Almennir Þjónustuskilmálar

 

Þjónustuskilmálar 10.08.2011Útg. 2.1

(PDF form skilmála)

 

Skilmálar þessir gilda fyrir Norðurál ehf., Norðurál Grundartanga ehf. og Norðurál Helguvík ehf. og viðskiptamenn þeirra. Í skilmálum þessum gilda eftirfarandi skilgreiningar:  

 • Norðurál:Norðurál ehf, Norðurál Grundartangi ehf. og/eða Norðurál Helguvík ehf.
 • Verktaki:Sá sem með þjónustusamningi tekur að sér að vinna verk samkvæmt verkbeiðnum / innkaupapöntunum Norðuráls.
 • Þjónustusamningur: Samningur um þjónustu milli Norðuráls og verktaka ásamt viðaukum.
 • Verk: Verk eða þjónusta innt af hendi af verktaka eða undirverktaka hans samkvæmt verkbeiðni / innkaupapöntunum Norðuráls á grundvelli þjónustusamnings
 • Svæði Norðuráls: Verksmiðjusvæði Norðuráls á Grundartanga og framkvæmdasvæði Norðuráls í Helguvík
 • Starfsstaður verktaka: [●]

 

Almennt um verkbeiðnir, innkaupapantanir

 • Á dagvinnutíma, milli kl. 7:30-16:00 hafa innkaupafulltrúar Norðuráls einir heimild til að gefa út innkaupapantanir fyrir Norðurál.
 • Allar þjónustubeiðnir hjá Norðuráli samkvæmt þjónustusamningi fara fram með innkaupa­pöntunum. Innkaupapantanir gilda aðeins fyrir það magn, upphæð og verk (þjónustu) sem tiltekin er á innkaupapöntun, nema annað sé tekið fram.
 • Ef upplýsingar um verk, verð eða annað sem fram kemur á innkaupapöntunum eru ekki í samræmi við þjónustusamning skal verktaki hafa samband við innkaupadeild Norðuráls sem annað hvort leiðréttir eða fellir niður innkaupapöntunina.
 • Verktaki skal aðeins inna af hendi verk (þjónustu) gegn útgefinni innkaupapöntun, nema um neyðarinnkaup samkvæmt 2. gr. skilmála þessara sé að ræða. Verktaki sem afhendir þjónustu án gildrar innkaupapöntunar getur átt á hættu að fá þjónustu sína ekki greidda. 

 

Neyðarinnkaup

 • Neyðarinnkaup geta einungis átt sér stað utan dagvinnutíma.
 • Heimildir til neyðarinnkaupa hafa starfsmenn Norðuráls samkvæmt neyðarinnkaupalista sem birtur er á heimasíðu Norðuráls, www.nordural.is.
 • Innkaupafulltrúar Norðuráls gefa út innkaupapöntun fyrir neyðarinnkaupum næsta virka vinnudag.  Verktaki skal ganga úr skugga um að innkaupapöntun sé gefin út og skal reikningur hans taka mið af þeirri innkaupapöntun.

 

Breytingar á innkaupapöntunum

 • Innkaupafulltrúum Norðuráls er heimilt að krefjast breytinga á umfangi innkaupapantana innan eðlilegra marka. Norðuráli er og heimilt að gera sérstakar kröfur um breytingar á efnisvali, hönnun, framkvæmd verks og um aukaverk eftir því sem við á. Allar kröfur / yfirlýsingar um breytingar skulu vera skriflegar.
 • Verktaki á rétt á sérstakri greiðslu vegna aukins kostnaðar sem af breytingu skv. grein 3.1 leiðir ef hann hefur gert kröfu um það áður en byrjað var á vinnu við breytinguna. Leiði breyting til lægri kostnaðar getur Norðurál krafist lækkunar á fjárhæð þóknunar samkvæmt innkaupapöntun. Aðilar skulu án ástæðulauss dráttar semja um þá hækkun eða lækkun samningsfjárhæðar sem leiðir af kröfum Norðuráls um breytingar en ekki má sú samningsgerð valda töfum á framkvæmd verks. Í samningi skal taka fram hvort breytingin hefur áhrif á skilafrest og þá hve mikil.
 • Verktaki má enga aukaþjónustu vinna nema samkvæmt staðfestum fyrirmælum Norðuráls. Ef þess er krafist skal liggja fyrir kostnaðaráætlun verktaka um aukaverk áður en vinna við það hefst. Skal slík kostnaðaráætlun staðfest af Norðuráli.
 • Norðuráli er, hvenær sem er, heimilt að ákveða hvort verktaki skuli halda áfram með verk samkvæmt innkaupapöntun, fresta því eða hætta við það. Ákvæði Norðurál að hætta við verk skal Norðurál senda verktaka tilkynningu þar að lútandi. Norðurál mun sjá til þess að verktaka verði greiddur uppsafnaður kostnaður verktaka á lokadegi og skal það vera endanlegt og eina úrræði verktaka varðandi þetta tilvik. Ákveði verktaki að nota efni, sem nota átti við verkið, við önnur verk skal verktaki endurgreiða félaginu þann kostnað.

