Aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum
Losun utan viðskiptakerfis um losunarheimildir
Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum. Þegar litið er á ferlið allt frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru nemur kolefnisspor áls frá Norðuráli einungis fjórðungi af heimsmeðaltali.
Segja má að umhverfisáhrif vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Norðuráls séu tvíþætt. Annars vegar eru það umhverfisáhrif sem fylgja framleiðsluferli áls í kerskálum álversins. Sú losun fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS kerfi). Hins vegar eru það þau almennu umhverfisáhrif sem fylgja rekstri stórs fyrirtækis. Við erum því í raun með tvenns konar umhverfisbókhald fyrir losun gróðurhúsalofttegunda: eitt sem heldur utan um framleiðsluhlutann og annað sem heldur utan um losun sem verður til við annan rekstur fyrirtækisins.
Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið þegar kemur að álframleiðslunni sjálfri. Þannig hafa álverin á Íslandi nýlega tekið saman vegvísi sem varðar leiðina að auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslunni. Takmarkið er að ná kolefnishlutleysi árið 2040 en til þess af því megi verða er þörf á nýsköpun og tækniþróun enda er kolefnislosun órjúfanlegur hluti af iðnaðarframleiðslu áls eins og hún er stunduð í dag.
Markmið Norðuráls eru einnig skýr þegar kemur að því að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur utan samevrópskra markmiða viðskiptakerfisins og eru því á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Í samræmi við sameiginlegar skuldbindingar Íslands, Noregs og ríkja ESB gagnvart Parísarsamningnum höfum við sett okkur markmið um að árið 2030 skuli losun gróðurhúsalofttegunda utan viðskiptakerfisins hafa dregist saman um a.m.k. 40% miðað við viðmiðunarárið 2015. Jafnframt skuli urðun á blönduðum úrgangi hafa dregist saman um minnst 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015.
Aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af 10 aðgerðum sem er ætlað að vera leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki. Áætlunin gerir grein fyrir stærstu beinu losunarþáttum í starfsemi fyrirtækisins sem falla ekki undir viðskiptakerfið auk annarra óbeinna þátta. Nú þegar hefur góður árangur náðst á þessu sviði. Milli áranna 2015 og 2022 hefur losun gróðurhúsalofttegunda sem áætlunin nær til dregist saman um 35% og urðun á almennum úrgangi hefur dregist saman um 70%. Þessi árangur er starfsmönnum Norðuráls hvatning til að halda áfram ötulu starfi við að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.
Samantekt losunar
Við gerð áætlunarinnar voru greindir veigamestu beinu losunarþættir starfseminnar sem falla undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum auk annarra óbeinna þátta. Þessir losunarþættir snúa að notkun véla og tækja, rekstri samakstursbíla fyrir starfsfólk, notkun kælimiðla vegna leka af búnaði, meðhöndlun úrgangs og flugferða starfsfólks erlendis. Árlega er gagna úr bókhaldi fyrirtækisins aflað til að leggja mat á losun frá þessum þáttum og staða aðgerða og árangur endurmetinn. Aðferðafræði og forsendum við greiningu og mat á losun er nánar líst að neðan.
Þegar litið er til losunar utan framleiðsluferilsins er olíunotkun véla og tækja stærsti losunarþátturinn. Stærstu tækifærin í samdrætti snúa því að orkuskiptum véla og tækja. Frá 2015-2022 hafa vélar og tæki staðið fyrir um 68% losunarinnar að meðaltali, kælimiðlar um 15%, bílar fyrir samakstur starfsmanna um 10%, blandaður úrgangur um 6% og flugferðir starfsmanna erlendis rúmu 1%. Frá árinu 2015 hefur losun dregist saman í öllum flokkum. Mestur samdráttur í losun hefur verið meðal véla og tækja, um 430 tonn CO2-ígilda eða 29%. Losun frá rekstri samferðabíla hefur dregist saman um 24% samhliða innleiðingu rafmagnsbíla og þá hefur losun frá meðhöndlun úrgangs dregist saman um 68% eftir hætt var að urða blandaðan úrgang frá starfseminni. Hann fer nú erlendis til brennslu og nýtist til húshitunar og framleiðslu á heitu vatni.
Vélar og tæki
Markmið: Samdráttur í losun um 40%
Olíunotkun véla og tækja er stærsti hluti losunar sem fellur undir aðgerðaáætlun Norðuráls eða tæp 70%. Unnið er að orkuskiptum véla og tækja á vinnusvæðum og hefur góður árangur náðst á því sviði undanfarin ár. Síðan 2015 hafa 16 rafmagnsvinnuvélar verið teknar í notkun, bæði rafmagnslyftarar og rafknúnir dráttarbílar. Á næstunni eru frekari útskipti áætluð samhliða endurnýjun búnaðar. Með rafvæðingu véla og tækja hefur olíunotkun á þann búnað dregist saman um 157.000 lítra á ári eða sem nemur losun uppá 430 tonn CO2 ígilda.
