Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum og munar mestu um að endurnýjanleg raforka er notuð við framleiðsluna. Þegar litið er á ferlið allt frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru nemur kolefnisspor áls frá Norðuráli einungis fjórðungi af heimsmeðaltali.

Aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af 10 aðgerðum sem er ætlað að vera leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og almennum blönduðum úrgangi árið 2030. Áætlunin gerir grein fyrir stærstu losunarþáttum í starfsemi fyrirtækisins sem falla ekki undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir.

Nú þegar hefur góður árangur náðst. Losun gróðurhúsalofttegunda sem áætlunin nær til hefur dregist saman um 27% og úrgangsmagn um 8%. Þessi árangur er starfsmönnum Norðuráls hvatning til að halda áfram ötulu starfi við að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.

Í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum hefur Norðurál sett sér markmið um að losun gróðurhúsalofttegunda (GHL), sem ekki fellur undir viðskiptakerfi ESB, skuli árið 2030 hafa dregist saman um a.m.k. 40% miðað við árið 2015. Jafnframt skuli urðun á blönduðum úrgangi hafa dregist saman um minnst 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015.

Greenhouse Gas Protocol aðferðin

Sú losun gróðurhúsalofttegunda sem er beintengd framleiðsluferlinu fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Markmið þess er að draga úr losun frá framleiðslu stærri iðnfyrirtækja í Evrópu.

Viðskiptakerfið virkar sem hagrænn hvati fyrir iðnfyrirtæki til að draga úr losun þar sem fyrirtæki greiða fyrir alla losun umfram úthlutaðar heimildir. Norðurál hefur náð góðum árangri í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir viðskiptakerfið. Þannig var staðbundin losun við álframleiðslu hjá Norðuráli 2,1 tonn CO2-ígilda á hvert framleitt tonn árið 2006 en árið 2018 var losunin 1,6 tonn á hvert framleitt tonn. Til samanburðar er áætluð meðallosun á hvert framleitt tonn af áli um 12 tonn á heimsvísu. Þar sem þessari losun er stýrt í gegnum viðskiptakerfi Evrópusambandsins fellur hún ekki undir umfang þessarar aðgerðaáætlunar.

Við gerð áætlunar um aðgerðir til að draga úr losun vegna rekstrarþátta utan viðskiptakerfis með losunarheimildir voru notuð viðmið The Greenhouse Gas Protocol til að greina losun, en það er alþjóðlegt kerfi hannað til að samræma gerð kolefnisbókhalda. Megináhersla lögð á að meta beina losun frá starfsemi Norðuráls, þ.e. frá vélum og tækjum og kælimiðlum, en að auki var metin losun vegna starfstengdra flugferða og samaksturs starfsmanna á bílum Norðuráls, ásamt losun vegna förgunar á blönduðum úrgangi. Í aðgerðaáætluninni er því reiknuð losun frá fimm þáttum í starfseminni en þær aðgerðir sem eru settar fram ná til fleiri þátta.

Vélar og tæki

Markmið: Samdráttur um 940 tonn CO2-ígilda.

Olíunotkun véla og tækja er stærsti hlutinn af heildinni. Stærstu tækifærin í samdrætti snúa því að orkuskiptum véla og tækja. Yfir tímabilið hafa vélar og tæki staðið fyrir um 68% af losun að meðaltali, kælimiðlar um 13%, bílar fyrir samakstur starfsmanna um 10%, blandaður úrgangur um 8% og flugferðir starfsmanna erlendis rúmu 1%. Frá árinu 2015 hefur losun dregist saman í öllum flokkum. Mestur samdráttur í losun hefur verið meðal véla og tækja, um 279 tonn CO2-ígilda eða 19%.

Markmið um 40% heildarsamdrátt felur í sér að draga skuli úr losun um rúm 940 tonn CO2-ígilda fyrir árið 2030 frá viðmiðunarárinu 2015. Heildarlosun árið 2030 verði því undir 1.412 tonnum CO2-ígilda.

Á síðastliðnum árum hafa fimmtán vinnuvélar, m.a. rafmagnsdráttarvélar og rafmagnslyftarar verið teknar í notkun. Árangur þeirra aðgerða er þegar sýnilegur og eru frekari útskipti áætluð. Milli áranna 2015 og 2021 dróst olíunotkun á vélar og tæki saman um alls 103.776 lítra eða sem nemur samdrætti í losun upp á 279 tonn koldíoxíðs.

 

Aðgerð 1: Áætlunargerð um orkuskipti véla og tækja.

Kælimiðlar

Markmið: Bætt gagnaskráning, endurskoðun tegunda og 40% samdráttur.

Algengustu kælimiðlar sem notast er við í dag eru sterkar gróðurhúsalofttegundir og stuðla því að loftslagsbreytingum. Hjá Norðuráli er notast við slíka kælimiðla á þjónustukrana og áltökukrana í kerskála, kælikerfi farartækja og rafbúnað.

Aðgerð 2: Bætt gagnaskráning vegna notkunar kælimiðla
Aðgerð 3: Endurskoðun á tegund kælimiðils.

