Umhverfi

Áætlanir til að draga úr loftslagsbreytingum E1-1

Loftslagsmál eru einn af lykiláhersluþáttum Norðuráls í stefnumótun og framtíðarverðmætasköpun. Félagið framleiðir ál með einu lægsta kolefnisspori í heiminum og byggir það á notkun 100% endurnýjanlegrar raforku, stöðugleika í framleiðsluferlum og markvissri stjórnun á losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Kolefnisspor Norðuráls er um fjórðungur af heimsmeðaltali þegar horft er til umfangs (Scope) 1, 2 og 3 í virðiskeðjunni.
  • Bein losun í umfangi 1 (Scope 1) er undir 2 tonn af CO₂ ígildi á hvert tonn framleiðslu.
  • Fyrirtækið hefur dregið verulega úr losun PFC-gastegunda og öðrum kemískum efnum sem falla undir ETS kolefnismarkaðinn og E-PRTR, losunarskrá um mengunarefni (European Pollutant Release and Transfer Register).
  • Norðurál hefur náð 49% samdrætti í losun utan ETS-kerfisins miðað við 2015, sjö árum á undan áætlun. Nýtt markmið er 55% samdráttur fyrir árið 2030.
  • Stefnt er að kolefnishlutleysi árið 2040 fyrir álframleiðslu félagsins.

Loftslagsmál

Losun frá álframleiðslu Norðuráls er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Þessi árangur næst með vönduðum vinnubrögðum og skilvirku eftirliti með rekstri. Losun utan framleiðslu minnkar stöðugt og þar er unnið eftir nákvæmri aðgerðaráætlun og skýrum markmiðum og mælikvörðum.

Í samræmi við stefnu fyrirtækisins vinnur Norðurál stöðugt að lágmörkun umhverfisáhrifa, þar með lágmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Árangur og markmið Norðuráls gagnvart samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eru reglulega rýnd m.a. á fundum stýrihóps í sjálfbærnimálum og á mánaðarlegum fundum umhverfismála.

Segja má að umhverfisáhrif vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Norðuráls séu tvíþætt. Annars vegar eru það umhverfisáhrif sem fylgja framleiðsluferli álframleiðslunnar sjálfrar. Sú losun fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS kerfi). Hins vegar eru það þau almennu umhverfisáhrif sem fylgja rekstri stórs fyrirtækis. Við erum því í raun með tvenns konar umhverfisbókhald fyrir losun gróðurhúsalofttegunda: eitt sem heldur utan um framleiðsluhlutann og annað sem heldur utan um þá losun sem verður til við annan rekstur fyrirtækisins – okkar samfélagslegu losun.

Norðurál hefur sett metnaðarfull markmið þegar kemur að álframleiðslunni sjálfri. Takmarkið er að ná kolefnishlutleysi árið 2040 en til þess af því megi verða er þörf á nýsköpun og tækniþróun enda er kolefnislosun órjúfanlegur hluti af iðnaðarframleiðslu áls eins og hún er stunduð í dag. Mikilvægur þáttur í lágmörkun kolefnissporsins er að greina lífsferil þess allt frá öflun hráefna til fullunninnar vöru. Verkfræðistofan Efla hefur framkvæmt lífsferilsgreiningu (e. Life Cycle Assessment) á því áli sem fyrirtækið framleiðir. Slík greining var fyrst unnin árið 2019 en árið 2024 var greiningin uppfærð með beinum gögnum úr rekstri stærstu birgja Norðuráls. Greiningin miðast við vistferil álsins frá vöggu að hliði (e. cradle-to-gate) þar sem tekið er tillit til framleiðslu og flutnings hráefna, staðbundinnar losunar og myndunar úrgangs. Umhverfisáhrif allra hlekkja í framleiðslukeðjunni eru metin og skrásett. Þar sést svart á hvítu hvar og hvernig má haga innkaupum og hanna framleiðsluferlið til að lágmarka umhverfisáhrif.

 

Áhrif áhættur og tækifæri ESRS2 IRO-1

Norðurál notar samþætt ferli til að meta og bregðast við loftslagsáhættu, í samræmi við ESRS og TCFD-leiðbeiningar:

  • Greining á beinni og óbeinni losun (umfang 1, 2 og 3) er regluleg og byggir á mælikvörðum úr stjórnkerfi fyrirtækisins sem eru ISO og ASI vottuð.
  • TCFD-módel og umhverfisþáttagreining eru notuð til að greina áhrif loftslagsbreytinga á rekstur, orkuöryggi og virðiskeðju.
  • Áhættur sem metnar eru: áhrif á aðfangakeðju, sveiflur í orkuverði, losunarkvótar og hækkandi kolefnisgjöld.
  • Tækifæri sem nýtt eru: aukin eftirspurn eftir áli með lágu kolefnisspori, græn fjármögnun, nýsköpun í hringrás og rekjanleiki aðfangakeðju.

Stjórnun og ábyrgð

  • Málaflokkur loftslagsmála er undir stjórn framkvæmdastjóra öryggis-, umhverfis- og umbótasviðs og er ræddur reglulega í sjálfbærnistýrihópi og á fundum framkvæmdastjórnar.
  • Áhættan er metin sem hluti af samþættri áhættustýringu Norðuráls (GOV-5) og skýrslugjöf samkvæmt ESRS er hluti af stjórnkerfi fyrirtækisins.

 

Mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum E1-2

Norðurál framleiðir ál með einu lægsta kolefnisspori í heimi. Þegar litið er á framleiðsluferlið í heild, allt frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru til viðskiptavina, nemur kolefnisspor áls frá Norðuráli einungis um fjórðungi af heimsmeðaltalinu. Norðurál stefnir að því að verða fyrsta álver í heiminum sem framleiðir kolefnishlutlaust ál.

Stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda frá álverum er CO₂ sem losnar frá kolefnisskautum við rafgreiningu á áli. Með bestu fáanlegu tækni er ekki til önnur aðferð til að frumframleiða ál. Þess vegna er einkum horft til tveggja leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum:

  • Að þróa nýja tegund skauta þar sem kolefni binst ekki súrefni. Það hefði í för með sér að losun CO₂ yrði hverfandi.
  • Að fanga CO₂ úr útblæstri kerskála og háfa. Stærsta áskorunin er sú að styrkur CO₂ per rúmmál í útblæstri er lágur, eða álíka mikill og í andrúmsloftinu. Það gerir notkun þeirra tæknilausna sem standa til boða að krefjandi viðfangsefni.

Í stefnumótun fyrirtækisins til skemmri og lengri tíma er litið til þess að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Ferlar fjárfestingarverkefna taka mið af þessu sem stuðlar að orkuskiptum og samdrætti í notkun olíu og gass á vélar, farartæki og búnað í framleiðslu.

 

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum E1-3

Norðurál hefur sett sér skýr og mælanleg markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og stefnir að kolefnishlutleysi árið 2040. Til að ná þessum markmiðum hefur félagið mótað aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Hér má finna sérstaka samantekt á aðgerðum sem snúa að losun frá starfsemi Norðuráls sem fellur undir umfang Parísarsamkomulagsins. Áætlunin er uppfærð reglulega með nýjustu verkframvindu og mælingum.

Aðgerðir Norðuráls til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ná yfir bæði beina og óbeina losun (Scope 1, 2 og 3) og byggir á eftirfarandi megináherslum:

  • Bætt orkunýtni í framleiðsluferlum með tækniuppfærslum og nákvæmri stýringu á orkunotkun.
  • Samstarf við birgja um að draga úr kolefnisspori aðfanga, sérstaklega rafskauta og báxíts.
  • Innleiðing kolefnisverðlags í rekstrarákvarðanir og langtímagreiningu fjárfestinga.
  • Hringrásarlausnir og endurhönnun til að nýta hráefni betur og draga úr úrgangi.
  • Kolefnisbinding og rannsóknir á nýrri tækni í samstarfi við vísindasamfélagið og nýsköpunarverkefni.
  • Greining á Scope 3 losun og samstarf við viðskiptavini og aðila í virðiskeðju til að draga úr óbeinni losun.

 

Markmið tengt loftslagsbreytingum E1-4

Norðurál stefnir að því að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki eigi síðar en árið 2040. Þetta markmið tekur til allrar starfsemi félagsins og spannar beinar og óbeinar losunarheimildir samkvæmt umfangi 1, 2 og 3. Framvinda í loftslagsmálum er metin árlega og rýnd af stjórn og framkvæmdastjórn Norðuráls. Árlegar framvinduskýrslur eru birtar á vef fyrirtækisins og í sjálfbærniskýrslu í samræmi við ESRS staðla.

Til að ná markmiðinu hefur Norðurál sett sér mælanleg undirmarkmið og aðgerðaáætlun með áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Halda beinni losun (umfang 1) undir 2 tonnum CO₂ á hvert framleitt tonn áls og halda áfram að lækka hana í takt við tækniframfarir og umbætur í framleiðslu.
  • Viðhalda notkun 100% endurnýjanlegrar raforku (umfang 2) úr vatnsafli og jarðvarma í framleiðsluferlinu.
  • Draga úr losun sem fellur undir umfang Parísarsamkomulagsins um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 miðað við viðmiðunarár 2015.
  • Meta kolefniskostnað við allar helstu fjárfestingar og innleiða kolefnisverðlagningu í ákvarðanatöku.
  • Innleiða lausnir til kolefnisbindingar og efla þátttöku í nýsköpunarverkefnum og vísindasamstarfi.

 

Orkunotkun og orkusamsetning E1-5

Ísland er eitt örfárra landa í heiminum sem framleiða rafmagn nær eingöngu úr endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Rafmagnið er nýtt að langstærstum hluta til að vinna hreint ál úr áloxíði og nálgast hlutur Íslands 2% af heimsframleiðslu áls. Til framleiðslunnar árið 2024 notaði Norðurál 4.600 GWst af hreinni endurnýjanlegri raforku, sem er um fjórðungur allrar raforku sem framleidd er á Íslandi. Rafmagnsnotkun í kerskála á hvert framleitt tonn af áli var 13,7 MWst/t Al. Ál sem framleitt er hjá Norðuráli er með eitt lægsta kolefnisspor sem völ er á í heiminum.

 

Losun gróðurhúsalofttegunda E1-6

Ál sem framleitt er hjá Norðuráli er með lægsta kolefnisspori á heimsmarkaði. Heildar kolefnisspor – frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru – nemur einungis fjórðungi af heimsmeðaltali og um helmingi af meðaltali í Evrópu.

Umhverfisáhrif gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Norðuráls má flokka í tvo meginflokka:

  • Framleiðslulosun (ETS-kerfi): Bein losun frá álframleiðslu í kerskálum fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS).
  • Almenn rekstrarlosun: Losun sem verður til vegna annars rekstrar, svo sem vegna vinnuvéla, úrgangs og samgangna. Þessi losun er utan ETS og er hluti af samfélagslegum áhrifum fyrirtækisins.

Norðurál heldur því tvöfalt kolefnisbókhald – annað sem nær til kerskála og hitt sem nær til almennrar starfsemi. Árangur og aðgerðir eru mældar sérstaklega fyrir hvorn flokk um sig.

Losun utan framleiðsluferilsins

Stærsti losunarþátturinn utan framleiðsluferilsins er olíunotkun véla og tækja. Mestu tækifærin í samdrætti snúa því að orkuskiptum véla og tækja. Á tímabilinu 2015 til 2024 hefur heildarlosun dregist saman í öllum flokkum, að undanskildum flugferðum sem jukust tímabundið vegna innleiðingar á nýrri framleiðslulínu.

Aðrir meginlosunarþættir eru:

  • Vélar og tæki: um 68%
  • Kælimiðlar: um 15%
  • Bílanotkun starfsfólks (samakstur): um 10%
  • Blandaður úrgangur: um 6%
  • Flugferðir erlendis: rúm 1%

Árangur í samdrætti í losun

Samdráttur í losun frá vélum og tækjum var um 44% eða um 650 tonn CO₂-ígilda, með orkuskiptum og minni eldsneytisnotkun.