 

Undirverktakar, skuldskeyting

 • Verktaka er óheimilt án samþykkis Norðuráls að láta annan aðila taka við skyldum sínum samkvæmt þjónustusamningi í sinn stað að nokkru eða öllu leyti.
 • Verktaka er heimilt að fela undirverktaka að sinna einstökum verkþáttum að fengnu samþykki Norðuráls á undirverktaka. Engu breytir það þó um ábyrgð verktaka á samningsskyldum gagnvart Norðuráli. Verktaki skal leita viðurkenningar Norðuráls á undirverktaka og skal Norðuráli heimilt að hafna undirverktaka ef hann telst vanhæfur að mati Norðuráls.
 • Hafi verktaki gert verkáætlun um verkið tekur hann ábyrgð á að undirverktaki hagi framkvæmdum sínum í samræmi við hana.
 • Undirverktaki getur ekki gert neins konar samning um verkið við Norðurál. Öll fyrirmæli eða óskir frá Norðuráli um breytingar á verki skulu fara um hendur verktaka.

 

Verktryggingar

 • Norðuráli er heimilt að krefjast þess, þegar innkaupapöntun er gefin út, að verktaki setji tryggingu fyrir því að hann muni efna skyldur sínar samkvæmt henni.
 • Sé þess óskað af hálfu verkkaupa skal fjárhæð tryggingar verktaka nema ákveðnu hlutfalli af tilgreindri fjárhæð innkaupapöntunar ef ekki er um annað samið.
 • Trygging skal sett með bankaábyrgð, ábyrgð tryggingarfélags, tryggingarfé eða með öðrum þeim hætti sem Norðurál samþykkir.
 • Kostnað af því að setja tryggingu skal verktaki greiða og nýtur hann arðs af tryggingarfénu.
 • Trygging verktaka skal standa til loka ábyrgðartíma samkvæmt skilmálum þessum.
 • Eftir að verktaki hefur lokið verki samkvæmt innkaupapöntun og verkkaupi veitt því viðtöku verður ekki haldið meira eftir af tryggingarfénu en sem nemur 4% tilgreindar fjárhæðar á innkaupapöntun að meðtöldum verðbótum, ef um þær hefur verið samið, enda hafi verktaki bætt úr öllum göllum á verkinu sem í ljós eru komnir og hann ber ábyrgð á.

 

Verkstjórn, umsjón, eftirlitsmenn

 • Verktaki skal tilkynna Norðuráli hver verður yfirstjórnandi verks samkvæmt þjónustusamningi. Yfirstjórnandinn skal í öllum efnum geta komið fram fyrir hönd verktaka um framkvæmd verksins, gefið út og veitt viðtöku yfirlýsingum varðandi það og á annan hátt haft milligöngu um samskipti við Norðurál. Val á yfirstjórnanda er háð samþykki Norðuráls. Komi til breytinga á yfirstjórnanda er breytingin háð samþykki Norðuráls. Með verkstjórn skal jafnan fara verkstjóri sem hefur reynslu af hliðstæðum verkum eða verkþáttum og skal hann vera á vinnustað þegar unnið er, eða annar í hans stað í forföllum.
 • Ákvæði fyrstu málsgreinar gilda um undirverktaka eftir því sem við getur átt.
 • Starfsmenn verktaka geta lotið beinni verkstjórn verkkaupa sé um það samið.
 • Norðurál tilkynnir verktaka hver verður verkumsjónarmaður hans við framkvæmd verksins. Verkumsjónarmaður Norðuráls er sérstakur fulltrúi Norðuráls og hefur hann yfirumsjón með eftirliti og með því að verktakinn standi við gerða samninga. Hann getur því einn gefið út og veitt móttöku fyrir hönd verkkaupans yfirlýsingum varðandi verkið og metið gild eða hafnað efni og vinnu. Hann getur mætt fyrir hönd Norðuráls við úttekt á verkinu. Að öðru leyti getur hann komið fram fyrir hönd Norðuráls um allt sem varðar framkvæmd verksins.
 • Verkumsjónarmanni Norðuráls eru til aðstoðar eftirlitsmenn sem fylgjast með verkinu undir hans stjórn.
 • Norðurál og eftirlitsmenn þess hafa aðgang að vinnustað eða verkstæðum verktaka þar sem unnið er að framkvæmd verksins, eftir því sem með þarf.
 • Verkumsjónarmanni Norðuráls er heimilt að stöðva verkið ef réttmætar athugasemdir hans eru ekki teknar til greina. Verkumsjónarmaður getur einnig krafist þess að starfsmenn verktaka, sem ekki sýna nægilega vandvirkni, varkárni eða kunnáttu hverfi af vinnustað. Slík krafa skal þó ófrávíkjanlega studd skriflegum rökum
 • Verktaki skal í öllu vinna verk sitt á eigin ábyrgð, hvort sem Norðurál kýs að hafa eftirlit á vinnustað eða ekki. Ef verktaki er í vafa um einstök atriði verksins skal hann leita úrskurðar verkumsjónarmanns. Samþykki Norðuráls eða verkumsjónarmanns á staðsetningu, efni, vinnuaðferðum eða þeirri vinnu leysir verktaka ekki undan ábyrgð þeirri sem á honum hvílir.

