4. febrúar, 2020
Norðurál fyrst til að hljóta ASI-vottun
Norðurál á Grundartanga hefur hlotið hina alþjóðlegu ASI vottun um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu, fyrst þeirra álfyrirtækja sem starfa á Íslandi. Vottunin staðfestir að starfsemi og viðskiptahættir fyrirtækisins eru samfélagslega ábyrg og framúrskarandi á sviði umhverfisvænnar framleiðslu.
ASI vottunin tekur til 59 þátta í starfsemi fyrirtækisins, allt frá öflun hráefnis um allan heim að endanlegri afurð, sem er íslenskt hágæðaál. Alþjóðlega gæðavottunarfyrirtækið DNV-GL annaðist ítarlega úttekt á þremur meginstoðum í starfsemi Norðuráls: Stjórnun og rekstri, umhverfisáhrifum framleiðslunnar og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins. Vottunin staðfestir að Norðurál stenst ítrustu kröfur um heiðarlega og ábyrga viðskiptahætti, umhverfisvænt hráefni og framleiðslu.
Norðurál vinnur hreint ál úr áloxíði sem flutt er til landsins. Álvinnslan krefst mikillar orku, sem fengin er úr íslenskum jarðvarma og vatnsorku. Til þess að halda umhverfisáhrifum í lágmarki þurfa allir þættir að haldast í hendur: Hráefnið þarf að koma frá viðurkenndum samstarfsaðilum erlendis, álvinnslan hér á landi þarf að vera í hæsta gæðaflokki og uppfylla ströngustu skilyrði um stöðugleika og tækjabúnað, og kolefnisspor orkuvinnslunnar þarf að vera svo lágt sem kostur er.
Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, segir ASI vottun mikilvægt skref í stöðugri framþróun fyrirtækisins: „Við búum að því hér á Íslandi að öll raforka er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, sem minnkar umhverfisáhrif okkar verulega. En við eigum einnig frábært og vel þjálfað starfsfólk, sem heldur framleiðslunni gangandi hnökralaust allan sólarhringinn, allan ársins hring. Stöðugleiki í framleiðslunni tryggir að við getum farið mjög nálægt því að keyra á bestu mögulegu ferlum, sem heldur losun í algjöru lágmarki. Það er svo sannarlega okkar góða starfsfólki að þakka að við höfum náð þeim stóra áfanga sem ASI vottunin er.“
Alþjóðleg ASI vottun
ASI (The Aluminium Stewardship Initiative) eru alþjóðleg samtök leiðandi álframleiðenda og hráefnisframleiðenda, umhverfissamtaka og samtaka um samfélagsábyrgð, ásamt framleiðendum á vörum úr áli og álblöndum. Markmið samtakanna er að hvetja til samfélagsábyrgðar og umhverfisvænna vinnubragða við álframleiðslu og álnotkun, allt frá frumvinnslu hráefnis að endanlegri afurð og endurvinnslu áls. Félagar í samtökunum koma úr öllum áttum og heimshornum, allt frá námafyrirtækjum til heimsþekktra fyrirtækja á neytendamarkaði fyrir drykkjarvörur, bíla og raftæki.