Samdráttur í losun frá samakstri starfsfólks var um 70% með innleiðingu rafmagnsbíla.

Losun frá meðhöndlun úrgangs dróst saman um 44% eftir að hætt var að urða blandaðan úrgang og hann í staðinn fluttur til orkunýtingar erlendis (brennslu með endurvinnslu á varma í húshitun og heitavatnsframleiðslu).

 

 

 

 

 

 

Mótvægisaðgerðir við losun gróðurhúsalofttegunda E1-7

Norðurál hefur fest kaup á 1.100 vottuðum íslenskum kolefniseiningum frá Yggdrasil Carbon (YGG) úr fyrsta íslenska vottaða kolefnisbindingarverkefninu. Einingarnar koma frá verkefni YGG á Arnaldsstöðum í Fljótsdal en greni fura og ösp voru gróðursett í það verkefni sumarið 2022. Kolefniseiningarnar verða ekki virkar fyrr en mælingar sýna raunverulega bindingu í skóginum, en gert er ráð fyrir því að einingar Norðuráls muni raungerast allt til ársins 2072. Ein vottuð kolefniseining verður til þegar eitt tonn af koltvísýringi, sem hefur verið mælt með viðurkenndum aðferðum og vottað sem slíkt, er dregið úr andrúmslofti eða er hindrað að berist í andrúmsloft.

 

Innra kolefnisverð E1-8

Sú losun gróðurhúsalofttegunda sem er beintengd framleiðsluferli Norðuráls fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Markmið þess er að draga úr losun frá framleiðslu stærri iðnfyrirtækja í Evrópu þar sem fyrirtækin þurfa að kaupa losunarheimildir. Viðskiptakerfið virkar því sem hagrænn hvati fyrir iðnfyrirtæki eins og Norðurál til að draga úr losun.

 

Fjárhagsleg áhrif E1-9

Loftslagsbreytingar geta skert aðgengi að hráefnum, eða skert gæði hráefna. Loftslagsbreytingar geta valdið röskun á flutningskeðju hráefna. Öfgar í veðurfari (mikið frost/mikill hiti/stormar/flóð/hækkun sjávarborðs) geta valdið tjóni á eignum sem getur skert gæði framleiðslu og framleiðslugetu. Þurrkatíð hefur áhrif á vatnsstöðu á hálendi og þar með aðgengi að endurnýjanlegri raforku. Allir þessir þættir geta haft veruleg fjárhagsleg áhrif á rekstur Norðuráls.

 

Mengun – Stefna tengd mengun E2-1

Umhverfisstefna Norðuráls lýsir metnaði fyrirtækisins til að lágmarka hvers kyns losun, hvort sem er til lofts í vatn, sjó eða jarðveg. Umhverfisáhrif eru hluti af áhættumati í tengslum við fjárfestingarverkefni og verklagsreglur Norðuráls taka mið af lágmörkun umhverfisáhrifa. Skýrar verklagsreglur, eftirfylgni með þeim og vöktun á losun tryggja þannig að rekstur Norðuráls sé í sátt við umhverfi og samfélag. Umhverfisþáttagreining fyrirtækisins tekur á áhættuþáttum sem snúa að hvers kyns losun og hvernig slíkri losun er stýrt og hún lágmörkuð. Viðbrögð við bráðamengun eru skilgreind í viðbragðs- og rýmingaráætlun fyrirtækisins.

Starfsleyfi Norðuráls er gefið út af Umhverfisstofnun og því fylgja ítarlegar kröfur um innri og ytri vöktun. Innri vöktun er skilgreind í mæliáætlun sem fylgir starfsleyfi en ytri vöktun er lýst í vöktunaráætlun sem er samþykkt af Umhverfisstofnun.


 

Lýsing á ferlum til að greina mengun, áhættur og tækifæri ESRS 2 IRO-1

Norðurál hefur innleitt samþætt, vottuð ferli til að greina og meta umhverfisáhrif, áhættur og tækifæri sem tengjast mengun og öðrum sjálfbærniþáttum. Ferlarnir eru hluti af ISO 14001 vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi og samþættir heildarstjórnun fyrirtækisins.

Umhverfisþáttagreining

  • Norðurál framkvæmir kerfisbundna umhverfisþáttagreiningu þar sem allir þættir í rekstrinum eru metnir út frá umfangi, alvarleika og líkum á neikvæðum áhrifum.
  • Þeir umhverfisþættir sem teljast áhættusamir eða mikilvægar áskoranir eru skilgreindir sem mikilvægir umhverfisþættir og sæta árlegri rýni og forgangsröðun aðgerða.
  • Aðrir þættir eru endurmetnir að lágmarki á þriggja ára fresti.
  • Greiningin fer fram með virkri þátttöku stjórnenda og starfsfólks úr öllum lykildeildum.

Samráð og þátttaka starfsfólks

  • Ferlið byggir á samráði og þverfaglegu mati innan fyrirtækisins og felur í sér aðkomu sérfræðinga, stjórnenda og starfsfólks í rekstri og framleiðslu.
  • Með því er tryggt að innsýn í daglega starfsemi nýtist við áhættumat og mat á umbótatækifærum.

Ábendingakerfi og umhverfisatvik

  • Norðurál rekur ábendingakerfi þar sem starfsfólk getur skráð ábendingar um frávik, atvik eða umbótatækifæri sem varða mengun eða aðra umhverfisáhættu.
  • Skráðar ábendingar eru greindar og í framhaldi er farið í viðeigandi umbótaferli.
  • Vettvangsskoðanir, umhverfisrýni og reglubundið eftirlit með losun og umhverfisþáttum eru hluti af daglegu starfi sérfræðinga og stjórnenda.

Markmið og umbætur

  • Niðurstöður úr umhverfisþáttagreiningu og ábendingum nýtast til að móta mælanleg markmið, umbótaverkefni og stýra forgangsröðun aðgerða.
  • Þannig tryggir Norðurál að stefna í umhverfismálum og stjórnun mengunar hafi raunveruleg áhrif á daglegar ákvarðanir og langtímastefnu fyrirtækisins.

