Fólk og samfélag

Mannréttinda- og jafnréttisstefna S1-1

Norðurál leggur áherslu á faglega mannauðsstjórnun þar sem hlutverk, sýn og gildi félagsins eru höfð að leiðarljósi. Stefna Norðuráls tengt mannauðsmálum miðar að því að skapa slysalausan og jafnframt eftirsóknarverðan vinnustað þar sem öryggi, jafnrétti og velferð starfsfólks er í fyrirrúmi.

Mannréttinda- og jafnréttisstefna 

Norðurál hagar starfsemi sinni og viðskiptum með virðingu fyrir mannréttindum. Norðurál leggur áherslu á jafnan rétt starfsfólks til starfsframa, launa og réttinda, óháð kyni, kynhneigð, trúarbrögðum eða uppruna. Norðurál vinnur að stöðugum umbótum og uppfyllir lög og aðrar kröfur um mannréttindi og jafnrétti.

Mannréttinda- og jafnréttismarkmið:
  • Forvarnir gegn einelti, áreitni og öðru ofbeldi
  • Stuðla að jöfnun kynjahlutfalla
  • Jöfn starfskjör fyrir sambærileg störf

Öryggis- og heilbrigðisstefna 

Norðurál hefur öryggi og heilbrigði í fyrirrúmi. Starfsfólk þekki áhættur og örugg vinnubrögð og að ekkert verk eigi að vinna við ótryggar aðstæður. Áhersla er lögð á virka þátttöku starfsfólks í forvörnum og umbótum. Norðurál uppfyllir lög og reglur um öryggis- og heilbrigðismál.
 

Samskipti við starfsfólk og verktaka S1-2

Norðurál leggur áherslu jákvætt og uppbyggjandi starfsumhverfi þar sem velferð og ánægja starfsfólks er höfð að leiðarljósi. Áhersla er lögð á fjölbreyttar samskiptaleiðir þar sem starfsfólk og stjórnendur geta komið ábendingum, skilaboðum eða hugmyndum á framfæri.

Vinnustaðagreining 

Vinnustaðargreining hefur alla jafna verið framkvæmd á tveggja til þriggja ára fresti og var síðasta greining framkvæmd í nóvember 2023. Helstu niðurstöður voru þær að meðaltal helgunar (e. Employee engagement) mældist 3,71 en í síðustu könnun frá árinu 2022 mælist meðaltal helgunar 3,62. Þá hækkaði einnig ánægja starfsfólks með Norðurál sem vinnustað úr 3,54 árið 2022 í 3,64 árið 2023.

Á árinu 2025 verða innleiddar svokallaðar púlsmælingar þar sem starfsánægja er mæld oftar yfir árið þannig að vinna að umbótum verði markvissari.

Starfsmannasamtöl 

Starfsmannasamtöl fara fram árlega þar sem starfsfólk fær tækifæri til þess að ræða við yfirmann sinn með formlegum hætti. Í starfsmannasamtölum er m.a. rætt um frammistöðu starfsfólks, starfsumhverfi, samskipti og líðan.

Starfslokasamtöl 

Starfsfólki sem lætur af störfum að eigin frumkvæði býðst að fara í starfslokasamtal hjá sérfræðingi á mannauðssviði. Í slíku samtali eru m.a. farið yfir ástæður starfsloka svo unnt sé að greina tækifæri til umbóta.

Ábendingakerfi 

Í gegnum ábendingakerfi Norðuráls getur starfsfólk sent ábendingar um mannauðsmál. Öryggis-, umhverfis-, og umbótasvið ber ábyrgð á ábendingakerfinu, eftirfylgni ábendinga og tryggir að ábendingar berist réttum aðilum innan fyrirtækisins.

Teams 

Allt starfsfólk Norðuráls hefur aðgang að Teams, samskiptaforritinu. Á Teams eru skilgreindar rásir, bæði eftir viðfangsefnum og starfsmannahópum. Þá er þar einnig almenn rás þar sem fréttir, tilkynningar og skilaboð eru birt. Starfsfólk hefur einnig kost á að skrifa athugasemdir við fréttir, tilkynningar og skilaboð. Á Teams er einnig hægt að skrifa og senda skilaboð og/eða hringja á milli starfsfólks og stjórnenda.

Norðurljós 

Norðurljós er heiti á innrivef fyrirtækisins. Á innrivef má finna ýmsar upplýsingar eins og gæðahandbók, öryggisreglur, beiðnir og pantanir, tölvuhjálp, fræðslumál, matseðil, aðgang að ábendingavef og verkefnavef, laus störf og margt fleira.
 

Ferlar fyrir starfsfólk til að tjá sig um viðkvæm málefni S1-3

Norðurál leggur áherslu á öryggi og velferð starfsfólks, ekki síst sálfélagslegt öryggi þar sem greindir eru áhættuþættir í vinnuumhverfinu sem tengjast skipulagi, stjórnun og samskiptum. Norðurál hefur gefið út og uppfært viðbragðsáætlun við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi. Slík háttsemi á vinnustaðnum er ekki liðin og er því gripið til viðeigandi aðgerða í þess konar málum þar sem jafnvel er leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til að tryggja hlutleysi.

Fræðsla og forvarnir eru mikilvægar í þessum málaflokki. Fræðsluerindi hafa verið haldin og áhersla er á að starfsfólk taki rafrænt námskeið sem finna má á Learn Cove, fræðslukerfi Norðuráls.

Starfsfólk er hvatt til að tilkynna öll atvik eða grun um óviðeigandi háttsemi til síns yfirmanns eða hafa beint samband við mannauðsstjóra eða sérfræðinga mannauðssviðs.

Á síðasta ári barst engin formleg tilkynning um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi.
 

Áhættustýring tengt mannauðsmálum S1-4

Norðurál leggur ríka áherslu á að skapa öruggt, jafnréttismiðað og uppbyggilegt starfsumhverfi, í takt við stefnu og gildi fyrirtækisins. Norðurál greinir reglulega helstu áhættur sem snúa að mannauði, svo sem fráfall lykilstarfsfólks, þekking á öryggisreglum, skort á færni eða hættu á félagslegri útskúfun.

