20. júlí, 2021
Meiri orka fyrir græna, virðisaukandi framleiðslu
Landsvirkjun og Norðurál hafa undirritað nýjan raforkusamning sem felur í sér þriggja ára framlengingu á fyrri samningi og stuðning við fjölbreyttari framleiðslu og framtíðarvöxt álversins. Samkomulag um aukna afhendingu á orku styður við áætlanir Norðuráls um að fjárfesta í nýjum steypuskála, þar sem fyrirhugað er að framleiða virðisaukandi sérvöru sem styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins.
Núgildandi samningur fyrirtækjanna (161 MW) er með tengingu við norræna raforkumarkaðinn Nord Pool og gildir áfram til 31. desember 2023. Með nýjum samningi er samningstíminn framlengdur um þrjú ár, eða út árið 2026, á föstu verði. Samningsaðilar hyggjast aflétta trúnaði eftir þrjú ár, en þangað til er samningurinn trúnaðarmál af viðskiptalegum ástæðum.
Samkomulagið styður við áætlanir Norðuráls um fjárfestingu, sem nemur um 15 milljörðum króna, í tengslum við nýjan steypuskála þar sem framleiddar verða álstangir til þess að mæta mikilli eftirspurn frá viðskiptavinum í Evrópu. Framleiðslan felur í sér aukna fjölbreytni í vöruframboði auk þess sem um frekari vinnslu á áli er að ræða, verðmætari og umhverfisvænni. Áætluð raforkuþörf steypuskálans er um 10 MW og gert er ráð fyrir að afhending á þessu aukna samningsmagni hefjist eftir um tvö ár.
Samningurinn tryggir Norðuráli einnig næga raforku til að auka enn frekar framleiðslugetu álversins á Grundartanga. Viðbótarorkan nemur 11 MW og hefst afhending síðar á þessu ári.
Þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda kveður hann því á um 182 MW raforku til Norðuráls árlega, sem er ríflega þriðjungur af orkuþörf álversins.
Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls:
„Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessu samkomulagi við Landsvirkjun sem hefur verið traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili Norðuráls frá upphafi. Undirstaða áætlana okkar um 15 milljarða fjárfestingu er hvort tveggja traustur rekstur, sem byggir á því góða fólki sem hjá Norðuráli starfar, og fyrirsjáanleiki. Í því ljósi er samningurinn afar mikilvægur.“
Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun:
„Það er fagnaðarefni að Landsvirkjun og Norðurál hafi náð saman um nýjan raforkusamning. Samningurinn er góður fyrir bæði fyrirtækin og tryggir nauðsynlegan fyrirsjáanleika í rekstri beggja aðila. Norðurál stefnir á fjölbreyttari og verðmætari framleiðslu í nýjum steypuskála og það gleður okkur sérstaklega að geta stutt við slíkan vöxt viðskiptavinar okkar.“