Aðgerð 1: Áætlunargerð um orkuskipti véla og tækja.
Kælimiðlar
Markmið: Bætt gagnaskráning, endurskoðun tegunda og 40% samdráttur í losun.
Algengustu kælimiðlar sem notast er við í dag eru gjarnan sterkar gróðurhúsalofttegundir og stuðla því að loftslagsbreytingum þegar efnið lekur af búnaði. Hjá Norðuráli er notast við slíka kælimiðla á þjónustukrana og áltökukrana í kerskála, kælikerfi farartækja og rafbúnað. Síðan 2015 hefur losun vegna leka á kælimiðlum af búnaði dregist saman um 51% sem samsvarar 270 tonnum CO2 ígilda.
Aðgerð 2: Bætt gagnaskráning vegna notkunar kælimiðla
Aðgerð 3: Endurskoðun á tegund kælimiðils
Samakstur starfsmanna
Markmið: Samdráttur í losun um 40%.
Hjá Norðuráli ferðast stór hluti starfsmanna samferða til og frá vinnu í bílum Norðuráls. Með samakstrinum er dregið verulega úr heildarfjölda bílferða starfsmanna til og frá vinnu og þar með dregið úr óbeinni losun frá starfsemi Norðuráls. Losun frá samakstri hefur dregist saman ár frá ári og skýrist það af innleiðingu 25 rafmagnsbíla. Þessar aðgerðir hafa skilað samdrætti í losun koldíoxíðs sem nemur 50 tonnum, eða tæplega 19.600 lítrum af olíu á ári. Þetta samsvarar samdrætti um 24% frá árinu 2015 en markmið Norðuráls er að draga úr losun frá þessum flokki um 40% fyrir árið 2030. Til lengri tíma stefnir Norðurál á að allir bílar fyrirtækisins gangi fyrir rafmagni eða öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum.
Aðgerð 4: Áætlunargerð um orkuskipti bíla Norðuráls
Millilandaflug starfsmanna
Markmið: Samdráttur um 40% í losun.
Norðurál er alþjóðlegt fyrirtæki með samstarfsaðila og viðskiptavini um allan heim. Ferðalög starfsmanna erlendis vegna starfa sinni fyrir Norðurál eru óhjákvæmileg, en fyrirtækið telur mikilvægt að halda fjölda flugferða í lágmarki, til að mynda með bættri aðstöðu til fjarfunda og bættu ferli um samþykkt á ferðum erlendis. Frá árinu 2015 hefur losun vegna flugferða dregist saman um 5%.
Aðgerð 5: Endurskoðun á ferli við samþykki flugferða. Starfsfólk þarf að skila rökstuðningi fyrir þörf á ferðum milli landa.
Endurvinnsla og förgun
Markmið: Förgun á almennum úrgangi dragist saman um 40%.
Norðurál leggur ríka áherslu á að draga úr myndun úrgangs og að auka endurvinnsluhlutfall. Úrgangur frá Norðuráli skiptist gróflega í endurunninn úrgang, úrgang til urðunar í flæðigryfjum, fastan úrgang til urðunar, efni frá fráveitu og spilliefni.
Árið 2022 voru 80% af úrgangi sem féllu til vegna starfsemi Norðuráls endurunnin. Stærstur hluti þess er framleiðsluúrgangur á borð við skautleifar og kolaryk. Þegar kemur að framleiðsluúrgangi er leitað leiða til að auka endurvinnslu enn frekar og takmarka losun í flæðigryfjur. Árið 2023 gerðu Norðurál og Alur álvinnsla með sér samning um endurvinnslu á gjallsandi sem fellur til við úrvinnslu álgjalls. Nýr búnaður sem Alur hefur fest kaup á vinnur sandinn svo mögulegt er að endurnýta hann í ýmsa framleiðslu, t.a.m. sementsframleiðslu.
Hjá Norðuráli er einnig stöðugt unnið að því að minnka almennan úrgang frá öðru en framleiðslu og bæta úrvinnslu á honum. Árið 2016 var til að mynda hafin flokkun á lífrænum úrgangi frá mötuneyti. Árið 2023 var skrefið síðan stigið til fulls þegar sérsöfnun á lífrænum úrgangi var innleidd á öllum kaffistofum fyrirtækisins.
Í október árið 2019 var einnota plastpokum skipt út fyrir fjölnota bakka til dreifingar á kosti úr mötuneyti. Hugmyndin að þessum umbótum varð til hjá starfsmönnum við verkefnavinnu í Stóriðjuskóla Norðuráls. Þeim reiknaðist til að með innleiðingu fjölnota bakka væri komist hjá notkun 12.500 plastpoka á ári.