 

Umhverfisvöktun á Grundartanga E2-2

Norðurál tekur virkan þátt í umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga, sem hefur verið framkvæmd samfleytt í yfir aldarfjórðung. Svæðið hefur verið metið eitt það best rannsakaða á Íslandi hvað varðar umhverfisáhrif iðnaðarstarfsemi. Umhverfisvöktunin er mikilvægur þáttur í umhverfisstjórnun fyrirtækisins og styður við markmið Norðuráls um að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við nærumhverfi og samfélag.

Óháðir aðilar sjá um vöktun á mæliþáttum í lofti, sjó og ferskvatni, sem og áhrifum á húsdýr og gróður, í samræmi við samþykkta vöktunaráætlun sem byggir á starfsleyfum og er samþykkt af Umhverfisstofnun.

Umfang umhverfisvöktunarinnar árið 2024 náði til um 130 sýnatökustaða, þar sem um 460 sýni voru tekin og greind. Rannsóknir vegna umhverfisvöktunar voru framkvæmdar af Efnagreiningum Hafrannsóknastofnunar, Dýralækninum í Mosfellsbæ og öðrum óháðum aðilum. Greindir voru um 80 mæliþættir í sýnunum.

Gögn og niðurstöður sýna að mengunarálag frá starfsemi á Grundartanga er óverulegt og innan ásættanlegra marka. Mælingar sýna að loftkennt flúor í andrúmslofti var yfir viðmiðunarmörkum á loftgæðastöð við Kríuvörðu, en öll önnur viðmið sem sett eru í starfsleyfum og reglugerðum fyrir loftgæði, ferskvatn, sjó, hey og gras voru uppfyllt. Ekki eru skilgreind íslensk viðmiðunarmörk fyrir úrkomu, gróður (lauf og barr) og grasbíta. Styrkur flúors í gróðri mældist í öllum tilvikum undir þolmörkum gróðurs. Flúor í heyi mældist undir þolmörkum grasbíta og hámarksgildi í fóðri fyrir sauðfé. Brennisteinn í heyi var sambærilegur við aðrar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á innihaldi brennisteins. Meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum sauðfjár hefur hækkað samanborið við árið 1997 en er óbreyttur miðað við árið 2007 og ekki virðist vera greinilegt samband á milli tannheilsu sláturfjár og styrks flúors í kjálkabeinum. Ekki voru greinanleg áhrif flúors á tönnum eða í liðum lifandi sauðfjár og hrossa.

Norðurál Grundartanga, Elkem Ísland og Alur álvinnsla taka þátt í umhverfisvöktun á Grundartanga. Hluti mælinganna er aðgengilegur í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar. Útdráttur með niðurstöðum ársins 2024 er hér og skýrslan fyrir árið 2024 er aðgengileg með því að smella hér.

Innri vöktun

Innri vöktun á umhverfismálum Norðuráls fer fram samkvæmt mæliáætlun starfsleyfis. Fylgst er með flúorlosun, ryklosun og brennisteinslosun frá kerskálum og þurrhreinsivirkjunum með símælingum og árlegum samanburðarmælingum ytri aðila. Losun frá minni rykuppsprettum er einnig vöktuð með reglubundnum hætti.

Símælingar í háfum þurrhreinsistöðva og í rjáfri kerskála eru í sjálfvirkri vöktun. Stjórnendur og starfsfólk á vöktum fær þannig skilaboð samstundis ef losun mælist yfir skilgreindum innri viðmiðum. Þannig er unnt að stytta viðbragðstíma og lágmarka losun.

Á svæði Norðuráls eru olíuskiljur og sandföng sem hreinsa yfirborðsvatn sem rennur til sjávar þar sem það á við. Heildarrennsli yfirborðsvatns og frárennslis til sjávar er ekki mælt en ársfjórðungslega eru gerðar mælingar á styrk efna í útrásum frá svæði Norðuráls. Tvisvar á ári eru gerðar greiningar á olíuefnum í kælivatni afriðla og steypuskála. Frárennslismælingar eru framkvæmdar af verkfræðistofunni Verkís þar sem styrkur flúors, svifagna, olíu/fitu og áls er mældur. Efnagreiningar á kælivatni eru framkvæmdar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands.

 

Markmið tengd mengun E2-3

Norðurál hefur sett sér skýr markmið um að lágmarka losun mengandi efna í samræmi við umhverfisstefnu félagsins og lögbundnar kröfur. Tveir mikilvægustu umhverfisþættirnir, flúorlosun og rykmengun eru í samfelldri vöktun og er þeim fylgt eftir með daglegum, vikulegum, mánaðarlegum og árlegum mælingum.

Flúor

Flúorlosun er mæld bæði við kerskála og í þurrhreinsistöðvum.

Markmið um losun flúors eru skilgreind bæði sem starfsleyfismörk og sem innri markmið.

Á árinu 2024 náðist markmiðið um flúorlosun og dróst hún saman frá fyrra ári.

Ryk

Ryk er mælt í loftgæðum í kerskála og frá hreinsibúnaði.

Rykmengun fór yfir innra markmið á árinu 2024, en var þó innan leyfilegra marka samkvæmt starfsleyfi.

Samfelld vöktun og umbætur

Losunarmarkmið eru mismunandi eftir stöðvum og aðstæðum en eru öll hluti af samþykktu ferli samkvæmt ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi.

Niðurstöður eru teknar saman reglulega og lagðar fyrir stjórnendur og starfsfólk, með það að markmiði að greina frávik og hrinda í framkvæmd umbótum.

 

Mengun lofts, vatns og jarðvegs  E2-4

Niðurstöður úr innri vöktun á losun til lofts, í vatn og jarðveg er að finna í töflu um Grænt bókhald Norðuráls og í skýrslu umhverfisvöktunar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Sjá nánar í kafla um Auðlindanotkun Norðuráls E5-4 hér fyrir neðan.

 

Mengandi efni E2-5

Losun á flúor, ryki, brennisteinsdíoxíði og gróðurhúsalofttegundum frá framleiðsluferlum flokkast sem mikilvægir umhverfisþættir í starfsemi Norðuráls. Losun þessara efna er gefin upp í töflu um Grænt bókhald fyrirtækisins sem heildarlosun og sem losun á hverja framleiðslueiningu. Sjá nánar í kafla um Auðlindanotkun Norðuráls E5-4 hér fyrir neðan.
 

