25. júlí, 2023
Norðurál hlýtur Fjörusteininn
Norðurál hlaut á dögunum Fjörusteininn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2007 en verðlaunin hljóta fyrirtæki sem starfa á hafnarsvæðunum, sýna fram á framsækni í umhverfismálum og eru til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að frágangur, aðkoma og umgengni á lóð Norðuráls á Grundartanga sé til fyrirmyndar og að kolefnisspor Norðuráls við framleiðslu áls sé með því lægsta í heiminum. „Norðurál hefur sýnt að það er framsækið þar sem það hefur unnið markvisst að verkefnum er draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins og hefur verið virkur þátttakandi í nýsköpun og þróun tæknilegra lausna með til að mynda stuðningi við rannsóknarverkefni í áliðnaði,“ segir m.a. í rökstuðningnum.
Þetta eru önnur umhverfisverðlaunin sem Norðurál hlýtur á innan við ári en í október síðastliðnum var félagið valið Umhverfisfyrirtæki ársins af Samtökum atvinnulífsins.
„Það er mikill heiður fyrir okkur hjá Norðuráli að hljóta Fjörusteininn í ár. Við leggjum stöðugt áherslu á að okkar starfsemi sé í sátt við umhverfið og að umhverfisáhrif séu eins lítil og hægt er ásamt því að vera með ábyrga nýtingu á orku og hráefnum. Norðurál hefur náð góðum árangri í að takmarka losun gróðurhúsalofftegunda og þar höfum við sett okkur metnaðarfull markmið. Þessi viðurkenning er okkur hvatning til þess að halda áfram okkar vinnu í þessum mikilvæga málaflokki sem umhverfismálin eru ,“ segir Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga.
Á myndinni eru frá vinstri:
Þorsteinn Ingi Magnússon framkvæmdastjóri öryggis-, umhverfis og umbótasviðs Norðuráls, Margrét Rós Gunnarsdóttir verkefnastjóri samskipta og samfélagsmála Norðuráls, Sigrún Helgadóttir framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga, Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna.