Öryggisreglur

1. Inngangur
Áður en haldið er á athafnasvæði (kort af athafnasvæði) 

 • Enginn starfsmaður má starfa á svæði Norðuráls án þess að hafa áður hlotið kynningu á öryggis-, heilbrigðismálum og svæðiskynningu
 • Börn yngri en 15 ára er óheimill aðgangur af svæðinu nema þegar gerðar eru sérstakar ráðstafanir af Norðuráli
 • Vegna segulsviðs í kerskála og steypuskála er óheimill aðgangur fólks með gangráð og þungaðar konur mega ekki koma inn á framleiðslusvæðið
  • Segulsvið getur eyðilagt armbandsúr, greiðslukort og annan viðkvæman búnað

2. Notkun persónuhlífa

Á öllum svæðum innan girðingar þarf að vera með lokaðan öryggishjálm, öryggisgleraugu og öryggisskó (vottaðir fyrir 18.000 volt)

Um leið og komið er inn á framleiðslusvæði og verkstæði aukast kröfur um persónuhlífar.

3. Akstur og gönguleiðir á athafnasvæði Norðuráls

Akstur:

 • Hámarkshraði
  • 10 km/klst innandyra
  • 20 km/klst utandyra
  • Hámarkshraði deiglubíla og lyftara með farg á göflum er 6 km á klst (röskur gönguhraði)
 • Ná augnsambandi og fylgja því eftir með handahreyfingu hvort sem maður er akandi eða gangandi
 • Einkabílar eða tæki sem eru ekki í eigu Norðuráls eru óheimil innan athafnasvæðisins nema með akstursleyfi Norðuráls
 • Hreinsa verður allan snjó og ís af ökutækjum sem þurfa að fara inn í kerskála
 • Óheimilt er að fara inn í svæði á ökutæki án leyfis yfismanns þess svæðis

Gangandi umferð:

 • Alltaf skal fylgja merktum gönguleiðum, bæði innan og utandyra
 • Gangið aldrei um akstursdyr
  • Við allar akstursdyr eru hurðar sem ætlaðar eru gangandi umferð
 • Þegar gengið er á milli svæða í kerskála skal nota svokallaða ELAS ganga sem staðsettir eru á bak við kerin í hverjum skála

4. Áhættuskimun og áhættugreiningar

Áhættuskimun
Áður en öll verk hefjast ber að áhættuskima verkið. Farið í gegnum verkið í huganum og fyllið út áhættuskimunar blað. Ef hætta er til staðar skal stoppa og takmarka hættuna áður en haldið er af stað áfram. Norðurál útvegar áhættuskimunarblað/bók.

Áhættugreiningar
Áhættugreina skal öll viðhalds- og reglubundin verk sem unnin eru á athafnasvæði Norðuráls. Öryggisdeild sér um áhættugreiningar starfa, þegar áhættugreining fer fram er þá fraið í gegnum hvern lið verksins með starfsfólki Norðuráls sem þekkja til verksins og/eða verktaka.

5. Rafmagnsöryggi
Öll vinna við rafmagn á athafnasvæði Norðuráls skal unnin af fagaðilum. Aldrei má hefja vinnu við rafkerfi Norðuráls nema til þess hafi verið fengin skriflegt leyfi frá umsjónaraðila verks eða yfirverkfræðingi rafveitu.

Hér gilda allar almennar reglur um rafmagnsöryggi.

 • Óheimilt er að vinna við rafbúnað nema með tilskilin leyfi, hlotið þjálfun og öðlast kunnáttu til verksins
 • Óheimilt er að nota biluð rafmagnsverkfæri, úr sér gengna strengi eða annan óhæfan rafbúnað
 • Óheimilt er að losa eða fjarlægja jarðtengingar
 • Öll rafmagnstæki ber að taka úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun eða skilin eftir eftirlitslaus
 • Aðgangur að háspennubúnaði Norðuráls er bannaður öllum öðrum en þeim sem hafa fengið afhentan lykil sem gengur að háspennurýminu
  • Starfsfólki án lykils er eingöngu heimill aðgangur í fylgd kunnáttuaðila með lykil að fengnu leyfi yfirverkfræðings rafveitu
 • Óheimilt er að torvelda aðgengi að háspennubúnaði eða að rýmum sem innihalda háspennubúnað

Sérstækt rafmagnsöryggi kerskála:

 • Vinnuleiðbeiningum skal fylgja við alla vinnu. Nánari lýsingar í rafmagnsöryggi í kerskála má finna í bæklingi þess efnis
 • Jarðfrítt svæði. Umhverfis kerfin í kerskálanum er jarðfrítt svæði. Það afmarkast af veggjum beggja vegna kera og nær upp í 2,5 m hæð frá kerskálagólfi. Innan þessa svæðis má enginn hlutur vera í beinu, leiðandi sambandi við jörð.
  • Ávallt skal vera í hreinum og heilum hönskum og þurrum og heilum skóm
  • Öll notkun verkfæra með beina tengingu við rafmagn er óheimil innan jarðfría svæðisins (hleðsluverkfæri eru í lagi)
 • Forðast skal beina snertingu við risil og ker þar sem spennan á þessum búnaði getur verið allt að 1500 Volt. Þegar unnið er á kerlínu skal nota viðeigandi öryggis og hlífðarbúnað (hanska og skó)
 • Öll notkun málmstiga og leiðandi búnaðar yfir 1,5 m á lengd á framleiðslusvæðum er bönnuð nema áhættugreining hafi átt sér stað fyrir þau verk þar sem unnið er með slíkan búnað
 • Neyðarhnappar í kerskálum eru til að slá út kerlínum í neyðartilvikum
 • Öll vinna í kjallara er óheimil nema áhættugreining hafi farið fram

6. Eld- og sprengivarnir

 • Raki og bleyta getur myndað mikla sprengingu í kerum. Því eru drykkur og drykkjarföng bönnuð á framleiðslusvæði
 • Við vinnu í keri þarf ávallt að forhita öll verkfæri
 • Öll vinna við logsuðu, rafsuðu eða annars konar vinna sem veldur neistaflugi eða opnum eldi er óheimil nema með logaleyfi
 • Slökkvitæki er að finna við alla útganga

7. Umhverfishegðun

Við höldum umhverfi okkar hreinu og snyrtilegu:

 • Göngum frá eftir okkur jafn óðum
 • Flokkum sorp til endurvinnslu í sérstök ílát

Losun efna:

 • Þau sem vinna með efni þurfa að þekkja sérstaklega vel viðbragðsáætlun vegna umhverfisóhapps (bráðamengun)
  • Til að koma í veg fyrir útbreiðslu:
   • Stífla þarf niðurföll þegar hætta er á að olía eða önnur efni berist í þau
   • „Spill kit“ til að stífla niðurföll er að finna við olíudælu og á verkstæðum
   • Ef mikið magn +-100 lítrar berast í niðurföll þarf að tilkynna bráðamengun samstundis
   • Neyðarstjórn hefur samband við ytri aðila. (Neyðarstjórn skipar framkvæmdastjórn)
  • Óheimilt er að koma með efni inn á svæðið án þess að hafa leyfi frá Norðuráli
   • Öllum efnum skal fylgja öryggisblað (MSDS) þar sem fram koma allar upplýsingar um efni, hvað skal varast o.s.frv.
    • Öryggisblað efna sem eru samþykkt inn á svæði er hægt að nálgast víða á athafnasvæðinu og á innranetinu. Undir Öryggismál og þar undir öryggisblöð.

8. Þekking til staðar

Til þess að koma í veg fyrir slys er nauðsynlegt að þekking á verklagi viðkomandi verks og búnaðar sé til staðar.

8.1 Vinnuleiðbeiningar
Öll störf Norðuráls þarf að vinna samkvæmt fyrirfram ákveðnu fyrirkomulagi. Til þess notum við vinnuleiðbeiningar. Óheimilt er að vinna verk ef maður þekkir ekki rétt verklag skv. vinnuleiðbeiningum. Allar vinnuleiðbeiningar má nálgast í gæðahandbók, á innra neti Norðuráls eða hjá næsta yfirmanni.

8.2 Vinnuvélaréttindi
Við vinnu á tæki þarf tilskilin réttindi skv. lögum. Óheimilt er að vinna á tæki án tilskilinna réttinda.

8.3 Læsa- Merkja – Prófa  LOTOV
Áður en farið er inn fyrir öryggishlið búnaðar eða unnið er við búnað skal honum læst út með líflás. Allt starfsfólk þarf að hafa fengið kynningu hjá öryggisdeild áður en það getur unnið við búnað sem þarf að læsa út.
Tilgangur LOTOV er að koma í veg fyrir slys á fólki við þjónustu- eða viðhaldsstörf, með því að læsa út búnaði með líflás og veita þar með vernd gegn óvæntri ræsingu, orkulosun meðan á þjónustu eða viðhaldi búanaðar stendur og loka á háskalega orku.