Fjárhagsleg áhrif  E2-6

Komi upp umhverfisatvik sem hefði í för með sér mengun umhverfis fæli það í sér kostnað við lágmörkun umfangs og áhrifa og mögulegar mótvægisaðgerðir. Viðbrögð við umhverfisóhöppum eru skilgreind í viðbragðsáætlun Norðuráls.

 

Stefna tengd vatni og sjó E3-1

Í umhverfisstefnu Norðuráls er lögð áhersla á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið og að stöðugt sé unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa. Markmið um lágmörkun losunar nær til losunar í vatn og sjó. Reglubundnar mælingar á frárennsli, ferskvatni og sjó eru framkvæmdar sem hluti af mæliáætlun og umhverfisvöktun og eru niðurstöður bornar saman við mörk í starfsleyfi, reglugerðum og bakgrunnsmælingar til að meta mögulegt álag.

 

Lýsing á ferlum til að greina áhrif í vatni og sjó, áhættur og tækifæri ESRS 2 IRO-1

Ferill fjárfestingarverkefna felur í sér mat á umhverfisþáttum og er lágmörkun losunar í fráveitu hluti af því mati. Verklagsreglur reglubundinna starfa taka einnig mið af greiningu á umhverfisþáttum. Þannig er verklagi stýrt til að lágmarka losun efna í fráveitu eða til lofts sem getur borist í nærliggjandi vatnshlot. Áhættumat er unnið fyrir önnur verkefni þar sem skilgreindar eru fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart notkun og losun efna og meðhöndlun úrgangs.

Framkvæmdir sem geta haft áhrif á gæði vatns eru metnar í samræmi við lög um stjórn vatnamála og áhrifamat unnið fyrir viðkomandi vatnshlot. Rekstur flæðigryfja er sömuleiðis grundvallaður á áhættumati sem tekur mið af losun til sjávar.

 

Aðgerðir tengdar vatni og sjó E3-2

Á svæði Norðuráls eru olíuskiljur og sandföng sem hreinsa yfirborðsvatn sem rennur til sjávar þar sem það á við. Heildarrennsli yfirborðsvatns og frárennslis til sjávar er ekki mælt en ársfjórðungslega eru gerðar mælingar á styrk efna í útrásum frá svæði Norðuráls. Tvisvar á ári eru gerðar greiningar á olíuefnum í kælivatni afriðla og steypuskála.

Frárennslismælingar eru framkvæmdar af verkfræðistofunni Verkís þar sem styrkur flúors, svifagna, olíu/fitu og áls er mældur. Efnagreiningar á kælivatni eru framkvæmdar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands.

Ferill fjárfestingarverkefna felur í sér mat á umhverfisþáttum og er lágmörkun losunar í fráveitu hluti af því mati. Verklagsreglur reglubundinna starfa taka einnig mið af greiningu á umhverfisþáttum. Þannig er verklagi stýrt til að lágmarka losun efna í fráveitu eða til lofts sem getur borist í nærliggjandi grunnvatn, yfirborðsvatn eða sjó. Áhættumat er unnið fyrir önnur verkefni þar sem skilgreindar eru fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart notkun og losun efna og meðhöndlun úrgangs.

Framkvæmdir sem geta haft áhrif á gæði vatns eru metnar í samræmi við lög um stjórn vatnamála og áhrifamat unnið fyrir viðkomandi svæði. Rekstur flæðigryfja er sömuleiðis grundvallaður á áhættumati sem tekur mið af losun til sjávar.

Samkvæmt áhættumati sem unnið er á grundvelli laga nr. 33/2004 eru það einungis olíur á svæði Norðuráls sem falla undir þær skilgreiningar sem taldar eru upp í viðauka II með lögunum og hafa í för með sér bráðamengun á hafi eða ströndum. Komi upp bráðamengunarhætta innan álvers Norðuráls á Grundartanga sem valdið getur hættu utan álverslóðarinnar skal kalla til neyðarstjórn. Hún ber ábyrgð á samræmingu viðbragða Norðuráls og ytri viðbragðsaðila. Hjá Norðuráli er til staðar verklag um fyrirbyggjandi eftirlit með olíugildrum, olíutönkum og glussakerfum til að lágmarka áhættu á olíuleka.

 

Markmið tengd vatni og sjó E3-3

Norðurál vaktar vatnsnotkun í sínum kerfum og eru skilgreindar aðvaranir til að bregðast við komi upp frávik um óeðlilega notkun. Vatnsnotkun er almennt nokkuð stöðug milli ára eins og sjá má í grænu bókhaldi fyrirtækisins. Markmið Norðuráls eru að allar mælingar á fráveitu, ferskvatni og sjó séu ávallt innan skilgreindra viðmiðunarmarka til verndar lífríki. Komi upp frávik eru þau skráð í ábendingakerfi, rótargreind og fyrirbyggjandi aðgerðir innleiddar til að koma í veg fyrir að atvik endurtaki sig.

 

Vatnsnotkun E3-4

Vatn sem veitt er til Norðuráls kemur frá vatnsbóli Tungu og Hlíðarfæti í Svínadal. Ferskvatnsnotkun á árinu 2024 nam um 171.117 m3. Þar af var neysluvatn um 68.447 m3 og iðnaðarvatn 102.670 m3. Kælikerfi afriðla notar árlega um 7.884.000 m3 af sjó.

  • Hringrásað sjávarvatn í kælikerfi afriðla er langstærsti hluti vatnsnotkunar
  • Iðnaðarvatn (ferskvatn) nemur um 1,3%
  • Neysluvatn (ferskvatn) er um 0,8%

 

Fjárhagsleg áhrif E3-5

Komi upp umhverfisatvik sem hefði í för með sér mengun grunnvatns, yfirborðsvatns eða sjávar fæli það í sér kostnað við lágmörkun umfangs og áhrifa og mögulegar mótvægisaðgerðir. Viðbrögð við umhverfisóhöppum eru skilgreind í viðbragðsáætlun Norðuráls.

