Ávarp forstjóra

Norðurál er eitt af tíu stærstu fyrirtækjum landsins hvort sem horft er til veltu eða afkomu, og við erum stolt af því að vera leiðandi á okkar sviði og taka virkan þátt í uppbyggingu íslensks samfélags. Á árinu 2024 námu útflutningsverðmæti Norðuráls 109 milljörðum króna. Hlufall Norðuráls af heildar útflugningsverðmætum Íslands er því yfir 11%. Greiðslur til íslenskra aðila voru tæpir 50 milljarðar króna eða um 45% af útflutningsverðmætum, í formi opinberra gjalda, launa og innkaupa frá innlendum birgjum og þjónustuaðilum.

Það er ekki bara í krónum talið sem árangur fyrirtækja er mældur. Við viljum skapa verðmæti á sjálfbæran og ábyrgan hátt til framtíðar og með jákvæðum áhrifum á samfélagið. Við höfum tekið virkan þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum þar sem leitað er leiða til að fanga og binda eða nýta það CO₂ sem losnar við álframleiðslu Norðuráls. Á árinu 2024 ákváðu Norðurál og Carbon Iceland að kanna möguleika að nýta CO₂ frá starfsemi Norðuráls til framleiðslu á grænu eldsneyti. Hvort það verði að veruleika mun tíminn leiða í ljós, en við höldum ótrauð áfram að leita leiða til að draga úr losun og stefnum enn á kolefnishlutlausa álframleiðslu á Grundartanga.

Árið 2024 hófst framleiðsla á álstöngum eða svokölluðum boltum (e.billets) í nýrri framleiðslulínu Norðuráls. Um er að ræða sívalninga úr áli sem fara í framleiðslu á margskonar vörum sem framleiddar eru með þrýstimótun. Boltarnir eru eftirsóttir af evrópskum viðskiptavinum, en ál er lykilefni við framleiðslu t.d. rafbíla, flugvéla og umhverfisvænna bygginga. Með framleiðslu á boltum er Norðurál því að færa sig nær viðskiptavinum sínum og jafnframt færa verðmætaaukninguna til Íslands. Með því að nota íslenska orku verður kolefnisspor boltaframleiðslunnar mun minna en ef hún færi fram erlendis. Þá er áætlaður orkusparnaður um 40%. Þetta verkefni var lengi á teikniborðinu hjá okkur og framkvæmdin tók meira en tvö ár sem kallaði á samvinnu og þolinmæði starfsfólks.

Fyrirtæki er ekki annað en það fólk sem þar starfar. Allur undirbúningur, framleiðsla og árangur byggist á einstaklingum sem vinna saman að sameiginlegu markmiði. Betrumbætur í rekstri, góð samskipti og árangur fyrirtækisins byggir að mestu leyti á fólkinu sem þar vinnur. Og það má með sanni segja að við hjá Norðuráli séum heppin með starfsfólk.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri