27. desember, 2017
Sprittkertin endurunnin
Um þrjár milljónir sprittkerta eru brenndar hér á landi árlega, en álbikar utan um þrjú sprittkerti dugar til framleiðslu á einni drykkjardós úr áli. Úr þúsund slíkum bikurum má framleiða eitt reiðhjól að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls. Hrint hefur verið af stokkunum sérstöku endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum.
Þarf 95% minni orku í endurvinnsluna
Hann bendir á að við endurvinnslu áls þurfi líka ekki nema 5% af orkunni sem fór í upprunalegu vinnsluna. „Þannig að þetta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess skapar það verðmæti fyrir endurvinnslur að fá þennan málm inn til sín.“
Álbikararnir sem safnast í átakinu fara ekki úr landi, heldur fara þeir í framleiðslu hér á landi hjá Málmsteypunni Hellu og segir Pétur margar hugmyndir uppi um hvernig álið verði nýtt.
„Þetta er tilraunaverkefni þannig að við rennum blint í sjóinn, en þetta er bylgjuhreyfing í samfélaginu. Fólk vill endurvinna og gera heiminum gott með því að draga úr sóunn, þannig að ég held að fólk bíði eftir frekari tækifærum til að leggja gott til málanna.“