 

Umbreytingaráætlun E4-1

Norðurál tekur virkan þátt í samhæfðri umhverfisvöktun á Grundartanga til að fylgjast með áhrifum iðnaðarstarfsemi á lífríki og vistkerfi svæðisins. Vöktunin fer fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem samþykkt er af Umhverfis- og orkustofnun og gildir út árið 2028. Helstu niðurstöður sýna að áhrif iðnstarfsemi á Grundartanga á lífríki svæðisins eru lítil og almennt innan þeirra marka sem sett eru í starfsleyfum.

Umhverfisvöktunin er samstarfsverkefni Norðuráls Grundartanga ehf., Elkem Ísland ehf. og Alur Álvinnslu ehf. og byggir á áhættumati með aðkomu hagaðila og fagaðila. Markmið hennar er að meta raunverulegt álag iðnstarfsemi á náttúrulegt umhverfi og tryggja rekstur í sátt við náttúru og samfélag.

Vöktun nær m.a. til eftirfarandi umhverfisþátta:

  • Veðurfar og loftgæði
  • Ferskvatn
  • Gróður, mosar og fléttur
  • Heygæði og beitilönd (sauðfé og hross)
  • Sjór og sjávarset, þar á meðal lífríki sjávar við flæðigryfjur Grundartanga

Hver vöktunarþáttur hefur skilgreinda mæliþætti og vöktunartíðni, og skráning gagna miðar að því að greina hvort áhrif rekstrar fyrirtækjanna fari yfir mörk starfsleyfa eða reglugerða og hvort greina megi langvarandi áhrif á náttúru eða lífríki.

Nánari umfjöllun um umhverfisvöktunina má finna í kafla E2-1.

 

Stefna um líffræðilega fjölbreytni E4-2

Norðurál leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið. Stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa og sjálfbærri nýtingu orku og hráefna. Í því felst að starfsemin hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki og líffræðilegan fjölbreytileika.

Starfsemi Norðuráls hefur undirgengist mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Í matinu er gerð ítarleg grein fyrir matsþáttum sem snúa að þeirri ábyrgð sem felst í að viðhalda og stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika, svo sem gróðri og jarðvegi, votlendi, dýralífi, landnotkun, vatnafari, fjöru og sjó.

 

Áhrif, áhættur og tækifæri fyrir líffræðilegan fjölbreytileika ESRS 2 SBM-3

Helstu áhættur sem snúa að neikvæðri þróun í líffræðilegri fjölbreytni felast í orðsporsáhættu og mögulegum þvingunaraðgerðum eftirlitsaðila sé sú þróun á ábyrgð fyrirtækisins.

Helstu tækifæri sem snúa að vernd og jákvæðri þróun í líffræðilegri fjölbreytni snúa að endurheimt votlendis. Með því að stuðla að endurheimt votlendis getur Norðurál haft jákvæð áhrif á vistkerfi og búsvæði margra plöntu og dýrategunda. Við þær aðgerðir binst kolefni í jarðvegi yfir tíma sem Norðurál gæti nýtt sem mótvægisaðgerð gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda.

Starfsemi Norðuráls getur haft óbein áhrif á vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni í nærsamfélaginu. Þrátt fyrir að beint álag á náttúru af völdum rekstrarins sé takmarkað samkvæmt vöktunargögnum, er mikilvægt að greina og bregðast við áhættum sem geta tengst orðspori og eftirlitskröfum, auk þess að nýta tækifæri til jákvæðra áhrifa.

 

Ferlar til að greina áhrif, áhættur og tækifæri í tengslum við líffræðilega fjölbreytni ESRS 2 IRO-1

Norðurál greinir og fylgist reglubundið með áhrifum starfsemi sinnar á líffræðilega fjölbreytni með skipulögðum ferlum í samræmi við umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins (ISO 14001) og gildandi starfsleyfi. Meginferlið sem styður við þessa greiningu er sameiginleg umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga, sem hefur verið framkvæmd í samfelldan aldarfjórðung.

Niðurstöður umhverfisvöktunar eru rýndar eftir því sem niðurstöður berast frá óháðum sérfræðiaðilum sem hafa á höndum greiningu og túlkun á niðurstöðum. Niðurstöður vöktunar eru jafnframt rýndar árlega á samráðsfundum með Umhverfis- og orkustofnun, Hvalfjarðarsveit og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands. Jafnframt eru árlega haldnir opnir kynningarfundir í nærsamfélaginu þar sem niðurstöður eru rýndar og tækifæri gefst til að koma athugasemdum á framfæri. Vöktunaráætlun umhverfisvöktunar er rýnd reglulega og breytingar gerðar ef þörf er á í samráði við hagsmunaaðila.

 

Aðgerðir E4-3

Norðurál rekur staðlað umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við ISO 14001 sem tryggir að rekstur fyrirtækisins sé í sátt við náttúru og lífríki á starfssvæði álversins. Kerfið felur í sér samþætta stjórnun og skýra ferla sem ná bæði til daglegra starfa, reglubundins viðhalds og nýframkvæmda á vegum fyrirtækisins.

Megináherslur í aðgerðum Norðuráls:

  • Innleiðing verndandi verklags: Ferlar í fjárfestingarverkefnum og viðhaldsvinnu taka mið af því að forðast röskun á viðkvæmum vistkerfum og lágmarka áhrif á lífríki í grennd við álverið.
  • Ræktun og endurheimt lands: Svæði sem raskast hafa vegna framkvæmda eru klædd gróðri til að stuðla að endurheimt gróðurhulu. Norðurál hefur einnig stutt við ræktun skóglendis í nágrenni álversins sem liður í að auka líffræðilega fjölbreytni.
  • Hönnun og ásýnd mannvirkja: Áhersla er lögð á að byggingar og mannvirki falli vel að umhverfi og landslagi. Sérstök athygli hefur verið sett á litaval, ásýnd og staðsetningu með tilliti til sjónrænna áhrifa á náttúru og strandlínu Hvalfjarðar.
  • Lágmörkun á hávaða og ljósmengun: Innleiddar hafa verið tæknilegar og rekstrarlegar aðgerðir til að halda hávaða í lágmarki. Einnig hefur lýsingu verið stýrt þannig að hún hafi sem minnst áhrif á nágrenni og dýralíf, t.d. með notkun beinnar og hljóðrar lýsingar í stað yfirljósa.