Lykiláherslur:

  • Ráðningar og fjölbreytni: Norðurál fylgir faglegum ráðningarferlum til að tryggja ráðningu á hæfu starfsfólki, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.
  • Starfsþjálfun & Stóriðjuskóli: Árleg kortlagning á þjálfunarþörf starfsfólks tryggir markvissa starfsþjálfun. Norðurál hefur rekið Stóriðjuskóla frá 2012, sem eykur færni, skilning á framleiðsluferlum og starfsánægju.
  • Öryggi og vinnuvernd: Öryggisreglur eru strangar og er þeim framfylgt öllu starfsfólki á svæðinu. Fjölbreytt öryggisfræðsla og eftirfylgni atvika og verkefna er fastur liður í daglegu starfi.
  • Jafnrétti og réttindi: Norðurál tryggir jafnan rétt til starfsframa, launa og tækifæra, án mismununar.
  • Liðsheild og starfsánægja: Félagið leggur áherslu á að hlúa að liðsanda og ábyrgð, sem leiðir til lágrar starfsmannaveltu (um 7,7 ár meðal starfsaldur) og sterkrar vinnumenningar.
  • Starfsmannafélag (STNA): Starfsmannafélagið styrkir menningu, samstöðu með viðburðum, fræðslu og félagsstarf sem eflir vellíðan og tengsl innan fyrirtækisins.

 

Heilsa og velferð starfsfólks (Aðgerðaráætlun gegn neikvæðum áhrifum á heilsu) S1-5

Hjá Norðuráli er mikil áhersla lögð á öryggi og vinnuvernd með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Öryggisstjórnunarkerfi fyrirtækisins byggir á hugmyndafræði stöðugra umbóta og er vottað gagnvart ISO stöðlum. Áhættustýring og atvikarannsóknir eru hluti af lykilferlum stjórnkerfa Norðuráls sem tekin eru út í innri úttektum.

Til að tryggja öryggi starfsfólks, verktaka og gesta á svæðinu er gerð krafa um að allir sem starfa á og heimsækja athafnasvæði Norðuráls kynni sér öryggisreglur til hlítar. Reglurnar ná til allra sem fara inn á athafnasvæði Norðuráls; Við störfum undir slagorðinu „Öll saman!“ sem vísar til þess að öryggi er samstarfsverkefni okkar allra sem störfum hjá Norðuráli. Við gætum hvers annars og hjálpumst að við að leysa hvers kyns verkefni með skynsömum og öruggum hætti.

Skipulag og stjórnun heilbrigðis- og öryggismála hjá Norðuráli

Norðurál rekur markvisst öryggis- og heilbrigðisstjórnunarkerfi þar sem áhersla er á forvarnir, umbætur og virka þátttöku starfsfólks. Öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisnefnd (ÖHU), undir forystu framkvæmdastjóra Norðuráls, samanstendur af framkvæmdastjórn, öryggisfulltrúum og trúnaðarmönnum. Nefndin stuðlar að umbótum og setur markmið í samræmi við lög nr. 46/1980.

Helstu verkefni ÖHU nefndar og tengdra fagráða eru:
  • Áhættumat og fræðsla um öryggi og heilsu.
  • Eftirlit með búnaði og aðbúnaði.
  • Skráning og greining slysa, óhappa og heilsufarsatvika.
  • Eftirlit með einelti, velferð og notkun persónuhlífa.
  • Ráðgjöf við stefnumótun og verkferla.

Norðurál starfar eftir stöðluðum verklagsferlum byggðum á áhættugreiningu. Öll verk eru áhættuskimuð fyrir framkvæmd og starfsmenn ræða öryggismál í byrjun vaktar á daglegum töflufundum. Verktakar fá þjálfun og kynningu á öryggisreglum áður en störf hefjast.

Öruggt atferli er öryggismenningarverkefni sem byggir á þátttöku starfsfólks. Það felst í greiningu á vinnuumhverfi og verklagi með áherslu á örugga framkvæmd. Markmið eru sett og fagnað þegar öruggar venjur nást. Árið 2024 var þátttaka í verkefninu yfir 97%.

Öll öryggis- og umhverfisatvik eru skráð í ábendingakerfi Norðuráls og unnið úr þeim með aðgerðum og atvikagreiningu. Skráningar ná einnig til frávika í gæðakerfi og viðbragða við ábendingum viðskiptavina og birgja.

Norðurál leggur áherslu á stöðuga endurskoðun og umbætur í öryggis- og heilbrigðismálum með virku samtali, mælikvörðum og þjálfun starfsfólks á öllum stigum.

Öryggisþjálfun og öryggismenning á vinnustað

Öryggisþjálfun er grunnstoð í áhættustýringu Norðuráls. Allt starfsfólk fær fræðslu við ráðningu og þjálfun í öruggu verklagi samkvæmt áhættumati. Árið 2024 var lögð sérstök áhersla á þjálfun í læsingaferlum, vinnu í hæð, aðgengi að lokuðum rýmum og viðbragðsþjálfun. Þá fengu stjórnendur og verkstjórar sérstaka fræðslu um öryggismenningu og áhættustýringu.

Á árlegum starfsdögum var öryggi í forgrunni. Fjallað var um mikilvægi persónulegrar ábyrgðar og starfsfólk tók þátt í vinnustofu þar sem það svaraði spurningunni „Hvers vegna setur þú öryggismál í fyrsta sæti?“.

Gullnar reglur í öryggismálum voru kynntar árið 2024. Reglurnar byggja á stöðluðum verklögum og lýsa hegðun sem stuðlar að slysalausum vinnustað. Starfsfólk er hvatt til að stöðva verk ef aðstæður eru ótryggar og leita leiða til að tryggja öruggt verklag.

Norðurál hefur fylgt aðferðafræði „Öruggt atferli“ frá 2011. Markmiðið er að efla öryggisvitund og festa örugg vinnubrögð í sessi. Árangur er mældur og fagnað þegar markmiðum er náð. Árið 2024 náðist 97% þátttaka í verkefninu.

