Stóriðjuskólinn

Norðurál hefur starfrækt stóriðjuskóla frá árinu 2012. Markmiðið er að þeir starfsmenn fyrirtækisins sem ljúka náminu öðlist meiri starfsánægju og sjálfstraust með aukinni færni, þekkingu og skilningi á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Að sama skapi eykur námið verðmætasköpun, styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins og gerir vinnustaðinn eftirsóknarverðari.

Boðið er upp á grunn- og framhaldsnám við skólann sem hvort um sig nær yfir þrjár annir. Grunnnámið er fyrir ófaglærða starfsmenn. Framhaldsnámið er ætlað iðnaðarmönnum og þeim sem hafa útskrifast úr grunnnáminu.

Skólinn er rekinn í samvinnu við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi. Kennarar við Fjölbrautaskóla Vesturlands taka þátt í kennslunni, ásamt sérfræðingum Norðuráls. Við útfærslu á náminu er stuðst við Námsskrá um nám í stóriðju sem gefin er út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Námsefnið hefur verið lagað að þörfum fyrirtækisins og þeim búnaði sem þar er. Því má segja að daglegum viðfangsefnum nemenda sé ofið inn í námið. Sem dæmi um námsefni í Stóriðjuskólanum má nefna námstækni og samskipti, öryggismál, stærðfræði, tölvur, vélfræði, eðlisfræði, efnafræði, rafefnafræði, umhverfismál, eldföst efni og gæðastjórnun.