 

Tímagjöld

 • Sé verk unnið samkvæmt tímagjaldi skal verktaki við gerð þjónustusamnings leggja fram vinnutímagjald allra starfsmanna verktaka. Tímagjaldi starfsmanna verktaka skal skipta í eftirfarandi fjóra flokka:
  • Grunntímagjald, dagvinnu starfsmanna verktaka á starfsstað verktaka.
  • Tímagjald dagvinnu starfsmanna verktaka á svæði Norðuráls. Innifalið í tímagjaldi skal vera ferðatími starfsmanna, kílómetragjald bifreiðar, gangnagjald og annar tilkostnaður ef við á. Allur akstur skal auk þess innifalinn í tímagjaldi samkvæmt þessum lið.
  • Tímagjald yfirvinnu starfsmanna verktaka á starfsstað verktaka.
  • Tímagjald yfirvinnu starfsmanna verktaka á svæði Norðuráls. Innifalið í tímagjaldi skal vera ferðatími starfsmanna, kílómetragjald bifreiðar, gangnagjald og annar tilkostnaður ef við á. Allur akstur skal auk þess innifalinn í tímagjaldi samkvæmt þessum lið.
 • Önnur gjöld, s.s. tímagjald eða tryggingagjald skulu vera innifalin í tímavinnugjaldi starfsmanna verktaka. Allur kostnaður vegna öryggisbúnaðar starfsmanna verktaka og þjálfunar þeirra er varðar öryggisreglur Norðuráls skal auk þess innifalinn í tímagjaldi starfsmanna verktaka.
 • Tímagjöld samkvæmt grein þessari skal tilgreina í þjónustusamningi.
 • Ekki verður greitt sérstaklega fyrir ferðatíma og tilkostnað vegna ferða til og frá svæði Norðuráls við upphaf og lok vinnudags.
 • Allar breytingar á vinnutímagjaldi skal senda Norðuráli með sannanlegum hætti og með minnst mánaðar fyrirvara og skulu slíkar breytingar samþykktar af fulltrúum Norðuráls sem breyting á þjónustusamningi.

 

Þóknanir fyrir akstur

 • Norðurál greiðir fyrir akstur, að undanskildum akstri starfsmanna verktaka samkvæmt 7. gr. skilmála þessara.
 • Ekki er greitt fyrir akstur stærra ökutækis en tilefni er til hverju sinni.

 

Tímaskýrslur, dagskýrslur, vinnuskýrslur

 • Fyrir alla tímavinnu, jafnt á svæði Norðuráls sem á starfsstað verktaka, skal verktaki halda tímaskýrslur.
 • Norðurál lætur verktaka eyðublöð í té fyrir tímaskýrslur fyrir skráningu á vinnu unna á svæði Norðuráls. Tímaskráning starfsmanna verktaka skal miðast við virkan vinnutíma þeirra.
 • Viðurkenning verkumsjónarmanns á réttri tímaskýrslu felur ekki í sér viðurkenningu á gæðum þjónustu eða verks verktaka.
 • Verktaka ber að fylla daglega út vinnuskýrslur starfsmanna og skulu þær staðfestar af verkumsjónarmanni eða eftirlitsmanni Norðuráls við lok hvers vinnudags.
 • Vinnuskýrslur starfsmanna verktaka, staðfestar af verkumsjónarmanni Norðuráls eða eftirlitsmanni, skulu fylgja viðkomandi reikningi sem verktaki sendir til Norðuráls.
 • Fyrir vinnu unna á starfsstað verktaka skal verktaki senda inn yfirlit fyrir hverja viku.  Yfirlit skal innihalda upplýsingar um tíma og efni sem notað er til verksins.

 

Umgengni og samvinna á vinnustað

 • Við framkvæmd þjónustu/verks ber verktaka að fara í öllu eftir því sem mælt er fyrir um í byggingarreglugerð, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um brunamál, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lögreglusamþykkt eða annarri löggjöf eða í fyrirmælum stjórnvalda um öryggisráðstafanir, ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir truflanir á umferð eða annað þess háttar.