Könnun á öryggismenningu var framkvæmd árið 2024 með um 80% þátttöku starfsfólks. Niðurstöður sýndu bætta þekkingu á markmiðum, aukinn sýnileika öryggisgilda og sterkari þátttöku í forvörnum. Könnunin var áður gerð árið 2017 og sýnir mælanlegan árangur í þróun öryggismenningar.

Áframhaldandi verkefni fela í sér að styrkja sameiginlega ábyrgð, bæta öryggisþjálfun og auka jákvæða endurgjöf. Öryggi er sameiginlegt verkefni og lykillinn að því að gera framtíðarsýn Norðuráls um slysalausan vinnustað að veruleika.

 

Upplýsingar um starfsfólk (umfang og samsetning) S1-6

Í árslok 2024 störfuðu alls 675 einstaklingar hjá Norðuráli.

Skipt niður eftir:
  • Kynjum (karlar 530, konur 145, annað 0)
  • Starfsstöðum / hlutverki: Grundartangi 645 Norðurál EHF 30
  • Ráðningartegundum: Fastráðnir 590, Afleysing 82, tímabundin ráðning 3

Starfsmannavelta var 11,43%, meðalstarfsaldur og meðaldvöl í starfi 7,5 ár.

Norðurál nýtir að hluta til aðkeypta þjónustu og verktaka í afmörkuð verkefni, m.a. viðhald, tæknilausnir og þrif. Verktakar fylgja sömu öryggisreglum og annað starfsfólk og fær sömu fræðslu.

Búseta starfsfólks
  • Akranes 57%
  • Höfuðborgarsvæði 32%
  • Borgarfjörður 5%
  • Hvalfjarðarsveit 4%
  • Annars staðar af landinu 2%

 

Verktakar Norðuráls S1-7

Fjölmargir verktakar starfa hjá Norðuráli á hverjum tíma, hvort sem er við sérfræði- eða iðnaðarstörf. Verktakar vinna í nánu samstarfi við starfsfólk og stjórnendur Norðuráls. Verktakar sem starfa innan Norðuráls eru ráðnir á grundvelli sérþekkingar eða sérhæfni á viðkomandi sviði. Um þá gilda sömu reglur og kröfur og gerðar eru til annars starfsfólks Norðuráls þegar kemur að hæfni, þekkingu og fylgni við öryggisreglur. Allir verktakar sitja reglulega námskeið um öryggismál.

Verktakar eru undir sömu öryggisreglum og fræðslu og annað starfsfólk:
  • Þeir fara í öryggiskynningu og fá þjálfun áður en störf hefjast.
  • Þeir þurfa að fylgja reglum Norðuráls um vinnuvernd, notkun persónuhlífa og þátttöku í ábendingakerfum.
  • Samræmd ferli tryggja að verklag og aðbúnaður verktaka sé sambærilegur við reglulegt starfsfólk.

 

Kjarasamningar S1-8

Stærsti hluti starfsfólks Norðuráls starfar samkvæmt kjarasamningi við framleiðslu- og viðhaldsstörf eða um 470 manns. Stjórnendur, millistjórnendur, sérfræðingar og hluti skrifstofufólks er með ráðningarsamninga án tengingar við kjarasamning. Uppsagnarfrestur fastráðins starfsfólks er ein vika á reynslutíma, einn til þrír mánuðir á fyrsta starfsári en eftir það að lágmarki þrír mánuðir. Samkvæmt kjarasamningi hættir starfsfólk hjá fyrirtækinu í þeim mánuði sem það verður 67 ára. Fimm hættu vegna aldurs árið 2024. Fyrirtækið býður fólki sem er að ljúka störfum vegna aldurs á námskeið þar sem farið er yfir fjölbreytt málefni sem mikilvægt er að huga að við þessi tímamót.

Mikill meirihluti starfsfólks er aðili að stéttarfélögunum VLFA, FIT, RAFIS, StéttVest og VR. Kjarasamningur var undirritaður milli Norðuráls og félaganna í apríl árið 2025 og er hann í gildi til ársloka 2029.

 

Fjölbreytileiki S1-9

Fjölbreytileiki og jafnrétti eru lykilþættir í að skapa jákvæða og uppbyggjandi vinnustaðamenningu.  Jafnréttismarkmið eru höfð að leiðarljósi við allar ráðningar, þar sem við hverja ráðningu er litið til þess að ráða til starfsins það kyn sem hallar á. Þannig eru tækifæri til að ráða fleiri konur í störf framleiðslustarfsfólks, iðnaðarmanna og í hóp millistjórnenda, verk- og tæknifræðinga.

Norðurál hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á árinu 2024, líkt og árið á undan. Viðurkenninguna fá þau fyrirtæki sem gripið hafa til aðgerða til að jafna hlut kvenna í yfirstjórn og hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Markmiðið er að árið 2027 verði hlutfall á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Af sjö manns í framkvæmdastjórn Norðuráls voru þrjár konur.

Norðurál er með vottað jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 og hefur einnig hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PWC fjögur ár í röð eða frá upphafi jafnlaunaúttektar.

Árið 2024 framkvæmdi BSI viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu og í þeirri úttekt var sannreynt að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum og stefnu fyrirtækisins í jafnlaunamálum.

Óútskýrður launamunur heildarlauna hjá Norðuráli árið 2024 var 1,1% og skýringarhlutfall 95%.

 

Launamál S1-10

Sjá nánar í S1-8.

 

Mælikvarðar um vinnuvernd, öryggi og heilsu starfsfólks S1-11

Norðurál gerir öryggi og heilsu starfsfólks að forgangsatriði í allri starfsemi. Fyrirtækið mælir og metur árangur í öryggis- og heilsuvernd með eftirfarandi lykilmælikvörðum, sem eru í samræmi við kröfur ESRS og ISO 45001 staðalsins:

Lykilmælikvarðar:

Öryggis- og heilbrigðismarkmið:
  • Slysalaus vinnustaður – að enginn slasist við störf sín
  • Heilsuvernd starfsfólks - að allt starfsfólk fari í heilsufarsskoðun árlega
  • Þátttaka starfsfólks í forvörnum – að 90% starfsfólks fái árlega þjálfun í öryggismálum

 

Hlunnindi S1-12

Norðurál fylgir ávallt gildandi kjarasamningum sem félagið hefur gert við viðkomandi stéttarfélög er varðar hlunnindi starfsfólks. Í kjarasamningi eru réttindi og skyldur starfsfólks tryggð, s.s. launakjör, veikindaréttur, orlofsréttur, uppsagnarákvæði, fæðingarorlof, réttindi vegna slysa og starfslok vegna aldurs.

