Norðurál hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Norðurál hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Viðurkenninguna fá þau fyrirtæki sem gripið hafa til aðgerða til að jafna hlut kvenna í yfirstjórn og hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Var Norðurál þar í góðum hópi fyrirtækja og stofnana, en alls voru viðurkenningarhafar 53 talsins.

„Að fá þessa viðurkenningu er mjög ánægjulegt fyrir okkur enda hefur Norðurál markvisst unnið að því að jafna hlut kynjanna á öllum sviðum. Jafnréttismál varða okkur öll og við berum öll ábyrgð á því að bæta það sem bæta þarf,“ segir Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga.

Norðurál hefur lagt áherslu á að fjölga konum á öllum sviðum innan fyrirtækisins, en mörg störf í álframleiðslu eru þess eðlis að mikill meirihluti starfsfólksins hefur í gegnum tíðina verið karlar. Fyrir þessu eru hins vegar engin haldbær rök og því fer fjarri að nútíma álver sé karlavinnustaður þar sem konur eigi að upplifa sig utanveltu eða í aukahlutverkum. „Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur og erum alltaf að reyna að gera betur, enda vinnum við á stað þar sem liðsheildin skiptir öllu máli,“ segir Sigrún.