 

Verksvið verktaka

 • Verktaki skal ljúka verki samkvæmt innkaupapöntun í samræmi við það sem ákveðið er í innkaupapöntun, þjónustusamningi og viðaukum hans.
 • Verktaki skuldbindur sig til þess að greiða starfsmönnum sínum laun og önnur starfskjör í samræmi við kjarasamning viðeigandi stéttarfélags á hverjum tíma. Verktaki skal sjá til þess að erlent starfsfólk verktaka hafi virkt atvinnuleyfi við störf sín.
 • Verktaki skal hafa ábyrgðartryggingu, sem tryggir hann gagnvart tjóni sem hann eða starfsmenn hans kunnu að valda þriðja aðila, ásamt slysatryggingu fyrir starfsmenn sína. Skal verktaki sýna fram á upphæð og skilmála þessarar tryggingar með staðfestingu frá tryggingarfélagi til verkumsjónarmanns áður en byrjað er á verki samkvæmt innkaupa­pöntun. Tryggingin er háð samþykki Norðuráls.
 • Norðurál mælir eindregið með að verktakar hafi brunatryggingu á vörum og tækjum verktaka. Norðurál undanskilur sig ábyrgð á kröfu verktaka vegna brunatjóns á vörum og/eða tækjum verktaka, nema slíkt hljótist af ásetningi eða stórfelldu gáleysi starfsmanna Norðuráls eða manna sem Norðurál ber ábyrgð á.
 • Ef ekki er um annað samið skal verktaki kosta og leggja til allt sem þarf til að ljúka verkinu, annað en það sem mælt er fyrir um í 12., 13., 15., 16. og 17. gr. skilmála þessara, svo sem efni og vinnu þar með talda vélavinnu, vinnuaðstöðu, uppihald starfsmanna, vinnupalla, ljósabúnað, vegagerð o.s.frv. Hann skal greiða öll gjöld vegna starfsmannahalds, s.s. slysatrygginga­gjöld, tryggingagjald og önnur launatengd gjöld. Hann greiðir og virðisaukaskatt vegna verksins.
 • Verktaki annast og kostar allt viðhald uns hann hefur lokið verkinu og skilað því í hendur Norðuráls.

 

Rafmagn, vatn og vinnuloft

 • Sé ekki kveðið á um annað í þjónustusamningi, skal verktaki fá án endurgjalds vatn, rafmagn og vinnuloft til þjónustu sinnar og í vinnuskúra verktaka. 
 • Að fengnu leyfi verkumsjónarmanns Norðuráls skal verktaki leggja nauðsynlegar leiðslur frá úttaki, eftir leiðbeiningum frá verkumsjónarmanni Norðuráls. Vatnslagnir, loftlagnir og rafmagnslínur má ekki taka í notkun nema að fengnu leyfi Norðuráls og opinberra yfirvalda eftir atvikum.
 • Forsenda leyfisveitingar Norðuráls varðandi rafbúnað er að slíkur búnaður standist almenna opinbera öryggisstaðla og öryggisreglur Norðuráls.
 • Að liðnu ári frá öryggisprófun skal verktaki færa rafbúnað sinn til endurskoðunar á rafmagnsverkstæði Norðuráls sé hann enn að störfum á svæði Norðuráls. Verktaki skal sjá um nauðsynlegar endurbætur á göllum á lögnum samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sem kunna að koma fram við öryggisprófun Norðuráls.
 • Öryggisprófun á rafmagnsverkstæði Norðuráls samkvæmt 3. mgr. 12. gr. leysir verktaka ekki undan ábyrgð á ástandi rafbúnaðar síns m.t.t. öryggiskrafna Neytendastofu samkvæmt lögum nr. 146/1996. Norðurál ber í þessu samhengi aðeins ábyrgð á eigin búnaði.
 • Uppfylli verktaki ekki skyldu sína samkvæmt 4. mgr. 12. gr. skilmála þessara mun Norðurál sjá um nauðsynlegar úrbætur á kostnað verktaka.
 • Verktaki á ekki rétt á skaðabótum vegna vatns-, loft- og rafmagnstruflana í búnaði sínum.

 

Gas, olía og eldsneyti

 • Verktaki skal sjálfur leggja sér til gas, olíu og eldsneyti til verks samkvæmt innkaupa­pöntun.

 

Verkfæri, vélaleiga

 • Verktaka ber að leggja til eigin verkfæri sé þess krafist.
 • Leggi verktaki til eigin verkfæri ber honum að leggja fram verðlista yfir leiguverð á vélum sem tilgreint verður í viðauka við þjónustusamning.
 • Breytingar á verðlistum skal leggja fram til Norðuráls með minnst mánaðar fyrirvara og samþykkt af verktaka og fulltrúum Norðuráls sem breyting á viðauka við þjónustusamning.

