
Almenn upplýsingagjöf
Undirbúningur og forsendur skýrslugerðar ESRS BP-1
Norðurál ehf., dótturfélag Century Aluminum Company, rekur álver á Grundartanga þar sem framleitt er ál með lágu kolefnisspori. Framleiðslan nýtir að fullu endurnýjanlega raforku úr vatnsafli og jarðvarma, og afurðir fyrirtækisins eru seldar á alþjóðlegum mörkuðum, meðal annars til bílaframleiðslu, byggingariðnaðar og raforkugeirans.
Viðskiptamódel Norðuráls byggir á skilvirkri og kolefnissnauðri álframleiðslu og er sjálfbærni í auknum mæli samþætt í stefnumörkun félagsins. Þessi þróun endurspeglar bæði vaxandi væntingar hagsmunaaðila og breytta samkeppnisstöðu álmarkaðarins þar sem áhersla á kolefnisspor, rekjanleika og samfélagsábyrgð hefur æ meira vægi.
Stjórnkerfi og helstu sjálfbærniáherslur Norðuráls eru:
- Loftslagsmál – Lágmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda (Scope 1, 2 og 3),
- Ábyrgð gagnvart starfsfólki, öryggi og vinnuvernd,
- Umhverfisstjórnun og vistvænir framleiðsluhættir,
- Ábyrg stjórnun virðiskeðju og birgjanets,
- Gagnsæi og umbætur í stjórnarháttum.
Norðurál starfar samkvæmt samþættu stjórnkerfi sem nær til allra þátta rekstursins, þar á meðal gæðamála, umhverfismála, vinnuverndar, samfélagsábyrgðar og stjórnunarupplýsinga.
Kjarni stjórnkerfisins er gæðahandbók Norðuráls, sem inniheldur formlega skilgreinda ferla, verklýsingar, ábyrgðarskiptingu og rýnihópa. Til viðbótar er notast við rafrænt ábendingakerfi, þar sem starfsfólk og verktakar skrá atvik, hættur og umbótatillögur. Ábendingum er fylgt eftir með greiningu, fyrirbyggjandi aðgerðum og kerfisbundnum umbótum.
Stjórnkerfið nær til allrar starfsemi fyrirtækisins og tekur til alls starfsfólks, verktaka og samstarfsaðila. Með kerfinu er stuðlað að stöðugum umbótum, í anda PDCA hringrásar (Plan–Do–Check–Act), í samræmi við ISO staðlana sem Norðurál starfar eftir (ISO 9001, ISO 14001 og ISO 45001).
Vottanir og gæðastaðlar
Norðurál starfar eftir alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um gæði, umhverfisábyrgð og öryggi:
- ASI-vottun (Aluminium Stewardship Initiative): Norðurál hlaut árið 2020 ASI-vottun fyrir ábyrga og umhverfisvæna framleiðslu og var endurvottað samkvæmt uppfærðum ASI Performance Standard árið 2023. Staðfest er að starfsemi félagsins stenst strangar kröfur um samfélagslega ábyrgð, umhverfisábyrgð og góðar starfsvenjur í álframleiðslu. Næsta úttekt fer fram árið 2026. ASI-samtökin sameina hagsmuni frá allri virðiskeðjunni, m.a. framleiðendur, umhverfissamtök og neytendavörumerki.
- ISO vottanir: Norðurál hefur vottað gæðastjórnunarkerfi (ISO 9001), umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001) og vinnuverndarstjórnunarkerfi (ISO 45001). Þessi kerfi eru samþætt undir PDCA (Plan-Do-Check-Act) nálgun og viðhaldið með reglulegum innri og ytri úttektum. Fyrsta vottun átti sér stað 2012–2013 og er viðhaldið með úttektum tvisvar á ári.
- Jafnlaunavottun: Norðurál er jafnlaunavottað fyrirtæki samkvæmt ÍST 85:2012 og handhafi gullmerkis PwC.
- LME skráning: Með því að uppfylla kröfur um ábyrg innkaup (m.a. í samræmi við leiðbeiningar OECD) og vera vottað samkvæmt ofangreindum stöðlum uppfyllir Norðurál skilyrði London Metal Exchange (LME) um skráð vörumerki.
Innleiðing ESRS og sjálfbærniskýrslugerð
Norðurál gefur nú í fyrsta sinn út árs- og sjálfbærniskýrslu samkvæmt Corporate Sustainability Reporting Directive (CSRD) löggjöfinni og European Sustainability Reporting Standards (ESRS) mælikvörðunum. Skýrslugerðin nær til rekstrarársins 2024 og byggir á grunni þeirra gagna og kerfa sem þegar eru til staðar innan Norðuráls og samstæðu Century Aluminum. Áður, eða frá rekstrarárinu 2021, hefur Norðurál fylgt Global Reporting Initiative (GRI) staðlinum við útgáfu fyrri samfélagsskýrslna.
Undirbúningur fól í sér:
- Greiningu á helstu sjálfbærniþáttum fyrirtækisins með tvöfaldri mikilvægisgreiningu (double materiality),
- Samræmingu gagnaöflunar og innleiðingarferla innan lykilsviða fyrirtækisins,
- Aðstoð ráðgjafafyrirtækisins Langbrókar við ESRS túlkun, gagnastjórnun og verklag,
- Stjórnun sjálfbærnimála.
