Norðurál er umhverfisfyrirtæki

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins 5.október. Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem tilkynnti að Norðurál er Umhverfisfyrirtæki ársins 2022.

Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum og hefur fyrirtækið sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi. Norðurál er þátttakandi í þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem miða að því að þróa tæknilega lausnir sem gera það mögulegt.

Norðurál býður viðskiptavinum sínum umhverfisvænt ál undir vöruheitinu Natur-Al™. Það er markaðssett sem íslenskt ál, er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferilsins og vottað af óháðum aðilum. Þegar litið er á ferlið í heild, frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru, nemur kolefnisspor Natur-Al™ einungis fjórðungi af heimsmeðaltalinu.

Í umsögn valnefndar segir meðal annars að markmið fyrirtækisins séu skýr og aðgengileg en aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af vel skilgreindum aðgerðum sem er leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki.

„Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í rekstri Norðuráls og þakklát fyrir þann heiður sem fyrirtækinu er sýndur með því að vera útnefnt umhverfisfyrirtæki ársins 2022. Það er áhugaverð staðreynd að ef öll álver í heiminum framleiddu ál með sama hætti og Norðurál myndi losun CO2 á heimsvísu minnka um 550 milljón tonna á ári. Til samanburðar nemur heildarlosun Íslands 4,5 milljónum tonna á ári.

Við hjá Norðuráli vinnum stöðugt að lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna. Í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum höfum við sett okkur markmið um að árið 2030 verði losun gróðurhúsalofttegunda (utan viðskiptakerfis ESB) um að minnsta kosti 40% minni en hún var árið 2015. Nú þegar hefur losun gróðurhúsalofttegunda dregist saman um 27% og úrgangsmagn um 8%. Þessi góði árangur hefði aldrei náðst nema fyrir elju og áhuga starfsfólksins okkar.” – Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Gréta María Grétarsdóttir, formaður, Brynjólfur Bjarnason og Sandra Rán Ásgrímsdóttir.