 

Markmið um vernd líffræðilegrar fjölbreytni E4-4

Norðurál hefur það að meginmarkmiði að starfsemi fyrirtækisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki í nágrenni álversins og að öll starfsemi sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í starfsleyfum og gildandi umhverfislöggjöf. Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga er lykilverkfæri í eftirfylgni með þessum markmiðum. Hún felur í sér reglubundnar mælingar á lífríki og umhverfisástandi á svæðinu og nær til loftgæða, ferskvatns, sjávar, gróðurs og dýralífs. Markmið Norðuráls er að öll viðmiðunarmörk séu uppfyllt sem tryggja vernd lífríkis.

Niðurstöður umhverfisvöktunar á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga fyrir árið 2024 eru bornar saman við:

  • Viðmiðunarmörk í starfsleyfum og reglugerðum, þar sem þau eru til staðar.
  • Bakgrunnsmælingar frá árinu 1997, sem veita viðmið fyrir náttúrulegt ástand fyrir upphaf starfsemi.
  • Langtímasamanburð milli ára, sem sýnir þróun á umhverfisþáttum frá því öll ker álversins fóru í rekstur árið 2007.

 

Mælikvarðar umhverfisvöktunar á Grundartanga E4-5

Helstu mælikvarðar umhverfisvöktunar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga, eins og þeir hafa verið skilgreindir í umhverfisvöktunaráætlun samþykktri af Umhverfis- og orkustofnun, snúa að áhrifum iðnstarfsemi á lífríki og náttúrulegt umhverfi á landi, í vatni og í hafi. Þeir taka til eftirfarandi þátta:

Loftgæði

  • Andrúmsloft: Flúor í lofti og ryki, brennisteinstvíoxíð í lofti og ryki, svifryk, PAH efni í svifryki, nituroxíð og brennisteinsvetni
  • Úrkoma: Klóríð, nítrat, brennisteinssúlfat, flúor, sýrustig, natrín og kalsín

Ferskvatn

  • Efnasamsetning árvatns (sýrustig, leiðni, flúor, klór, brennisteinssúlfat, natrín og kalsín)

Sjór og sjávarset

  • PAH efni í sjávarseti
  • Magn málma, sýaníðs, flúors og fosfórs í sjó við flæðigryfjur
  • Líffræðilegir þættir kræklings
  • PAH efni og ólífræn snefilefni í mjúkvef kræklinga
  • PAH efni í sjávarseti

Gróður

  • Gróðurbreytingar fléttna og mosa, brennisteinn og flúor í fléttum (sem eru viðkvæmar og góðir langtímavísar)
  • Gróðurbreytingar á móareitum
  • Flúor (í plöntuvef og af yfirborði) í grasi, laufi (birki, reynir) og barri (greni, bergfura, stafafura)
  • Flúor og brennisteinn í heyi

Dýralíf

  • Flúor í kjálkum sláturfjár og ástand tanna og kjálka
  • Ástand tanna og liða í lifandi sauðfé
  • Ástand tanna og liða í lifandi hrossum

Veðurmælingar og staðbundin dreifilíkön

  • Vindhraði og vindátt
  • Úrkoma og loftslagsskilyrði
  • Gagnaöflun til að greina dreifingu mengunarefna

 

Fjárhagsleg áhrif E4-6

Komi upp umhverfisatvik sem hefði í för með sér möguleg skaðleg áhrif á lífríki og líffræðilega fjölbreytni fæli það í sér kostnað við lágmörkun umfangs og áhrifa og mögulegar mótvægisaðgerðir. Viðbrögð við umhverfisóhöppum eru skilgreind í viðbragðsáætlun Norðuráls.

 

Stefna tengdar hringrásarhagkerfi E5-1

Norðurál leggur megináherslu á að lágmarka umhverfisáhrif og nýta hráefni og orku á ábyrgan hátt. Í því felst að lágmarka myndum úrgangs og leita leiða til að fullnýta þau verðmæti sem felast í þeim úrgangi sem fellur til í anda hringrásarhagkerfis.

Ál hefur einnig þann kost að það er hægt að endurvinna það nær endalaust en um 75% af öllu áli sem unnið hefur verið frá upphafi er enn í notkun. Eiginleikar áls falla því vel að kröfum samfélagins um aukna hringrásun verðmæta.

 

Aðgerðir tengdar hringrásarhagkerfi  E5-2

Úrgangur frá Norðuráli skiptist gróflega í endurunninn úrgang, óendurnýtanlegan framleiðsluúrgang til urðunar í flæðigryfjum, fastan úrgang, efni frá fráveitu og spilliefni.

Íslenska gámafélagið er þjónustuaðili sorphirðu hjá Norðuráli á Grundartanga. Starfsmaður sorphirðu á vegum Íslenska gámafélagsins hefur umsjón með söfnun úrgangs frá móttökustöðvum á framleiðslusvæðinu. Úrgangi er safnað á gámasvæði þar sem hann er flokkaður nánar.  Urðun á blönduðum úrgangi var hætt vorið 2021. Eftir stendur óbrennanlegur grófur úrgangur sem ekki er nothæfur til orkunýtingar. Áfram verður unnið að því að lágmarka myndun úrgangs og finna efninu annan farveg.

Á kaffistofum og starfssvæðum Norðuráls eru flokkunarstöðvar sem taka á móti plasti, pappa, almennu rusli og spilliefnum þar sem það á við. Hvergi á að vera aðeins ein tunna fyrir óflokkaðan eða almennan úrgang, hvorki á skrifstofum eða á framleiðslusvæðinu. Tunnur standa alltaf að minnsta kosti þrjár saman svo flokkun geti átt sér stað.

