ALMENNIR INNKAUPASKILMÁLAR

 

Skilmálar þessir gilda fyrir Norðurál ehf., Norðurál Grundartanga ehf. og Norðurál Helguvík ehf. og birgja þeirra hvað varðar vörukaup. Í skilmálum þessum gilda eftirfarandi skilgreiningar:

 

 • Norðurál: Norðurál ehf, Norðurál Grundartangi ehf. og/eða Norðurál Helguvík ehf.
 • Birgir: Sá aðili sem selur Norðuráli vörur samkvæmt pöntun.
 • Aðili /aðilar: Með aðila er átt jafnt við Norðurál og birgi. Með aðilum er átt við birgi og Norðurál.

 

 1. ALMENNT UM INNKAUP, INNKAUPAPANTANIR

1.1.    Á dagvinnutíma, milli kl. 7:30-16.00 hafa innkaupafulltrúar Norðuráls einir heimild til að gefa út innkaupapantanir fyrir Norðurál.

1.2.    Öll innkaup Norðuráls á vörum fara fram með innkaupapöntunum. Innkaupapantanir gilda einungis fyrir það magn, fjárhæð og vöru sem tiltekin er á innkaupapöntun, nema annað sé tekið fram.

1.3.    Ef upplýsingar um vöru, verð eða annað sem fram kemur á innkaupapöntun er ekki í samræmi við tilboð eða upplýsingar frá birgi skal hann án ástæðulausrar tafar hafa samband við innkaupadeild Norðuráls sem annað hvort leiðréttir eða fellir niður innkaupapöntunina.

1.4.    Birgir skal aðeins afhenda vöru gegn útgefinni innkaupapöntun, nema um neyðarinnkaup samkvæmt 4. gr. skilmála þessara sé að ræða. Birgir sem afhendir vörur án gildrar innkaupapöntunar getur átt á hættu að fá vörur sínar ekki greiddar.

 

 1. INNIHALD INNKAUPAPÖNTUNAR

2.1.    Innkaupapöntun á vöru skal tilgreina:

 • Vörutegund
 • Stærð einingar og fjölda eininga
 • Einingaverð, heildarverð pöntunar og flutningskostnað þar sem það á við.
 • Afhendingartíma
 • Afhendingarstað og flutningsaðila 

 

 1. STAÐFESTING BIRGJA Á PÖNTUN

3.1.    Birgir skal í sérhverju tilviki staðfesta innkaupapöntun skriflega innan 2 virkra daga eftir móttöku hennar og senda staðfest afrit innkaupapöntunar til Norðuráls á faxi í númer 430-1001 eða með tölvupósti á innkaup@nordural.is, eða á netfang þess innkaupamanns sem sendir pöntunina. Pöntunin öðlast ekki gidi fyrr en við staðfestingu birgis.

 

 1. NEYÐARINNKAUP

4.1.    Neyðarinnkaup geta einungis átt sér stað utan dagvinnutíma, sjá lið 1.1. í þessum skilmálum.

4.2.    Innkaupafulltrúar Norðuráls gefa út innkaupapöntun til birgja til staðfestingar neyðarinnkaupum næsta virka vinnudag. Skal reikningur birgis taka mið af þeirri innkaupapöntun.

 

 1. AFHENDINGARSTAÐUR OG SKILMÁLAR

5.1.    Vörur skulu afhentar á þeim stað eða þeim flutningsaðila sem tilgreindur er í innkaupapöntun. Sé mælt fyrir um flytjanda skal birgir, nema annað sé tekið fram, afhenda vörur á flutningastöð hans sem staðsett er næst birgi. Norðurál greiðir ekki sérstaklega fyrir flutning vöru frá birgi til afhendingarstaðar (flutningastöðvar þar sem það á við), nema slíkt sé sérstaklega tilgreint sem sérliður á innkaupapöntun og er slíkur kostnaður því að jafnaði innifalinn í heildarverði pöntunar nema annað sé sérstaklega tilgreint.

5.2.    Séu vörur afhentar annars staðar en óskað var eftir í innkaupapöntun, áskilur Norðurál sér rétt til þess að innheimta hjá birgi allan viðbótarkostnað sem Norðurál kann að verða fyrir vegna þess, og draga frá greiðslu vegna vörukaupa.

 

 1. AFHENDINGARTÍMI

6.1.    Afhendingartími sem tekinn er fram á innkaupapöntunum er miðaður við þann afhendingarstað sem tilgreindur er á innkaupapöntun. 

 

 1. AFHENDING Á HLUTA PANTAÐRA VARA

7.1.    Óheimilt er að afhenda hluta af pöntuðum vörum samkvæmt innkaupapöntun, nema með skriflegu samþykki innkaupafulltrúa Norðuráls.

 

 1. FRAMSAL

8.1.    Birgi er óheimilt að framselja til þriðja aðila innkaupapöntun í heild eða hluta, án skriflegs samþykkis innkaupafulltrúa Norðuráls.

 

 1. PÖKKUN OG MERKINGAR Á VÖRUM

9.1.    Birgi ber að búa um og pakka vörum á þann hátt að þær eigi ekki á hættu að skemmast né rýrna við flutning á áfangastað.

9.2.    Allar umbúðir og pakkningar verður að merkja Norðuráli og með því pöntunarnúmeri sem fram kemur á viðkomandi innkaupapöntun.

9.3.    Öllum sendingum birgis skal fylgja pökkunarlisti.

9.4.    Ef um er að ræða hættulegar vörur og/eða efnavörur, verða þær að vera í viðeigandi umbúðum / pakkningum og merktar í samræmi við lög og reglur sem um það gilda.