 

Öryggisbúnaður og öryggisnámskeið

 • Verktaka ber að leggja til allan öryggisbúnað sem Norðurál krefst á verkstað, þar með talið (en ekki tæmandi) hjálm, gleraugu, vettlinga, fallbelti, líflás og öryggisskó. Verktökum og starfsmönnum þeirra ber að klæðast fatnaði samkvæmt skilgreiningum í öryggisreglum Norðuráls.
 • Verktaka og starfsmönnum hans er ávallt skylt að bera hjálm, öryggisgleraugu og klæðast skóm með stáltá á svæði Norðuráls samkvæmt öryggisreglum Norðuráls. 
 • Öllum starfsmönnum verktaka ber skylda til að sitja öryggisnámskeið hjá Norðuráli áður en vinna hefst á svæði Norðuráls.
 • Verktaki ber ábyrgð á að starfsmenn hans hljóti viðeigandi öryggisþjálfun áður en þeir hefja störf og hlíti við störf sín öryggis- og umgengnisreglum Norðuráls og Vinnueftirlits ríkisins í hvívetna.
 • Reglur Norðuráls varðandi lyfja- og áfengisprófanir ná til verktaka, starfsmanna hans og undirverktaka þegar unnið er á svæði Norðuráls.

 

Matur fyrir starfsmenn verktaka og hreinlætisaðstaða

 • Norðurál skal sjá um að verktaki og starfsmenn hans hafi aðgang að hreinlætisaðstöðu á svæði Norðuráls.
 • Verktaka er heimilt kaupa léttan hádegisverð eða heita máltíð í mötuneyti Norðuráls til handa starfsmönnum verktaka sem eru að störfum á svæði Norðuráls Grundartanga ehf. hverju sinni.
 • Hádegisverður er borinn fram milli kl. 11:30 og 13:00 á virkum dögum og verða verktakar upplýstir sérstaklega um hvenær búist er við þeim í mat innan þessa tímaramma. Norðurál greiðir verktaka hvorki fyrir ferðir í og úr mat né þann tíma sem fer í hádegisverð.

 

Gæði þjónustu

 • Verk samkvæmt innkaupapöntun skal vera traust og áferðargott og öll vinna vel og fagmannlega af hendi leyst.
 • Ef ekki er kveðið á um annað í innkaupapöntun skal efni því aðeins talið fullnægjandi að það sé að öllu leyti jafngott því efni sem venja er að nota til sams konar verka.
 • Verktaki ábyrgist að hann hafi, og muni á gildistíma þjónustusamningsins hafa, yfir að ráða starfsfólki sem búi yfir faglegri þekkingu og sé hæft til að veita með fullnægjandi hætti þá þjónustu sem verktaki tekur að sér með samningi þessum. Þannig skulu starfsmenn verktaka er starfa við iðngreinar hafa sveinsprófsréttindi í viðkomandi iðngrein og ökumenn bifreiða hafa viðeigandi ökuréttindi. Sama gildir um aðrar vélar, s.s. lyftur eða lyftara.
 • Ef í verklýsingu þjónustusamnings og/eða innkaupapöntun eru gerðar sérstakar kröfur um nákvæma og vandvirknislega vinnu skal verktaki haga ráðningu starfsmanna eftir því.
 • Norðurál eða verkumsjónarmaður þess getur krafist þess að verktaki láti honum í té upplýsingar og nægileg gögn til þess að meta verkið, þar á meðal vottorð um efniseiginleika og hvar efni er framleitt.
 • Ef verktaki hyggst nota annað efni en mælt er fyrir um í verklýsingu þjónustusamnings og/eða innkaupapöntun með þeim rökum að það sé jafngott því sem mælt var fyrir um skal hann greiða allan kostnað við að sanna þessa fullyrðingu sína.
 • Norðurál eða verkumsjónarmaður hans getur hafnað efni eða unnu verki sem ekki er eins og innkaupapöntun áskilur. Ber verktaka að bæta úr því sem áfátt er án ástæðulauss dráttar.
 • Komi galli fram á verkinu og hafi hann ekki verið lagfærður innan hæfilegs tíma er verkkaupa heimilt að halda eftir upphæð sem svarar kostnaði við að lagfæra gallann.
 • Efni sem ekki fullnægir kröfum sem settar eru, ber verktaka að flytja brott af vinnustað án tafar.
 • Verktaki getur krafist þess, þó að verki sé ekki lokið, að Norðurál veiti viðurkenningu fyrir því að tiltekinn hluti þess sé fullgildur ef torvelt er eða ókleift að meta það síðar.
 • Ef verktaki gerir ekki staðfestar athugasemdir við einstakar verklýsingar sem hann telur rangar, þrátt fyrir samþykki Norðuráls eða umsjónarmanns á þeim, er hann að fullu ábyrgur fyrir verkum unnum samkvæmt þeim.

 

Efni, búnaður og annað sem Norðurál leggur til

 • Verktaki ábyrgist að efni og annað, sem verkkaupi leggur til, hvorki glatist, eyðileggist né verði fyrir skemmdum eftir að hann hefur veitt því viðtöku. Honum ber að nýta vel allt efni sem honum er látið í té, og skila því sem afgangs verður.
 • Vélar og/eða verkfæri sem Norðurál leggur verktaka til vegna vinnu hans á verkstað eru í eigu Norðuráls. Verkumsjónarmanni eða eftirlitsmanni hans ber að fylgjast með vélum og/eða verkfærum Norðuráls sem afhent hafa verið verktaka. Verktaki ber fulla ábyrgð á meðferð starfsmanna sinna á tækjum Norðuráls samkvæmt grein þessari og á skilum þeirra eftir notkun.
 • Verktaki ber ábyrgð á gæðum eða nothæfni efnis eða búnaðar sem Norðurál leggur til hafi honum mátt vera ljóst að slíkt efni eða búnaður væri ekki fullnægjandi og hann hafi látið hjá líða að vekja athygli Norðuráls á því.
 • Verktaka ber að greiða skaðabætur fyrir efni, vélar og/eða verkfæri Norðuráls sem glatast meðan þau eru í umsjá verktaka eða skemmast vegna rangrar meðferðar starfsmanna hans.

 

Áhætta – vátryggingar – ábyrgð á skaða

 • Verktaki ber alla áhættu á því ef verk eða efni til þess verði fyrir skemmdum eða eyðileggst uns hann hefur skilað verkinu því af sér. Gildir þetta eins þótt verktaki hafi fengið greiðslu fyrir verkið að nokkru eða öllu leyti. Tekið skal fram í þjónustusamningi hverra vátrygginga er krafist gegn þessari áhættu verktaka.
 • Verktaki ber alla ábyrgð á því að vinnupallar hans, vinnuvélar, verkfæri og áhöld séu nægilega örugg og traust.
 • Aðilar bera eftir almennum réttarreglum skaðabótaábyrgð á tjóni sem þeir sjálfir eða starfsmenn þeirra valda gagnaðila á mannvirkjum, unnu verki, vélum áhöldum, efni eða vöru.
 • Verktaki ber einn skaðabótaábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að verða fyrir við framkvæmd verksins nema tjónið hafi hlotist af mistökum eða vanrækslu verkkaupa sjálfs eða manna úr starfsliði hans. Ábyrgðin nær einnig til undirverktaka og leigutækja.
 • Enda þótt tekið sé fram í gr. 11.3 að verktaki skuli kaupa sér ábyrgðartryggingu, þá felst ekki í því að ábyrgð hans takmarkist við þá fjárupphæð sem krefjast má vegna tryggingarinnar.
 • Efni sem er ókomið á verkstað er á ábyrgð verktaka. Ef Norðurál annast flutning á efni og/eða tækjum fyrir verktaka er það tryggt af Norðurál frá afhendingarstað þar til það hefur verið losað á svæði Norðuráls.

 

Eignaréttur að efni og verki

 • Verkið verður eign Norðuráls eftir því sem því miðar áfram. Sama er um allt efni sem verktaki leggur til verksins og Norðurál hefur sannanlega greitt fyrir. Slíku efni er verktaka með öllu óheimilt að ráðstafa til annarra þarfa.
 • Verktaki má ekki flytja efni sem hann hefur keypt til verksins frá svæði Norðuráls, nema það hafi sannanlega verið umfram þarfir. Efni í eigu verktaka skal flytja af svæði Norðuráls, þegar framkvæmdum er lokið.
 • Afgangsefni í eigu Norðuráls skal verktaki skila til Norðuráls að verki loknu.

 

Skilafrestur – tafabætur (dagssektir)

 • Verktaka ber að haga framkvæmdum þannig að verki eða einstökum hlutum þess verði lokið innan þess skilatíma sem settur hefur verið í tímaáætlun verktaka í tengslum við innkaupapöntun. Norðurál áskilur sér rétt til að fara fram á að verktaki láti vinna yfirvinnu og/eða auki starfslið sitt og tæki ef fyrirsjáanlegt er að tímaáætlun muni ekki standast. Allur kostnaður sem af þessu leiðir skal greiddur af verktaka.
 • Beiðni verktaka til Norðuráls um framlengingu verktíma skal vera skrifleg. Í beiðni skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktakinn ber fyrir sig. Leyfi skal ávallt veitt ef um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) er að ræða, sem verktaka verður ekki um kennt, svo sem eldsvoði, verkfall eða verkbann, óvenjulegir náttúruviðburðir, styrjöld eða annað þess háttar sem truflar framkvæmdir verulega. Megi hins vegar rekja töfina beint til verktaka, áskilur Norðurál sér rétt til að ákveða hvort leyfi skuli veitt eður ei.
 • Hafi í samningi verið samið um að verktaki greiði tafabætur (dagssektir) vegna heildarverks eða einstakra hluta þess getur Norðurál ekki krafist annarra bóta vegna skiladráttar en tafabótanna. Þær skulu þá greiddar samkvæmt samningi, þ.e. tilgreind upphæð eða hundraðshluti samningsfjárhæðar, fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verki sé lokið eftir að samningsbundinn skilafrestur er útrunninn.
 • Tafabætur skulu áætlaðar miðað við hugsanlegt tjón sem Norðurál verðir fyrir ef verktaki skilar ekki verki sínu á réttum tíma. Tafabætur reiknast fyrir hvern almanaksdag sem dregst að afhenda umsamið verk. Ef ákvæði eru í verksamningi um tafabætur þarf Norðurál ekki að sanna tjón sitt.
 • Ef ekki hefur verið samið sérstaklega um áfangaskil og hluti verks er tekinn út sérstaklega og tekinn í notkun skal endurskoða ákvæði um tafabætur.
 • Ef ákvæði eru í þjónustusamningi um verðbætur skal við útreikning á tafabótum bæta verðbótum á samningsfjárhæð eða grunn tafabóta
 • Gjaldfallnar tafabætur getur Norðurál dregið af síðari greiðslum til verktaka.

