Starfsfólk úr öllum áttum

Liðsheild og heilindi

Hjá Norðuráli mismunum við ekki á grundvelli kyns, uppruna, trúarbragða eða kynhneigðar. Fjölbreytni styrkir starfsemina og hjálpar okkur að ná framúrskarandi árangri. Við leggjum áherslu á jafnan rétt starfsfólks til starfsframa, launa og réttinda og högum starfsemi okkar og viðskiptum með virðingu fyrir mannréttindum að leiðarljósi.

Mörg störf í álframleiðslu eru þess eðlis að mikill meirihluti starfsfólksins hefur í gegnum tíðina verið karlar. Fyrir þessu eru að okkar mati engin haldbær rök og við vinnum markvisst að því að bæta jafnvægi kynjanna á öllum sviðum starfseminnar. Það gengur misvel, þar sem oft skortir mikið á að nægilega margar konur sækist eftir störfum við framleiðsluna, en því fer sem betur fer víðsfjarri að nútíma álver sé einhver karlavinnustaður þar sem konur upplifa sig utanveltu eða í aukahlutverkum. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur og vinnum stöðugt að auknum hlut kvenna á vinnustað þar sem liðsheildin skiptir öllu máli.

 

Reynsla og stöðugleiki

Við erum stolt af lítilli starfsmannaveltu hjá Norðuráli og metum mikils að hjá okkur starfa enn fjölmargir sem réðu sig til starfa á fyrstu starfsárum fyrirtækisins. Við teljum að metnaður í lykilþáttum á borð við kaup og kjör, aðbúnað og öryggi, möguleika til framgangs í starfi og almenna vellíðan á vinnustað skili sér í hóflegri starfsmannaveltu og stöðugleika í rekstri. Meðalstarfsaldur starfsfólks hjá fyrirtækinu var 7,7 ár í lok árs 2021.

 

Öll á réttum aldri

Í samanburði við önnur stór fyrirtæki á Íslandi er meðalaldur starfsfólks Norðuráls líklega í hærri kantinum, eða 37,5 ár. Mörg starfanna krefjast umtalsverðrar sérþjálfunar og það er verðmætt að búa yfir þrautreyndu fólki á öllum starfsstöðvum á hverri einustu vakt. Yngsta starfsfólkið lærir af þeim sem eru eldri og reyndari, en koma líka með ferska vinda inn á vinnustaðinn.

 

Stærsti vinnustaður Vesturlands

Norðurál gegnir lykilhlutverki fyrir Akranes og nærsveitir, en þar býr meirihluti starfsfólksins, auk fjölda annarra sem veita okkur margvíslega þjónustu. Af um 650 starfsmönnum búa um 400 á Akranesi eða nærsveitum Akraness og svo koma 30 til viðbótar frá Borgarnesi. Samsetningin hefur sveiflast talsvert gegnum tíðina og virðist ráðast af ýmsum ytri þáttum, allt frá húsnæðisframboði að upp- og niðursveiflum í íslenska hagkerfinu. Hlutfall búsettra á Akranesi og nágrenni í árslok 2020 er næstum 70%, sem er með því hæsta sem við höfum séð.

Jafnlaunavottun

Norðurál hefur hlotið jafnlaunavottun með gullmerki PwC, sem skipar okkur í fremstu röð íslenskra fyrirtækja þegar kemur að launajafnrétti. Vottunin sýnir að hjá Norðuráli er starfsfólki greidd laun eftir ábyrgð, sérþekkingu og vinnuframlagi, ekki kyni eða uppruna. Þá staðfestir hún málefnalega og sanngjarna stjórn launamála hjá fyrirtækinu.

Karlar eru enn í meirihluta

Þrátt fyrir stöðugar og markvissar aðgerðir til að jafna hlut kynjanna eru rúmlega 3/4 starfsfólksins karlar. Eins og við er að búast er hlutur þeirra er stærstur í framleiðslustörfum, þar sem yfir 80% starfsfólks eru karlar, og nær allir iðnaðarmenn okkar eru karlar. Á öðrum sviðum hefur gengið hraðar að jafna hlut kynjanna og eru konur nú þriðjungur stjórnenda og sérfræðinga hjá fyrirtækinu. Helmingur æðstu stjórnenda er konur. Norðurál er jafnlaunavottað fyrirtæki og starfar eftir jafnréttisáætlun.

 

Nýráðningar 2020

Árið 2020 bættust 51 í hóp fastráðins starfsfólks og 69 ungmenni fengu verðmæta starfsreynslu við fjölbreytt sumarstörf. Í árslok 2020 voru 651 í föstu starfi hjá Norðuráli, sem gerir fyrirtækið að stærsta vinnustað Vesturlands og einum fjölmennasta vinnustað landsins.