Starfsfólk hvers svæðis ber ábyrgð á að losa þessar tunnur á móttökustöðvum sem sýndar eru á yfirlitsmynd. Á móttökustöðvum er móttaka fyrir þá flokka af rusli sem fellur til á hverju svæði. Starfsmaður sorphirðu sér um að safna saman sorpi frá móttökustöðvum og koma á sorpsöfnunarsvæði fyrirtækisins. Á sorpsöfnunarsvæðinu er sorpið svo flokkað enn betur þegar það á við og rúmmál þess minnkað til að draga úr akstri við flutning á því.

Í aðgerðaáætlun Norðuráls eru listaðar aðgerðir sem snúa að lágmörkun úrgangsmyndunar og hámörkun verðmæta úr úrgangi. Aðgerðirnar eru eftirfarandi:

  •  Aðgerð 6: Samdráttur í plastnotkun 
  •  Aðgerð 7: Kortlagning á möguleikum í nýtingu framleiðsluúrgangs sem fer í flæðigryfjur 
  •  Aðgerð 8: Samræming sorpmerkinga 
  •  Aðgerð 9: Fræðsla um úrgangs- og umhverfismál 

 

Markmið og mælikvarðar tengd hringrásarhagkerfi  E5-3

Árið 2024 voru tæp 80% af úrgangi sem féll til vegna starfsemi Norðuráls endurunnin. Stærstur hluti þess er framleiðsluúrgangur á borð við skautleifar og kolaryk. Áhersla hefur verið lögð á endurvinnslu og að minnka almennan úrgang. Sem dæmi má nefna flokkun á lífrænum úrgangi frá mötuneyti sem fer til meðhöndlunar hjá SORPU og verður að næringarefnaríkum jarðvegsbæti og metangasi.

Markmið og mælikvarðar Norðuráls sem stuðla að hringrásarhagkerfi koma einnig fram í aðgerðaáætlun fyrirtækisins í loftslagsmálum. Markmið Norðuráls er að urðun á almennum úrgangi dragist saman um 70% milli áranna 2015 og 2030. Milli áranna 2015 og 2024 hefur urðun á almennum úrgangi dregist saman um 44%.

 

Auðlindanotkun Norðuráls E5-4

Norðurál heldur utan um auðlindanotkun sína í samræmi við reglur um umhverfisupplýsingar og birtir niðurstöður árlega. Þar er sundurliðuð skráning á helstu aðföngum og hráefnum sem notuð eru í rekstri fyrirtækisins. Hér má nálgast Grænt bókhald Norðuráls.

Helstu auðlindir sem flokkast sem auðlindir inn í rekstur Norðuráls eru meðal annars:

  • Raforka frá endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsafl og jarðhiti)
  • Ferskvatn og iðnaðarvatn til framleiðslu
  • Hráefni: súrál, rafskaut, flúor, kísill og önnur efni sem nýtast í álframleiðslu
  • Hjálparefni, pakkningar og önnur efni sem nýtt eru við vinnslu og flutning vöru

 

Starfsfólk, hráefni og auðlindanotkun

Framleiðsla og hráefnanotkun

 

Auðlindir sem falla út úr rekstrinum E5-5

Norðurál heldur utan um alla losun og úrgang sem fellur til vegna starfsemi fyrirtækisins í samræmi við reglur um umhverfisupplýsingar. Þessi gögn eru birt árlega og veita heildaryfirsýn yfir losun auðlinda út úr rekstri fyrirtækisins, bæði í formi úrgangs og losunarefna. Tölulegar upplýsingar og samantekt má finna í Grænu bókhaldi Norðuráls.

Meginflokkar eru meðal annars:

  • Föst efni: óvirkur úrgangur, brennanlegur úrgangur, spilliefni, rafskautaleifar o.fl.
  • Vökvaefni: kælivökvar, olíur og efnavökvar
  • Lofttegundir: losun gróðurhúsalofttegunda og annarra loftmengandi efna samkvæmt skilgreindum mælikvörðum

Losun efna og meðhöndlun úrgangs

Úrgangur

Losun í loft

Notkun eiturefna og hætturlegra efna (Xn, T, Tx, C, Xi, E, Fx, F, O, N)


 

Fjárhagsleg áhrif  E5-6

Hringrásarhagkerfið getur haft jákvæð áhrif á rekstur Norðuráls með bættri nýtingu hráefna og fullnýtingu á þeim verðmætum sem felast í úrgangi sem fellur til. Kostnaður við förgun á úrgangi getur þannig dregist saman með bættri nýtingu og betri úrgangsstjórnun.

 

Lýsing á ferlum til að greina og meta hringrásarhagkerfi ESRS 2 IRO-1

Norðurál heldur Grænt bókhald sem er nákvæm skrá yfir allt efni sem kemur til álversins og allt sem fer frá því. Markmið fyrirtækisins er að nýta allt hráefni eins vel og kostur er og gera ítarlega grein fyrir því hvað verður um öll óæskileg efni. Grænt bókhald bætir umhverfismenningu, eykur varkárni í meðhöndlun óæskilegra efna, auðveldar starfsfólki að leita nýrra leiða til að lágmarka losun og sóun, og hvetur til ábyrgrar umgengni um hráefni og nærumhverfi.

Græna bókhaldið nær aftur til ársins 2003 og sýnir með skýrum hætti að við höfum náð verulegum árangri á öllum sviðum: Allt frá bættri nýtingu hráefnis að endurvinnslu lífræns úrgangs í mötuneytinu.

Norðurál hefur látið framkvæma vistferilsgreiningu (e. Life Cycle Assessment) á því áli sem fyrirtækið framleiðir. Greiningin miðast við vistferil álsins frá vöggu að hliði og lok líftíma (e. cradle-to-gate with end-of-life scenario) þar sem tekið er tillit til framleiðslu og flutninga hráefna, staðbundinnar losunar efna og myndunar úrgangs, flutnings á lokaafurð framleiðslunnar á markað í Evrópu sem og loka líftíma hennar. Niðurstöður vistferilsgreiningar veita gagnlega innsýn í virðiskeðju álframleiðslu Norðuráls og hvar tækifæri liggja til að stuðla að lágmörkun umhverfisáhrifa.