 

Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure)

 • Hvorugur samningsaðili skal vera ábyrgur gagnvart hinum vegna vanefnda á ákvæðum samnings og þessara skilmála, ef ástæður vanefndanna má rekja til óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure). 

 

Vanefndir – riftun

 • Krefjist verkumsjónarmaður Norðuráls stöðvunar verksins, samkvæmt gr. 6.7. skilmála þessara, ber Norðuráli enga skyldu til þess að greiða verktaka aukaútgjöld sem af stöðvun leiðir. Hafi verk verið stöðvað tímabundið samkvæmt gr. 6.7. skilmála þessara í yfir 2 mánuði skal líta svo á að samningnum hafi verið rift nema Norðurál ákveði annað. Skal verktaki þá eiga rétt á greiðslum fyrir unna verkhluta, að því marki sem þeir geta nýst Norðuráli.
 • Vanefni verktaki skyldur sínar samkvæmt samningi þessum með verulegum hætti, skal Norðuráli heimilt að krefjast tafarlausra úrbóta eða rifta samningnum að liðnum [●] daga úrbótafresti, enda hafi verktaki ekki ráðið bót á vanefndunum innan úrbótafrestsins.
 • Veruleg vanefnd eins verkþáttar réttlætir riftun samningsins í heild.
 • Ef samningi er rift skal Norðurál sjá um að örugglega sé kannað hversu miklu verktaki hefur lokið af verkinu og skal verktaka þá gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Norðurál eingöngu skylt að greiða fyrir þann hluta verksins, sem er að fullu lokið og kemur að fullum notum.
 • Verktaki greiðir bætur vegna sannanlegs kostnaðarauka sem leiðir af því að verkið er unnið af öðrum og fyrir annað tjón sem Norðurál verður fyrir vegna vanefnda verktaka.
 • Norðurál getur krafist bóta vegna taps umfram sannanlegan kostnaðarauka ef vanefndir stafa af vísvitandi eða verulegri vanrækslu verktaka eða fulltrúa hans eða þess háttar hegðun undirverktaka eða fulltrúa hans. Sé samningi rift vegna þess að ekki hefur verið staðið við skiladag, reiknast tafabætur ekki eftir að riftun hefur farið fram.

 

Greiðsluþrot verktaka

 • Við gjaldþrot verktaka er Norðuráli heimilt að rifta samningi.
 • Nú kemur í ljós við árangurslausa aðfarargerð eða með öðrum hætti að fjárhagur verktaka er slíkur að hann geti ekki efnt skyldur sínar og getur þá Norðurál krafist þess að innan tveggja vikna sé sett fullnægjandi trygging nema áður sett trygging sé fullnægjandi að mati Norðuráls. Sé trygging ekki sett má rifta samningi.

 