Réttindi þeirra sem standa utan stéttarfélaga eru tryggð í ráðningasamningi þar sem sérstaklega er fjallað um veikindarétt, orlofsrétt, fæðingarorlof, réttindi vegna slysa, tryggingar, ákvæði um lífeyrssjóði, fæði og heilsustyrk.

 

Fólk með fötlun S1-13

Norðurál virðir réttindi fatlaðs fólks og því er vísað til jafnréttis- og mannréttindastefnu fyrirtækisins auk þeirra laga sem málaflokkurinn tekur til. Alla jafna er því ekki mismunað á grundvelli fötlunar við ráðningar innan fyrirtækisins en taka þarf sérstakt tillit til vinnuumhverfis og hvort mögulegt sé að taka á móti fötluðum einstaklingi.

 

Þjálfun starfsfólks S1-14

Norðurál leggur ríka áherslu á fræðslu og þjálfun starfsfólks. Starfsfólk Norðuráls hefur margvísleg tækifæri til menntunar og þróunar í starfi. Þörf fyrir þjálfun og starfsþróun er metin árlega í samræmi við metnað og hæfni einstaklingsins og þarfir fyrirtækisins. Efnilegir starfsmenn eru hvattir til áframhaldandi þróunar og þjálfunar.

 Fræðsluáætlun 

Fræðsluáætlun er skipulögð til þriggja ára í senn og leggur línur varðandi þá fræðslu og þjáflun sem starfsfólk fær. Starfsfólk framleiðsludeilda rýnir einnig á hverju ári vinnuleiðbeiningar reglubundinna starfa. Auk reglubundinnar þjálfunar er stefna Norðuráls í gæða-, umhverfis-, öryggis-, mannréttinda-, og jafnréttismálum, vel sýnileg á vinnusvæði Norðuráls og samskiptamiðlum.

Mannauðs og kennslukerfi 

Norðurál notar Kjarna, mannauðs- og launakerfi. Kerfið býður upp á mikla möguleika á að halda utan um upplýsingar og gögn er varða fræðslu, þjálfun og hæfni starfsfólks og hefur verið unnið í nýtingu og þróun á því. Þá var á árinu lögð áhersla á innleiðingu á rafrænu fræðsluefni og var farið í framleiðslu á fræðsluefni í öryggismálum og aukinn aðgangur að ýmsikonar rafrænni fræðslu. Norðurál nýtir Learncove kennslukerfið í miðlun á rafrænni fræðslu sem nýtist vel í miðlun og eftirfylgni með framvindu.

Heildar fræðslustundir voru 11.730:
  •  477 stundir í nýliðakynningu
  • 585 stundir í reglubundin öryggisnámskeið
  • 1.050 stundir í stjórnendaþjálfun- stjórnun öryggismála
  •  3.390 stundir í starfsdaga
  • 6.229 stundir í annars konar þjálfun

Móttaka og þjálfun nýliða

Fólk sem hefur störf hjá Norðuráli fær nýliðaþjálfun þar sem lögð er áhersla á öryggis- og umhverfismál. Farið er yfir stefnu fyrirtækisins og framleiðsluferli. Þá tekur við viðamikil þjálfun á hverri starfsstöð. Á árinu 2024 fékk hver starfsmaður að meðaltali um 19,5 klukkustund í þjálfun. Nýtt starfsfólk situr námskeið og fær sértæka þjálfun í samræmi við starfið. Sem dæmi má nefna eru öryggisnámskeið sem eru skylda hjá ákveðnum hópum eins  „Læsa, merkja, prófa”, fallvarnarnámskeið og námskeið um vinnu í lokuðu rými. Verktakar fá almenna öryggiskynningu árlega ásamt námskeiðum eftir þörfum.

Starfsdagar 

Á vormánuðum voru skipulagðir árlegir starfsdagar fyrir allt starfsfólk með ýmiskonar fræðslu og vinnustofum. Þar voru tekin fyrir málefni sviða og hópa þar sem fjallað var um það sem efst var á baugi. Farið far yfir efni frá öryggis-, umhverfis- og umbótasviði (ÖUU), meðal annars yfirferð á stefnum og markmiðum Norðuráls, virkni ábendingakerfis, viðbragðsáætlun, áhættuskimunum, notkun persónuhlífa, umferðaröryggi og efnamálum. Þar var einnig farið yfir helstu umhverfisáhrif framleiðslunnar ásamt sorpflokkun og meðhöndlun úrgangs. Þá var vinnustofa um það hvernig við byggjum upp öfluga liðsheild.

Öryggisþjálfun 

Mikil áhersla er lögð á hvers kyns öryggisþjálfun hvort sem er öryggi á vinnusvæði, sálfélagslegt öryggi eða upplýsingaöryggi. Öryggismál eru í algjörum forgangi þar sem  áhersla er á að skapa öruggt vinnuumhverfi í hvívetna.

Áherslur í öryggisþjálfun árið 2024 snéru fyrst og fremst að öruggu atferli, þjálfun viðbragðsteyma og leiðtogaþjálfun vakt- og liðstjóra. Þá var þjálfun í notkun handslökkvitækja fyrir allt starfsfólk á haustdögum.

Stjórnendaþjálfun 

Stjórnendaþjálfun var að þessu sinni fyrst og fremst með áherslu á stjórnun öryggismála. Farið var yfir þætti eins og áhættustýringu, atvikarannsóknir, vettvangsskoðanir og öryggismenningu. Vaktstjórar, liðsstjórar og deildarstjórar í framleiðslu taka þátt í stjórnendaþjálfun. Sérfræðingar í framleiðslu taka einnig þátt í þessari þjálfun að hluta.

