Natur-Al™ – ný vörulína frá Norðuráli

Norðurál hefur kynnt á markað nýja vörulínu undir merkinu Natur-Al™. Nú býðst viðskiptavinum fyrirtækisins að kaupa umhverfisvænt ál sem er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferlisins og vottað af óháðum aðilum.

Natur-Al er íslenskt ál sem hefur eitt lægsta kolefnisspor sem völ er á í heiminum. Hrein orka, ásamt framúrskarandi stöðugleika í rekstri og ströngum reglum um umhverfismál, gerir Norðuráli kleift að framleiða ál með einstaklega lágt kolefnisspor. Ál undir merkjum Natur-Al hefur kolefnisspor sem er 4t CO2 / t Al, frá öflun báxíts og vinnslu áloxíðs til álvinnslu og flutnings alla leið til kaupanda. Heildarlosun kolefnisígilda við framleiðslu Natur-Al er innan við fjórðungur af meðaltali álframleiðslu í heiminum og samkeppnishæft við það allra besta sem völ er á á heimsmarkaði.

Norðurál gerir viðskiptavinum sínum kleift að ganga skrefinu lengra með Natur-Al™ ZERO – hreinu áli sem er kolefnisjafnað að fullu með framlagi til verkefna á borð við endurheimt votlendis og skógrækt.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls segir nýju vörurnar vera merkan áfanga í rekstri fyrirtækisins: „Eftirspurn eftir umhverfisvænum vörum er í verulegri sókn, eins og allir vita. Við erum að svara þörfum okkar viðskiptavina fyrir hráefni sem er raunverulega eins umhverfisvænt og mögulegt er. Álið okkar á ekki bara að gera vörur fallegri og léttari, heldur viljum við að neytendur viti að þær eru gerðar úr umhverfisvænasta áli sem völ er á í heiminum.“

Norðurál á Grundartanga hlaut nýverið hina alþjóðlegu ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu, fyrst þeirra álfyrirtækja sem starfa á Íslandi. Vottunin staðfestir að Norðurál stenst ítrustu kröfur um samfélagslega ábyrgð, heiðarlega viðskiptahætti, umhverfisvænt hráefni og framleiðslu. Natur-Al er afrakstur vandvirkni og ábyrgra viðskiptahátta á öllum stigum, og okkar hreinasta afurð til þessa.

Natur-Al™ er skrásett vörumerki.

Meira um Natur-Al™ er að finna hér.