Innleiðing ESRS staðlanna og eftirfylgni með sjálfbærnimarkmiðum eru undir stjórn stýrihóps um sjálfbærni, þar sem sitja:
- Forstjóri og framkvæmdastjóri Norðuráls,
- Framkvæmdastjóri samskipta- og samfélagsmála,
- Framkvæmdastjóri öryggis-, umhverfis- og umbótasviðs,
- Yfirmaður sjálfbærnimála hjá Century Aluminum.
Hópurinn fundar reglulega og fer yfir framvindu verkefna og samræmingu á sviði sjálfbærni milli sviða og gagnvart móðurfélagi.
Öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisnefnd Norðuráls hefur eftirlit með framfylgd markmiða í þessum málaflokkum. Í nefndinni sitja fulltrúar framkvæmdastjórnar, öryggistrúnaðarmenn og öryggisfulltrúar, auk þess sem fagráð sérfræðinga og framleiðslustarfsfólks styður við stefnumótun og umbætur.
Gagnasöfnun
Gögn sem liggja til grundvallar skýrslunni koma að mestu úr rekstrar-, umhverfis- og öryggiskerfum Norðuráls. Leitast hefur verið við að tryggja samræmi við mælikvarða ESRS staðlanna og gæði og áreiðanleika gagna eftir bestu getu. Ábyrgð á gögnum og útreikningum er samvinnuverkefni stýrihópsins og lykilstjórnenda innan sviða.
Tvöföld mikilvægisgreining sem framkvæmd var af Langbrók ehf. í samráði við stjórnendur og hagaðila, liggur til grundvallar ákvörðun efnistaka, viðfangsefna og forgangsröðunar í skýrslunni.
Greining og mat á áhættu og áhrifum ESRS 2 IRO-1
Norðurál hefur unnið markvisst að greiningu á helstu áhættuþáttum og mögulegum fjárhagslegum áhrifum þeirra. Í því samhengi hefur fyrirtækið unnið að næmnisgreiningu á lykilbreytum í rekstrarumhverfi sínu sem tengjast sjálfbærni, með það að markmiði að samþætta frekar áhættustýringu og fjárhagslega áætlanagerð.
Greiningin tekur mið af því hvernig breytingar á helstu ytri aðstæðum – s.s. raforkuverði, hráefniskostnaði og kolefnisgjaldi gætu haft áhrif á EBITDA og hagnað fyrirtækisins. Í þessu samhengi hefur Norðurál einnig metið möguleg umfang fjárfestinga sem nauðsynlegar eru til að uppfylla markmið í loftslagsmálum og umhverfisstjórnun.
Markmið með greiningunni eru:
- Að skilja fjárhagsleg áhrif ef sjálfbærni áhættuþættir raungerast, og hvernig það hefur áhrif á afkomu og fjárfestingaþörf.
- Að styrkja ákvarðanatöku og forgangsröðun í fjárfestingum sem styðja við orkuskipti, kolefnishlutleysi og hringrásarhagkerfi.
- Að samþætta betur sjálfbærni og fjárhagsáætlanir í gegnum uppfærða áhættustýringarkerfi.
Norðurál vinnur áfram að því að þróa þessar greiningar, sérstaklega með tilliti til losunar í umfangi 3, gagnasöfnunar í aðfangakeðjunni og nýrra hringrásarlausna sem styðja við mat á fjárhagsáhrifum sjálfbærniáhættu.
Tvöföld mikilvægisgreining styður jafnframt við þessa vinnu með skýrri forgangsröðun áhættu og tækifæra sem tengjast sjálfbærni, bæði hvað varðar áhrif starfseminnar á samfélag og umhverfi og áhrif sjálfbærnimála á rekstur fyrirtækisins. Unnið verður áfram að því að tvöfaldri mikilvægisgreiningu til að ná til fleiri lykilhagaðila Norðuráls.
Tvöföld mikilvægisgreining ESRS IRO-2
Vinna að tvöfaldri mikilvægisgreiningu (Double Materiality Assessment) hófst árið 2024 en sú greiningarvinna er forsenda innleiðingar á sjálfbærniupplýsingagjöf samkvæmt evrópskri tilskipun byggðri á CSRD (e. Corporate Sustainability Reporting Directive), evrópskri skýrslugerð og upplýsingastaðli á sviði sjálfbærni og loftslagsmála ESRS (e. European Sustainability Reporting Standards). Tilgangurinn er að kortleggja mikilvægustu sjálfbærniáherslur Norðuráls, þar sem horft er til innri og ytri sjónarmiða um sjálfbærni í starfseminni. Mikilvægisgreiningin tekur á helstu sjálfbærniáhættum í starfseminni og hvaða þættir í umhverfinu og samfélaginu hafa mest áhrif á fjárhag Norðuráls.
Mikilvægi sjálfbærniþátta er metið til að kortleggja áhrif starfseminnar á umhverfi, samfélag og efnahag. Niðurstöður áhættumatsins eru í kjölfarið innleiddar í almennt áhættumat Norðuráls sem draga á úr líkum á að neikvæðar aðstæður skapist. Niðurstöður mikilvægisgreiningar er grunnur að efnistökum í árs- og sjáflbærniskýrslu Norðuráls.
Listi mikilvægisþátta ESRS IRO-2