Norðurál leggur ríka áherslu á fræðslu og þjálfun starfsfólks. Starfsfólk Norðuráls hefur margvísleg tækifæri til menntunar og þróunar í starfi. Þörf fyrir þjálfun og starfsþróun er metin árlega í samræmi við metnað og hæfni einstaklingsins og þarfir fyrirtækisins. Efnilegir starfsmenn eru hvattir til áframhaldandi þróunar og þjálfunar.

 

Réttur almannatrygginga S1-15

Allt starfsfólk Norðuráls er með aðgang að almannatryggingakerfi ríkisins í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga. Þetta felur meðal annars í sér rétt til heilbrigðisþjónustu, atvinnuleysisbóta, örorkubóta, fæðingarorlofs og lífeyrissjóðsgreiðslna.

Því er 100% starfsfólks Norðuráls tryggt með aðild að almannatryggingum og enginn starfsmaður er undanskilinn slíkum réttindum.

 

Launasamanburður S1-16

Norðurál er með vottað jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Árið 2024 framkvæmdi BSI viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu og í þeirri úttekt var sannreynt að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum og stefnu fyrirtækisins í jafnlaunamálum. Markmið Norðuráls er að enginn óútskýrður kynbundinn launamunur sé að milli kynja. Árið 2024 reyndist hann 1,1% körlum í vil.

Árið 2024 voru framkvæmdar tvær markaðslaunagreiningar, annars vegar af hálfu PWC og hins vegar Intellecta. Þær greiningar sýndu fram á að Norðurál greiðir sanngjörn og samkeppnishæf laun.

 

Ábendingar og kvartanir er varða brot á mannréttindum S1-17

Samkvæmt mannréttinda- og jafnréttisstefnu Norðuráls leggur Norðurál áherslu á jafnan rétt starfsfólks óháð kyni, kynhneigð, trúarbrögðum, uppruna eða öðru því sem snýr að mannréttindum og jafnrétti. Norðurál vinnur að stöðugum umbótum og uppfyllir lög og aðrar kröfum um mannréttindi og jafnrétti.

Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið hjá Norðuráli. Starfsfólk er hvatt til að tilkynna öll atvik eða grun um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og/eða annað ofbeldi til næsta yfirmanns eða mannauðsteymis.

Árið 2024 barst engin formlega tilkynning um einelti, kynferðislega og kynbundinna áreitni og/eða annað ofbeldi.
 

Stefna tengd aðfangakeðju S2-1

Norðurál vinnur markvisst að því að tryggja að virðiskeðja fyrirtækisins byggi á ábyrgum vinnubrögðum. Með því leitast Norðurál við að aðstæður starfsfólk, birgja, þjónustuaðila og verktaka, séu sanngjarnar og réttlátar.

Auk innkaupastefnu hafa Norðurál og móðurfélagið Century Aluminum sett fram siðareglur varðandi birgja og samstarfsaðila (Code of Ethics for Suppliers and Business Partners):
  • Siðferðisleg og félagsleg ábyrgð: Birgjar og samstarfsaðilar skulu uppfylla skilmála sem kveða á um virðingu fyrir mannréttindum, bann við þvingunarvinnu og barnaþrælkun, jafnrétti og viðunandi vinnuskilyrði.
  • Lögbundnar og kjarasamningsbundnar kröfur: Gerð er krafa um að allir samstarfsaðilar fari eftir gildandi lögum, reglum og uppfylli helstu atriði siðareglna Century Aluminum.
  • Samþætting verktaka í öryggis- og gæðakerfi: Allir verktakar sem starfa á lóð Norðuráls fá fræðslu og aðgang að öryggisreglum fyrirtækisins. Þeir lúta sömu verklagsreglum um vinnuvernd og starfsfólk Norðuráls.
  • Vinna við áhættugreiningu birgja: Norðurál hefur innleitt verklag til að meta áhættu í aðfangakeðjunni, sérstaklega á svæðum þar sem lagarammi og eftirlit er veikara.
  • Viðmið og innleiðing: Unnið er að útfærslu markmiða í aðfangastjórnun í samræmi við viðmið Aluminium Stewardship Initiative (ASI) og alþjóðlegra sjálfbærnistaðla.

 

Verkferlar í tengslum við samskipti við starfsfólk í virðiskeðju S2-2

Norðurál gerir kröfur til birgja um virðingu fyrir mannréttindum og réttindum starfsfólks í aðfangakeðjunni með innkaupastefnu og siðareglum fyrir birgja, sem fela m.a. í sér skýrar væntingar um:
  • Vinnuvernd og öryggi
  • Jafnrétti og bann við mismunun
  • Rétt til að stofna stéttarfélög
  • Bann við þvingunarvinnu

Mat á birgjum og áhrifum í virðiskeðjunni fer fram með birgjamati og heimsóknum til birgja. Norðurál og Century Aluminum eru meðal annars í samstarfi við EcoVadis, alþjóðlegt matsfyrirtæki, sem sérhæfir sig í sjálfbærni, vinnuréttindum og siðferði í virðiskeðjum. Eco Vadis safnar og metur upplýsingar frá birgjum og öðrum í samræmi við alþjóðlega staðla.
 

Verkferlar til að bregðast við neikvæðum áhrifum á starfsfólk í virðiskeðjunni S2-3

Norðurál hefur sett sér það markmið að tryggja að aðilar í virðiskeðjunni virði mannréttindi, vinnuvernd, kjarasamninga og lögbundin réttindi starfsmanna. Félagið leggur áherslu á að byggja samstarf við birgja og þjónustuaðila á grunngildum um samfélagslega ábyrgð, jafnrétti og öryggi.

Markmið:
  • Allir lykilbirgjar og þjónustuaðilar uppfylli grunnkröfur Norðuráls um siðferði og samfélagsábyrgð.
  • Unnið er að því að auka gagnsæi í virðiskeðjunni með skýrum kröfum og vottunum.
  • Markvisst er unnið að því að draga úr áhættu tengdri mannréttindabrotum, vinnuslysum eða misrétti í aðfangakeðjunni.
Aðgerðir:
  • Á árinu 2024 hófst samstarf við EcoVadis með það að markmiði að meta sjálfbærni birgja.
  • Innleiddir hafa verið formlegir birgjaskilmálar með kröfum um að fylgja lögum og kjarasamningum.
  • Mat fer fram á birgjum sem tengjast beint framleiðsluferli Norðuráls – t.d. fyrir hráefni, verktaka og þjónustu.
  • Notaðir eru sérstakir matsferlar fyrir birgja í löndum þar sem lagarammi og verkalýðssamtök eru veikari.

