19. júní, 2019
Mun CarbFix draga úr losun koldíoxíðs?
Fréttablaðið 18.06.2019 birtir frásögn af undirritun viljayfirlýsingar um samstarf Norðuráls og allra helstu aðila í orkufrekri atvinnustarfsemi og orkuvinnslu á Íslandi um áhugavert verkefni á svi kolefnisbindingar:
„Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og ýmissa fyrirtækja í stóriðju undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um kolefnishreinsun og -bindingu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort aðferð sem kölluð er „CarbFix“ geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun koldíoxíðs, eða CO2, frá stóriðju á Íslandi. Þá munu fyrirtækin hvert um sig leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu kemur fram að mikil þörf sé á víðtæku samstarfi svo hægt sé að takast á við loftslagsvandann og að samstarf bæði atvinnulífs og stjórnvalda geti haft þar mikil áhrif, bæði hér á Íslandi og alþjóðlega.
Viljayfirlýsingin er enn eitt skref í þá átt og er í samræmi við áherslur samkomulags um samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir, sem var undirritað í lok maí.
Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað „CarbFix“ aðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá árinu 2007. Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500 til 800 m dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda.
Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í 5 ár með góðum árangri.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og forstjórar/fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur, Elkem, Fjarðaáls, Rio Tinto á Íslandi og Norðuráls undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um kolefnishreinsun og -bindingu. Jafnframt stendur PCC á Bakka að yfirlýsingunni en munu undirrita yfirlýsinguna síðar.“
Mynd: Fréttablaðið/Stefán