands um námið, en auk þess koma sérfræðingar frá Norðuráli að kennslunni.

Við óskum nemendum til hamingju með áfangann og góðan árangur.