 

Innleiðing aðgerða og árangur S2-4

Norðurál metur alla birgja samkvæmt ákveðnu ferli. Viðskipti við birgja sem teljast ekki uppfylla kröfur eru stöðvuð tímabundið eða þeim hætt.
 

Mótvægisaðgerðir vegna mannréttindabrota S2-5

Innkaupastefna og Siðareglur til birgja kveðja á um ákvæði um mannréttindi séu uppfyllt.

 

Stefna tengd hagaðilum S3-1

Norðurál leggur ríka áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við nærsamfélagið og stuðli að jákvæðum áhrifum til lengri tíma. Kjarninn í samfélagsábyrgð Norðuráls er að skapa verðmæti á sjálfbæran og ábyrgan hátt með hliðsjón af umhverfi, efnahag og samfélagi.

Norðurál vinnur markvisst að því að greina og skilja áhrif starfseminnar á samfélagið og á í virku samstarfi við sína helstu hagsmunaaðila. Lögð er áhersla á að þekkja sameiginlega hagsmuni og finna leiðir til úrbóta og jákvæðra áhrifa.

Á árinu 2024 fór fram hagaðilagreining og tvöföld mikilvægisgreining í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Langbrók. Greiningin var hluti af stefnumótun í sjálfbærni og efnistökum fyrir sjálfbærniskýrslu Norðuráls.

Hagaðilagreiningin var unnin með forstjóra og stýrihópi Norðuráls og fól í sér forgangsröðun hagaðila út frá vægi, áhættu og tækifærum í starfseminni.

Tvöföld mikilvægisgreining fól í sér samtöl og viðtöl við viðskiptavini, birgja, sveitarfélög og móðurfélagið Century Aluminum. Metin voru:

  • Áhrif starfseminnar á samfélag og umhverfi.
  • Áhrif sjálfbærniþátta á rekstur fyrirtækisins.

Niðurstöðurnar veita grunn að markvissri forgangsröðun og upplýsingagjöf í sjálfbærnimálum og styðja við áframhaldandi samskipti og ábyrgð gagnvart samfélaginu.

Kjarninn í samfélagsábyrgð Norðuráls miðar að því að skapa verðmæti á sjálfbæran og ábyrgan hátt til framtíðar, með jákvæðum áhrifum á samfélagið.

Norðurál á í samstarfi við eftirfarandi samtök/félög:
  • (ASI) Aluminium Stewardship Initiative
  • Álklasinn
  • European Aluminum
  • Festa
  • Grænvangur
  • Samál
  • Samtök atvinnulífsins
  • Samtök iðnaðarins

Félagið hefur mótað skýra sýn og starfshætti um samfélagslega ábyrgð og virka þátttöku í málefnum nærumhverfisins. Norðurál kappkostar að efla traust, gagnsæi og virk samskipti við hagsmunaaðila og byggja upp langtímasamstarf við nærsamfélagið á Grundartanga og í Hvalfjarðarsveit. Framvinda einstakra samfélagsverkefna er rýnd reglulega og er hluti af sjálfbærnivísum fyrirtækisins.

Meðal stefnumarkandi áherslna eru:
  • Virk þátttaka í samfélagsverkefnum og stuðningur við íþrótta-, menningar- og æskulýðsstarf.
  • Stuðningur við vísinda- og nýsköpunarverkefni, sérstaklega tengd orku og umhverfi.
  • Opið samtal og samráð við sveitarfélög, eftirlitsstofnanir og íbúa, m.a. með reglulegum opnum fundum.
  • Skýr viðbragðsáætlun við samfélagslegum áskorunum, svo sem í tengslum við umhverfismál eða breytingar á rekstrarskilyrðum.
Samfélagsstuðningur og þátttaka í samfélaginu

Norðurál lítur á það sem hluta af samfélagslegri ábyrgð sinni að styðja við fjölbreytt og uppbyggilegt starf í nærsamfélaginu. Markmiðið er að hafa jákvæð og varanleg áhrif á samfélagið í kringum starfsemina með beinum stuðningi, virkri þátttöku og samstarfi við hagaðila. Við val á verkefnum er lögð áhersla á að styðja við samfélagslega innviði sem skilar sér til barna og ungmenna.

Norðurál styrkir ýmis samfélagsverkefni og nam upphæðin til þessara verkefna á þriðja tug milljóna árið 2024. Félagið er stoltur styrktaraðili knattspyrnufélagsins ÍA á Akranesi og knattspyrnufélagsins Vals á höfuðborgarsvæðinu. Við styrkveitingu er lögð áhersla á að hún skili sér í starf yngri flokka. Einnig er í gildi styrktarsamningur við Fablab og Golfklúbbinn Leyni á Akranesi.

Þá má nefna smærri styrki sem runnu meðal annars til Mæðrastyrksnefndar Akraness, Björgunarfélags Akraness, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Skógræktarfélags Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Hinsegin daga, Bestu deildarinnar, Efnafræðifélags Íslands, Samhjálpar, Krabbameinsfélagsins Framfarar, Blindrafélagsins, Nemendafélaga Grundaskóla og Brekkubæjarskóla, Kvenréttindafélags Íslands og ýmissa nemendafélaga bæði í framhaldsskólum og háskólum.

Norðurál á virkt samstarf við ýmis samtök og hagsmunaaðila, þar á meðal:
  • Aluminium Stewardship Initiative (ASI): sem staðfestir skuldbindingu Norðuráls til ábyrgrar og gagnsærrar álframleiðslu.
  • Álklasinn og European Aluminum: til að efla samkeppnishæfni og sjálfbærni í evrópskri álframleiðslu.
  • Festa og Grænvangur: í þágu ábyrgra viðskiptahátta og markmið um kolefnishlutleysi og græn umskipti.
  • Samál, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins: í tengslum við hagsmunagæslu, stefnumótun og framþróun atvinnulífsins á Íslandi.