Starfsfólk Norðuráls fær afhent lása hjá öryggisdeild, verktakar þurfa að útvega sínu starfsfólki líflása, þeir skulu vera svartir á lit og merktir með nafni og símanúmeri viðkomandi starfsmanni.

8.4 Fallvarnir – Vinna í hæð

 • Skylt er að nota fallvarnarbúnað ef unnið er við óvarða brún eða á vinnupalli án handriðs
 • Fallvarnarbúnaðar er krafist við vinnu í skæra- og spjótlyftum. Ekki má hreyfa lyfturnar fyrr en líflína hefur verið fest við festipunkt lyftunnar
 • Ef persónuhlífar eiga að veita fallvörn, er krafist líkamsbeltis og líflínu sem er fest í stöðugan festipunkt
 • Þegar unnið er í spjót- eða skæralyftu skal afmarka svæðið í kringum lyftuna með viðvörunarkeilum
 • Festið allt efni sem notað er uppi á vinnusvæðinu. Einkum verkfæri og aðra lausa hluti

8.5 Lokuð rými
Lokuð rými er skilgreind sem öll þau rými sem þar sem aðgengi og/eða lofgæði geta haft áhrif á heilsu og öryggi fólks. Þegar fara þarf inn í lokað rými þarf að fylgja inngönguverklagi fyrir viðkomandi rými.

Áður en farið er inn í lokað rými þarf að kynna sér áhættugreiningu rýmisins, áhættugreiningar lokaðra rýma er að finna http://nordurljos.nordural.is/oryggismal/lokud_rymi

Sækja þarf um sérstakt inngönguleyfi til að vinna í lokuðu rými. Einnig þarf að vera öryggisvarsla fyrir utan rýmið á meðan unnið er í því. Þegar rými er skilgreint sem óleyfisskylt þarf ekki að vera öryggisvarsla fyrir utan á meðan unnið er í rýminu en þó þarf að súrefnismæla rýmið áður en farið er inn.

9. Sérstök leyfi til vinnu

9.1 Logaleyfi
Sækja þarf um logaleyfi fyrir öll verk sem fela í sér opinn eld eða verk sem framkalla hita- og/eða neistamyndun. Þetta felur í sér en takmarkast ekki við eftirfarandi: Logsuðu, logskurður, rafsuða, slípun, lagning tjörupappa o.s.frv. Logaleyfi eru gefin út af umsjónarmanni viðkomandi svæðis.

9.2 Graftrarleyfi
Sækja þarf um leyfi fyrir allan gröft á athafnasvæðinu til að koma í veg fyrir tjón, til dæmis á strengjum og lögnum sem gætu legið þar sem gröftur fer fram. Graftrarleyfi eru gefin út af umsjónaraðila viðkomandi svæðis í samráði við umsjónaraðila bygginga og svæðis.

9.3 Verkleyfi (verktakar)
Verktökum er óheimilt að hefja verk án þess að fyrir liggi undirritað verkleyfi umsjónaraðila þess svæðis þar sem verkið er unnið. Umsjónaraðili svæðisins þarf að skrifa undir verkleyfið í byrjun hvers dags sem verkið er unnið.

10. Koma og skráning gesta og verktaka

Gestir og aðrir sem koma inn á svæði Norðuráls eru:

 • Ávallt í fylgd innan svæðis
 • Vinna enga líkamlega vinnu innan svæðis

Þurfa við komu inn á svæði að:

 • Fá gestakynningu
 • Vera klæddir í öryggishjálm, öryggisgleraugu og öryggisslopp eða öryggisfatnaði eftir því sem við á

Starfsfólk verktaka sem vinna á athafnasvæði Norðuráls þarf áður en það hefur störf hjá Norðuráli:

 • Vera skráð inn í kerfi Norðuráls
 • Sitja öryggisnámskeið og samþykkja öryggisreglur
 • Vera klædd samkvæmt öryggisreglum Norðuráls
 • Samþykkja rafræna vöktun
 • Stimpla sig inn í öll verk og vera með verkleyfi til vinnu viðkomandi verks

11. Tilkynningaskylda

Öll óhöpp, slys og tjón ber að tilkynna í ábendingagrunn Norðuráls eða til næsta yfirmanns. Við trúum að öll slys geri boð á undan sér og því viljum við einnig fá inn ábendingar um næstum því slys, öryggisábendingar eða umhverfisábendingar. Unnið er úr öllum ábendingum og gerðar á þeim úrbætur.