 

 1. GREIÐSLUSKILMÁLAR

10.1. Norðurál greiðir reikninga fyrir vöruúttektir fyrir lok næsta mánaðar eftir úttekt, að því tilskildu að frumrit reikninga berist eigi síðar en á fimmta virka degi eftir lok úttektarmánaðar. Norðurál greiðir ekki reikninga samkvæmt greiðsluseðlum.

10.2. Birgir skal gera sérstakan reikning fyrir hverja pöntun. Á sérhverjum reikningi skal tilgreina: pöntunarnúmer innkaupapöntunar, upplýsingar um banka, kennitölu viðtakanda greiðslu og reikningsnúmer hans. Skortur á framangreindum upplýsingum getur leitt til þess að greiðslur dragist. Á meðan á slíkum drætti stendur er Norðuráli ekki skylt að greiða dráttarvexti og/eða annan kostnað sem af honum leiðir.

10.3. Reikningar í íslenskum krónum skulu ekki innhalda aura.

10.4. Breytingar á uppgefnum upplýsingum birgja samkvæmt reikningi, það er á kennitölu, bankareikningi o.þ.h. skulu gerðar skriflega af til þess bærum aðila í samvinnu við innkaupafulltrúa Norðuráls.

 1. SKILARÉTTUR NORÐURÁLS Á VÖRUM

11.1. Norðurál áskilur sér rétt til að skila vörum til birgja innan 30 daga frá afhendingu, að því tilskildu að vörur séu ónotaðar og í upprunalegum pakkningum. 

11.2. Þetta á þó ekki við um vörur sem hafa verið sérpantaðar og útbúnar samkvæmt óskum Norðuráls, nema vörur standist ekki vörulýsingu sem birgir hefur lagt fram áður en pöntun átti sér stað.

 

 1. TRYGGINGAR

12.1. Norðurál er með heildartryggingu á vörum í flutningi frá afhendingarstað. 

12.2. Norðurál greiðir birgja ekki sérstaklega fyrir tryggingu á vörum sem birgir flytur til afhendingarstaðar.

 

 1. VANEFNDIR OG FYRIRSJÁANLEGAR VANEFNDIR.

13.1. Birgir skuldbindur sig til þess að tilkynna Norðuráli um fyrirsjáanlegar vanefndir á skyldum sínum samkvæmt innkaupapöntun og skilmálum þessum.

13.2. Vanefni birgir verulega skyldur sínar samkvæmt innkaupapöntun og skilmálum þessum er Norðuráli heimilt að rifta innkaupapöntun, að undangenginni áskorun til birgis þar sem honum er veittur ákveðinn festur til efnda.

13.3. Um önnur úrræði Norðuráls vegna vanefnda birgja á skyldum samkvæmt innkaupapöntun og skilmálum þessum vísast til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og almennra reglna kröfuréttar.

 

 1. GREIÐSLUÞROT BIRGIS

14.1. Norðuráli er heimilt að rifta innkaupapöntun við greiðsluþrot birgis, þ.e. hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá birgi, við greiðslustöðvun birgis eða við gjaldþrot hans.

 

 1. ÓVIÐRÁÐANLEGAR AÐSTÆÐUR (FORCE MAJEURE)

15.1. Hvorugur aðila skal vera ábyrgur gagnvart hinum vegna vanefnda á skyldum samkvæmt innkaupapöntun og þessum innkaupaskilmálum, ef ástæður vanefndanna má rekja til óviðráðanlegra ytri afla (Force Majeure).

15.2. Til óviðráðanlegra afla (Force Majeure) teljast m.a. styrjaldaraðgerðir, herseta, byltingar, uppreisnir, óeirðir, uppþot, múgæsing, skemmdarverk, eldsvoði, flutningsbönn, almenn stöðvun á siglingum eða flutningum eða hvers kyns ámóta atvik sem ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með sanngjörnum ráðum af hálfu þess aðila sem fyrir varð.

15.3. Sá aðili sem vill bera fyrir sig óviðráðanleg öfl samkvæmt þessari grein skal hafa sönnunarbyrði um tilvist slíkra óviðráðanlegra afla. Sá aðili skal tafarlaust tilkynna hinum aðilanum um óviðráðanleg öfl sem valda misbresti eða aðgerðarleysi um að efna eigin skuldbindingar samkvæmt innkaupapöntun eða innkaupaskilmálum þessum.

 

 1. VARNARÞING

16.1. Um innkaupapöntun og innkaupaskilmála þessa gilda íslensk lög.

16.2. Rísi ágreiningur milli aðila vegna innkaupapöntunar og innkaupaskilmála þessara skal reyna að leysa hann með samkomulagi milli aðila. Annars má reka málið fyrir héraðsdómi Vesturlands.

 1. ALMENNAR UPPLÝSINGAR UM REIKNINGA

 

Allir reikningar skulu sendast til:

 
Norðurál Grundartangi ehf.
Grundartangi
301 Akranes
 

Reikningar skulu stílaðir á viðeigandi fyrirtæki:

 

Norðurál Grundartangi ehf. 
Kt. 570297-2609
Grundartangi
301 Akranes
VSK nr. 54495 

 

Norðurál Helguvík ehf. 
Kt. 470207-2800 
Stakksbraut 1 
250 Garði 
VSK nr. 99679 

 

Norðurál ehf.
Kt. 470404-2130 
Skógarhlíð 12 
105 Reykjavík 
VSK nr. 99744 

 

 

 

Nánari upplýsingar veita:

Innkaupadeild Norðuráls, sími 430 1000, netfang innkaup@nordural.is

Bókhaldsdeild Norðuráls, sími 430 1000, netfang bokhald@nordural.is