 

Áhrif, áhætta og tækifæri í tengslum við nærsamfélagið (affected communities) S3 SBM-2

Norðurál leggur ríka áherslu á að greina og skilja bæði raunveruleg og möguleg áhrif starfseminnar á nærsamfélagið. Kortlagning á viðhorfum helstu hagsmunaaðila í nærsamfélaginu og samfélagslegra væntinga er grundvöllur að markvissri sjálfbærnistefnu og upplýsingagjöf.

Unnin var tvöföld mikilvægisgreining sem styður við:
  • Val á efnisatriðum í árs- og sjálfbærniskýrslu félagsins.
  • Langtíma stefnumótun Norðuráls í sjálfbærni.
  • Forgangsröðun aðgerða sem tengjast samfélagslegri ábyrgð, umhverfis- og loftslagsmálum.
Greiningin byggðist á samtali við bæði innri og ytri hagsmunaaðila – þar á meðal lykilstjórnendur og starfsfólk, fulltrúa sveitarfélaga, eftirlitsaðila, birgja, viðskiptavini og horft er til beggja þátta tvöfaldrar mikilvægisgreiningar:
  • Áhrif félagsins á samfélagið, sérstaklega í Hvalfjarðarsveit og nærliggjandi byggðum.
  • Áhrif samfélagslegra þátta á rekstur Norðuráls, m.a. varðandi orðspor, leyfisveitingar, orkuöryggi og aðgengi að vinnuafli.
Helstu áhættur í tengslum við nærsamfélagið tengjast mögulegum umhverfisáhrifum, truflunum á starfsemi vegna skorts á sátt og/eða leyfisveitinga, eða minnkandi trausti samfélagsins til fyrirtækisins. Tækifæri felast aftur á móti í:
  • Öflugra samstarfi við samfélagið og hagsmunaaðila.
  • Aukinni nýsköpun í samvinnu við vísinda- og menntastofnanir.
  • Jákvæðum efnahagslegum áhrifum á svæðið, m.a. með atvinnutækifærum og þjónustukaupum.

 

Ferlar í samskiptum við hagaðila (e. affected communites) S3-2

Margt í vinnubrögðum okkar er afleiðing af samræðum og samvinnu við hagaðila. Samskipti okkar við þá byggjast á skuldbindingu um gagnsæ og heiðarleg samskipti, enda mikilvægur þáttur í áframhaldandi velgengni fyrirtækisins.

Samstarf og verklag, þ.m.t. tíðni samstarfs, fer eftir eðli og hagsmunahópum. Samskiptaáætlun liggur að baki samskiptum, og samstarfs- og framkvæmdaverkefni eru skráð í stjórnkerfum Norðuráls. Birgjum okkar og verktökum er skylt að fylgja stöðlum Norðuráls í öryggis- og umhverfismálum sem og viðskiptasiðferði. Við kunnum að meta endurgjöf frá hagaðilum okkar og bregðumst við fyrirspurnum.

 

Viðbragðsferlar vegna hagaðila S3-3

Sjá S3-2.

 

Innleiðing aðgerða til að draga úr áhættu S3-4

  • Norðuál starfar eftir ítarlegum, vottuðum framleiðsluferlum. Auk þess er Norðurál með vottuð umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi.
  • Ítarleg upplýsingagjöf varðandi rekstur og áhrif til nærsamfélags og annarra hagaðila.

 

Markmið til að stýra áhrifum S3-5

  • Vottuð stjórnkerfi Norðuráls eru með innbyggða ferla fyrir stöðugar umbætur.
  • Ítarleg upplýsingagjöf varðandi rekstur og áhrif til nærsamfélags og annarra hagaðila.
  •  

    Viðskiptavinir og neytendur – áhrif, stefna og viðbrögð S4

    Norðurál selur ál til viðskiptavina á evrópskum mörkuðum, einkum í bíla- og byggingariðnað. Ákvarðanir fyrirtækisins um framleiðslu, rekjanleika og sjálfbærni áhrif á neytendur og hagaðila niður virðiskeðjuna.
     

    Hagsmunir og áhættur ESRS 2 SBM-2

    Tvöföld mikilvægisgreining var framkvæmd fyrir Norðurál árið 2025 í samræmi við ESRS staðla og sem hluti af undirbúningi fyrirtækisins fyrir sjálfbærniskýrslugjöf samkvæmt CSRD. Greiningin tók bæði til fjárhagslegra áhrifa (outside-in) og annarra áhrifa (inside-out) og byggði á innra mati og viðtölum við helstu hagaðila. Markmiðið var að greina áhættur og tækifæri í tengslum við sjálfbærni og forgangsraða þeim þáttum sem skipta máli fyrir rekstur Norðuráls og samfélagið. Niðurstöður greiningarinnar staðfesta mikilvægi sjálfbærni í virðiskeðjunni, ábyrgra innkaupa og greinargóðrar upplýsingagjafar til viðskiptavina. Það tryggi langtíma samkeppnishæfni og traust.

    Hagaðilar leggja áherslu á:
    • Heildar kolefnisspor (Scope 1–3), jákvæð áhrif græns áls fyrir endanotendur, nýsköpun og sjálfbærni.
    • Ábyrgð í virðiskeðju og upplýsingagjöf til viðskiptavina.
    • Uppruna hráefna og ábyrga aðfangastýringu.
    • Gæði gagna, rekjanleika um uppruna og vottanir.
    • Áhrif framleiðslunnar á ímynd og væntingar markaða.

     

    Áhrif, áhættur og tækifæri hagaðila ESRS 2 SBM-3

    Áhrif:

    Sem framleiðandi græns áls býður Norðurál vöruframleiðendum og neytendum umhverfisvænt ál með lágu kolefnisspori, meðal annars til bílaframleiðaanda og utanhússklæðninga. Fyrirtækið stuðlar að jákvæðum áhrifum með því að framleiða ál sem bætir orkunýtingu og endurvinnslueiginleika í lokavöru.