Árið 2021 var urðun á blönduðum úrgangi frá starfsemi Norðuráls hætt. Þess í stað er úrgangurinn nú mótaður í orkukubba af móttökuaðila úrgangsins og þeir fluttir út, mestmegnis til Danmerkur, þar sem þeir eru brenndir til orkunýtingar. Orkan úr því ferli er nýtt til húshitunar og rafmagnsframleiðslu þar sem annars væru notuð kol að stórum hluta. Úrgangurinn nýtist því sem eldsneyti í stað þess að safnast upp í landfyllingum hér á landi með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Hluti af almennum úrgangi frá Norðuráli flokkast hins vegar sem grófur úrgangur sem er ekki tækur til orkunýtingar og fer því til urðunar.
Frá árinu 2015 hefur losun vegna meðhöndlunar almenns úrgangs dregist saman um 96 tonn koldíoxíðígilda, eða um 68%.
Aðgerð 6: Samdráttur í plastnotkun
Aðgerð 7: Kortlagning á möguleikum í nýtingu framleiðsluúrgangs sem fer í flæðigryfjur
Aðgerð 8: Samræming sorpmerkinga
Aðgerð 9: Fræðsla um úrgangs- og umhverfismál
Samfélagið
Norðurál býr yfir miklum og verðmætum mannauði í fjölbreyttum og reyndum hópi starfsfólks. Innan fyrirtækisins starfar fjöldinn allur af einstaklingum með áratuga reynslu og mikla þekkingu á öllu því sem við kemur framleiðslu á áli. Norðurál lítur á það sem hluta af samfélagslegri ábyrgð sinni að miðla slíkum auði, jafnt til fræðasamfélagsins sem og tækni- og nýsköpunariðnaðar. Með því að stuðla að öflugu samstarfi á því sviði getur Norðurál stutt við innleiðingu nýrrar tækni eða aðferða við álframleiðslu sem leiða til skilvirkari starfsemi og mögulega samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.
Aðgerð 10: Stuðningur við rannsóknaverkefni í áliðnaði
Aðferðafræði
Sem fyrr segir er í þessari áætlun horft til losunar utan viðskiptakerfis um losunarheimildir og fyrst og fremst horft til beinnar losunar sem telur inn í losunarbókhald Íslands og fellur því á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum. Með þessum hætti fylgist Norðurál með því hvernig fyrirtækið stuðlar að því að skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi verði uppfylltar.
Við gerð áætlunarinnar var horft til viðmiða The Greenhouse Gas Protocol, en það er alþjóðlegt kerfi hannað til að samræma gerð kolefnisbókhalda. Megináhersla var lögð á að meta beina losun frá starfsemi Norðuráls en að auki var metin óbein losun vegna starfstengdra flugferða og meðhöndlunar á úrgangi. Aðrir þættir óbeinnar losunar, svosem vegna raforkunotkunar og aðfluttrar vöru og þjónustu hafa verið metnir í lífsferilsgreiningu framleiðsluferilsins. Hér að neðan er hverjum losunarþætti stuttlega lýst og aðferðafræði við mat á losun koltvíoxíðsígilda útskýrð.
Vélar og tæki:
Á starfssvæði Norðuráls eru vélar og tæki sem eru knúin áfram af dísilolíu. Olíunotkun er tekin saman á hverju ári í samræmi við reikninga frá birgjum. Til að reikna losun gróðurhúsalofttegunda var notast við losunarstuðul fyrir dísilolíu úr fimmtu útgáfu losunarstuðla af vef Umhverfisstofnunar.
Kælimiðlar:
Á svæði Norðuráls er notast við kælimiðla á ýmsan búnað og farartæki. Á hverju ári er notkun á ólíkum kælimiðlum vegna leka metin útfrá birgðabókhaldi. Til að reikna losun koltvíoxíðsígilda var notast við losunarstuðla úr sjöttu úttektarskýrslu IPCC.
Samakstur starfmanna:
Stór hluti starfsfólks Norðuráls ferðast til og frá vinnu á samkeyrslubílum Norðuráls. Notkun á jarðefnaeldsneyti er tekin saman á hverju ári í samræmi við reikninga fyrir kaupum á dísilolíu og bensíni. Þar sem stærstur hluti er á formi dísilolíu er losun koltvíoxíðsígilda metin með losunarstuðli fyrir dísilolíu úr fimmtu útgáfu losunarstuðla af vef Umhverfisstofnunar.
Millilandaflug:
Í lok hvers árs eru teknar saman upplýsingar um fjölda starfstengdra flugferða starfsfólks Norðuráls á Grundartanga eftir áfangastað. Við útreikninga á losun er notast við reiknivél Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO.
Úrgangur:
Við mat á losun frá meðhöndlun úrgangs er litið til urðunar á almennum úrgangi og jarðgerðar á lífrænum úrgangi. Almennur úrgangur frá Norðuráli er ýmist blandaður úrgangur sem nú fer til orkuendurnýtingar eða grófur úrgangur sem fer til urðunar. Til að meta losun frá urðun á grófum úrgangi og jarðgerð á lífrænum úrgangi er notast við losunarstuðla úr fimmtu útgáfu losunarstuðla af vef Umhverfisstofnunar. Úrgangi sem sendur er til endurvinnslu eða orkunýtingar er gefinn losunarstuðull 0.