Samakstur starfsmanna

Markmið: Draga úr losun 40%.

Hjá Norðuráli ferðast stór hluti starfsmanna samferða til og frá vinnu í bílum Norðuráls. Með samakstrinum er dregið verulega úr heildarfjölda bílferða starfsmanna til og frá vinnu og þar með dregið úr óbeinni losun frá starfsemi Norðuráls. Losun frá samakstri hefur dregist saman ár frá ári og skýrist það af innleiðingu níu rafmagnsbíla auk þess sem lögð hefur verið áhersla á sparneytni bíla og bætta sætanýtingu. Þessar aðgerðir hafa skilað samdrætti í losun koldíoxíðs sem nemur 40 tonnum, eða tæplega 16.000 lítrum af olíu.

Samdráttur í losun frá þessum flokki frá árinu 2015 til 2021 nam rúmlega 40 tonnum CO2-ígilda eða 19%. Markmið Norðuráls er að draga úr losun frá þessum flokki um 40% fyrir árið 2030. Til lengri tíma stefnir Norðurál á að allir bílar fyrirtækisins gangi fyrir rafmagni eða öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum.

Aðgerð 4: Áætlunargerð um orkuskipti bíla Norðuráls

Millilandaflug starfsmanna

Markmið: 40%

Norðurál er alþjóðlegt fyrirtæki með samstarfsaðila og viðskiptavini um allan heim. Ferðalög starfsmanna erlendis vegna starfa sinni fyrir Norðurál eru óhjákvæmileg, en fyrirtækið telur mikilvægt að halda fjölda flugferða í lágmarki, til að mynda með bættri aðstöðu til fjarfunda. Mikill samdráttur var í flugferðum árin 2020 og 2021 vegna heimsfaraldursins.

Aðgerð 5: Endurskoðun á ferli við samþykki flugferða. Starfsfólk þarf að skila rökstuðningi fyrir þörf á ferðum milli landa.

Endurvinnsla og förgun

Markmið: Förgun á almennum blönduðum úrgangi dragist saman um 40%.

Norðurál leggur ríka áherslu á að draga úr myndun úrgangs og að auka endurvinnsluhlutfall. Úrgangur frá Norðuráli skiptist gróflega í endurunninn úrgang, úrgang til urðunar í flæðigryfjum, fastan úrgang til urðunar, efni frá fráveitu og spilliefni.

Árið 2021 voru 80% af úrgangi sem féllu til vegna starfsemi Norðuráls endurunnin. Stærstur hluti þess er framleiðsluúrgangur á borð við skautleifar og kolaryk. Endurvinnsluhlutfall framleiðsluúrgangs er erfitt að hækka miðað við þá tækni sem er notast við í álframleiðslu í dag, þar sem megnið af urðuðum úrgangi inniheldur óæskileg efni. Hjá Norðuráli hefur því aukin áhersla verið lögð á að minnka almennan úrgang frá öðru en framleiðlslu og bæta endurvinnslu á honum. Árið 2016 var til að mynda hafin flokkun á lífrænum úrgangi frá mötuneyti. Skipti á einnota drykkjarmálum úr plasti yfir í pappa, samhliða áherslu á notkun fjölnota drykkjaríláta er annað dæmi um vel heppnað umbótaverkefni. Í október árið 2019 var stórt skref stigið með útskiptum plastpoka fyrir fjölnota bakka til dreifingar á kosti úr mötuneyti til kaffistofa innan verksmiðjunnar. Hugmyndin að þessum umbótum varð til hjá starfsmönnum við verkefnavinnu í Stóriðjuskóla Norðuráls. Þeim reiknaðist til að með innleiðingu fjölnota bakka væri komist hjá notkun 12.500 plastpoka á ári.

Frá árinu 2015 hefur losun vegna förgunar almenns úrgangs dregist saman um 14 tonn koldíoxíðígilda, eða um 8%.

Aðgerð 6: Samdráttur í plastnotkun.
Aðgerð 7: Kortlagning á möguleikum í nýtingu framleiðsluúrgangs sem fer í flæðigryfjur
Aðgerð 8: Samræming sorpmerkinga
Aðgerð 9: Fræðsla um úrgangs- og umhverfismál

Samfélagið

Norðurál býr yfir miklum og verðmætum mannauði í fjölbreyttum og reyndum hópi starfsfólks. Innan fyrirtækisins starfar fjöldinn allur af einstaklingum með áratuga reynslu og mikla þekkingu á öllu því sem við kemur framleiðslu á áli. Norðurál lítur á það sem hluta af samfélagslegri ábyrgð sinni að miðla slíkum auði, jafnt til fræðasamfélagsins sem og tækni- og nýsköpunariðnaðar. Með því að stuðla að öflugu samstarfi á því sviði getur Norðurál stutt við innleiðingu nýrrar tækni eða aðferða við álframleiðslu sem leiða til skilvirkari starfsemi og mögulega samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðgerð 10: Stuðningur við rannsóknaverkefni í áliðnaði