    Áhættur:

    • Orðsporsáhætta.
    • Tæknilegir og rekstrarlegir örðugleikar við að uppfylla kröfur vipskiptavina.
    • Áreiðanleiki í afhendingum.

    Tækifæri:

    • Vaxandi eftirspurn eftir vöru með vottað kolefnisspor (t.d. Natur-Al™).
    • Dýpri viðskiptatengsl og langtímasamningar við viðskiptavini sem vilja ál sem framleitt er á ábyrgan og sjálfbæran hátt.
    • Aukin samkeppnishæfni Norðuráls, sem framleiðanda umhverfisvæns íslensks áls.

     

    Greining og mat á áhættu og áhrifum vegna viðskiptavina og neytenda ESRS 2 IRO-1

    Sjá nánar í GOV-2 undir Stjórnarhættir
     

    Stefna tengd viðskiptavinum S4-1

    Norðurál leggur áherslu á langtímasamstarf við viðskiptavini byggt á gagnsæi, trausti og gagnkvæmum ávinningi. Stefna félagsins er að bjóða ábyrga og rekjanlega vöru sem uppfyllir ströngustu gæðakröfur og stuðlar að markmiðum viðskiptavina í sjálfbærni.

    Helstu meginatriði í stefnu Norðuráls gagnvart viðskiptavinum:

    • Lágkolefnisál með vottun: Norðurál framleiðir vottað ál með einungis um 4 tonn CO₂-ígilda á hvert tonn áls. Þetta er meðal lægstu kolefnisspora í heiminum og gerir viðskiptavinum kleift að ná eigin loftslagsmarkmiðum.
    • Upplýsingagjöf og rekjanleiki: Norðurál veitir skýrar upplýsingar um uppruna hráefna, orkunýtingu og kolefnisspor. Varan er rekjanleg frá hráefni til afhendingar og upplýsingar eru aðgengilegar fyrir viðskiptavini.
    • Gæðatrygging og vöruábyrgð: Norðurál starfar eftir vottuðu gæðakerfi (ISO 9001) og skilgreinir vöruábyrgð samkvæmt samningum og viðurkenndum verklagsreglum.
    • Samvinna um nýsköpun: Norðurál tekur virkan þátt í samstarfsverkefnum með viðskiptavinum sem miða að þróun á sjálfbærum lausnum, hringrásarhagkerfi og vistvænni vöruþróun.
    • ASI vottun: Norðurál er fyrsta álframleiðslan á Íslandi sem hlýtur vottun frá Aluminium Stewardship Initiative (ASI) og tryggir þannig ábyrga viðskiptahætti og sjálfbæra framleiðslu samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.

     

    Ferlar til að hafa samskipti við neytendur S4-2

    Norðurál á regluleg og góð samskipti við viðskiptavini. Viðskiptavinir gefa fengið upplýsingar um framleiðslu vörunnar með upplýsingum úr Árs- og sjálfbærniskýrslu, lífsferilsgreiningu, EPD, úttektum og almennum heimsóknum.
     

    Leiðir til að koma ábendingum og kvörtunum á framfæri S4-3

    Ekki hafa komið upp atvik hjá Norðuráli undanfarin ár sem tengjast:

    • Brotum á persónuvernd viðskiptavina eða gagnatapi.
    • Eða gagnalekum frá kerfum Norðuráls eða samstæðunnar.
    • Norðurál vinnur eftir reglum Century Aluminum um gagnavernd og notar örugg kerfi fyrir öll viðskiptasamskipti.

     

    Markmið til að draga úr neikvæðum áhrifum og efla jákvæð áhrif fyrir viðskiptavini S4-4, S4-5

    Norðurál hefur sett sér mælanleg markmið og áherslur sem miða að því að lágmarka neikvæð áhrif og hámarka jákvæð áhrif á viðskiptavini sína. Markmiðin eru hluti af sjálfbærnistefnu félagsins og stjórnkerfismarkmiðum fyrirtækisins. Þau byggja á gagnsæi, ábyrgð og samstarfi við viðskiptavini.

    Helstu markmið og áherslur:
    • Ánægðir viðskiptavinir: Félagið fylgist reglulega með ánægju viðskiptavina og leitast við að veita áreiðanlega þjónustu og hágæða vöru.
    • Lágt kolefnisspor vöru: Markmið Norðuráls er að halda kolefnisspori álsins undir 4 tonnum CO₂-ígilda á hvert framleitt tonn, sem er um fjórðungur af alþjóðlegu meðaltali. Þetta gerir vöru félagsins að umhverfisvænni valkosti fyrir viðskiptavini sem vilja draga úr eigin losun.
    • Nýsköpun og þróun: Norðurál leggur áherslu á nýsköpun og þróun ferla með sjálfbærni að leiðarljósi til að mæta auknum kröfum um umhverfisábyrgð og rekjanleika í virðiskeðjunni.
    • Gagnsæi og upplýsingagjöf: Félagið tryggir ítarlega og reglulega upplýsingagjöf um uppruna, kolefnisspor og framleiðsluskilyrði vörunnar í samræmi við alþjóðleg viðmið og þarfir viðskiptavina. Þar á meðal er vottun samkvæmt Aluminium Stewardship Initiative (ASI).
    Aðgerðir til að ná markmiðum:
    • Samstarf við viðskiptavini um þróun lágkolefnisafurða og hringrásarlausna.
    • Framleiðsluvottun samkvæmt Aluminium Stewardship Initiative (ASI).
    • Notkun viðurkenndra rekjanleikaferla og gagnasöfnunar fyrir umhverfisupplýsingar.
    • Upplýst þjónusta og viðbrögð við ábendingum eða kvörtunum.
    Stýring áhættu og tækifæra:
    • Norðurál framkvæmir reglulega næmnisgreiningu á fjárhagslegum áhrifum breytinga á hráefnismörkuðum, orkuverði og umhverfiskröfum (sbr. IRO-1).
    • Markmiðin eru hluti af samþættri sjálfbærnistefnu og stýrt í samstarfi við viðskiptadeild og framkvæmdateymi sjálfbærnimála.