150.000 tonn af Natur‐Al™ áli til Hammerer Aluminium Industries

Gengið hefur verið frá sölusamningi um 150.000 tonn af Natur‐Al™ áli yfir fimm ára tímabil til austurríska framleiðslufyrirtækisins Hammerer Aluminium Industries. Natur‐Al™ er framleitt í álveri Norðuráls á Grundartanga og hefur eitt lægsta kolefnisspor sem völ er á í heiminum.

Ál undir merkjum Natur‐Al™ hefur kolefnisspor sem jafngildir 4 tonnum af koldíoxíði á hvert tonn af áli, allt frá öflun báxíts og vinnslu áloxíðs til álvinnslu og flutnings alla leið til kaupanda. Heildarlosun kolefnisígilda við framleiðslu Natur‐Al er innan við fjórðungur af meðallosun álframleiðslu í heiminum. Þessi árangur byggir á stöðugleika í rekstri og ströngum viðmiðum um umhverfismál ásamt nýtingu hreinnar orku.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls: „Við erum mjög ánægð með þennan fyrsta stóra samning um sölu á Natur‐Al™ áli. Við viljum vinna með og auðvelda viðskiptavinum okkar að minnka kolefnisspor sitt og gera framleiðsluna sjálfbærari. Við verðum einnig vör við aukna eftirspurn eftir áli sem framleitt er á ábyrgan hátt. Við trúum því að með því að bjóða viðskiptavinum upp á þennan valkost séum við að leggja okkar af mörkum til að skapa betri og grænni framtíð. Aukin notkun á áli í stað stáls eða annarra þyngri málma í framleiðsluiðnaði hefur þegar dregið verulega úr losun koldíoxíðs, t.d. með aukinni sparneytni bifreiða. Natur‐Al™ veitir framleiðslufyrirtækjum nýja leið til að létta kolefnisfótspor sitt enn frekar.“

Höfuðstöðvar Hammerer Aluminium Industries eru í Austurríki en framleiðsla þeirra er notuð til mannvirkjagerðar, í rafeindabúnað, almenningssamgöngur og bifreiðar.

Norðurál á Grundartanga hlaut nýverið hina alþjóðlegu ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu, fyrst þeirra álfyrirtækja sem starfa á Íslandi. Vottunin staðfestir að Norðurál stenst ítrustu kröfur um samfélagslega ábyrgð, heiðarlega viðskiptahætti, umhverfisvænt hráefni og framleiðslu. Natur‐Al™ er afrakstur vandvirkni og ábyrgra viðskiptahátta á öllum stigum, og okkar hreinasta afurð til þessa.