Úttektir

 • Verktaki skal tilkynna verkumsjónarmanni Norðuráls þegar verki samkvæmt innkaupa­pöntun, eða umsömdum hluta, er lokið. Verkumsjónarmaður Norðuráls mun boða til skoðunar á verkinu og skal hún framkvæmd af fulltrúum Norðuráls og verktaka.
 • Þegar um minniháttar verk er að ræða og skoðun leiðir ekki í ljós neina ágalla getur Norðurál sameinað skoðun og fyrstu úttekt verks.
 • Taka skal út einstaka hluta verks þegar þeim er lokið ef gert er ráð fyrir því í þjónustusamningi og/eða innkaupapöntun.
 • Fulltrúa Norðuráls er heimilt að opna eða rjúfa hluta verksins, ef hann telur nauðsynlegt til að skoða innri hluta þess. Ef ágallar koma í ljós, skal verktaki bera kostnaðinn af því að rjúfa verkið og gera við það aftur.
 • Norðurál skal veita verktaka hæfilegan frest til að framkvæma úrbætur á göllum og missmíðum á verkinu. Að loknum þeim fresti, skal önnur skoðun fara fram vegna fyrstu úttektar.
 • Í öllum tilvikum skal gerð skrifleg úttektargerð og skal hún lýsa öllu því sem fram ferið úttektina og máli skiptir.  Fulltrúar Norðuráls og verktaki skulu undirrita úttektargerðina og hver þeirra fá sitt eintak eða endurrit hennar.  Skal úttektargerðin a.m.k. tilgreina eftirfarandi:
  • Nöfn fulltrúa verktaka og Norðuráls sem framkvæma skoðunina
  • Dagsetningu, tímasetningu og veðurskilyrði við skoðun
  • Lýsingu á verkinu sem skoðað er
  • Lýsingu á framkvæmd skoðunar
  • Upplýsingar um fyrri skoðanir og prófanir
  • Listi yfir galla og missmíðar sem hafa fundist við fyrri skoðanir og verið lagfærðar fyrir þessa skoðun
  • Nákvæmur listi yfir galla og missmíðar á verkinu sem fundust við þessa skoðun.  Gallar skulu metnir í hlutfalli við allt verkið sem skoðað var.  Ef á verkinu finnast minni háttar gallar, sem ekki hindra notkun alls verksins og gallarnir valda ekki hættu fyrir starfsfólk, má Norðurál viðurkenna verkið, með því skilyrði, að verktaki lagfæri gallana fyrir skilgreindan skiladag, sbr. lið i)
  • Aðgerðir vegna gallanna, sem taldir eru upp í lið g)
  • Skiladag fyrir viðgerðir á göllum og missmíðum.
 • Að úttekt lokinni telst verktaki hafa skilað verkinu í hendur Norðuráls nema í ljós hafi komið gallar. Ef slíkir gallar hafa komið fram við fyrstu úttekt skal gera nýja úttekt þegar úr göllum hefur verið bætt innan tímamarka sem Norðurál hefur sett. Telst þá verkinu skilað að þeirri úttekt lokinni.
 • Meðan á viðgerð stendur er verktaki ábyrgur fyrir skemmdum sem hann kann að valda á öðrum verkum, tækjum eða byggingum.
 • Bæti verktaki ekki úr göllum á verkinu innan þeirra tímamarka sem Norðurál hefur sett áskilur Norðurál sér rétt til að halda eftir samsvarandi fjárupphæð við lokauppgjör eða láta gera við gallana á kostnað verktaka. Norðurál áskilur sér einnig rétt til að halda eftir hæfilegri upphæð af lokauppgjöri við verktaka vegna galla, sem ekki er unnt að bæta úr.

 

Ábyrgð á verki

 • Verktaki tekur ábyrgð á verki í eitt ár frá því að hann skilar því nema um annað sé sérstaklega samið. Sama gildir um einstaka verkhluta ef þeim er skilað sérstaklega.
 • Verktaki skal á sinn kostnað bæta úr öllum göllum á verki sem í ljós koma á ábyrgðartíma og stafa af því að efni eða vinna var lakari en skylt var eftir innkaupapöntun og/eða þjónustusamningi. Bæti verktaki ekki úr galla innan hæfilegs tíma eða verði ekki náð til hans í tækta tíð má verkkaupi lagfæra gallann á kostnað verktaka.
 • Norðurál getur eftir almennum reglum krafist skaðabóta fyrir tjón vegna galla á verkinu ef það verður ekki talið bætt að fullu með lagfæringu á gallanum.
 • Fyrir lok ábyrgðartíma skal Norðurál framkvæma skoðun á verkinu og meta hvort verktaki hafi staðið við skuldbindingar sínar  samkvæmt gr. 26.2. Reynist svo vera skal Norðurál skila honum verktryggingu samkvæmt gr. 5 og telst þá verk samkvæmt innkaupapöntun að fullu lokið. Sé hins vegar einhverju áfátt skal skal Norðurál tilkynna verktaka um galla. Að fenginni slíkri tilkynningu skal verktaki þegar í stað gera ráðstafanir til úrbóta í samræmi við kröfur Norðuráls áður en verktryggingunni er skilað. Bæti verktaki ekki úr göllum fyrir lok ábyrgðartíma, hefur Norðurál einhliða rétt til að framlengja ábyrgðartímann eins og þörf krefur til að bæta úr göllunum eða láta aðra gera það á kostnað verktaka. Norðurál má einnig í því tilviki halda eftir ógreiddu uppgjöri við verktaka hæfilegri upphæð vegna slíkra galla.
 • Ef í ljós koma á verkinu leyndir gallar sem ekki var unnt að sjá fyrir lok ábyrgðartímans skal verktaki svara skaðabótum ef gallarnir stafa sannanlega af ásetningi eða gáleysi hans sjálfs eða starfsmanna hans. Um fyrningu á þeim skaðabótakröfum fer eftir ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007.

 

Greiðslufyrirkomulag

 • Norðurál greiðir verktaka fyrir verk, unnið samkvæmt innkaupapöntun á þann hátt sem kveðið er á um í almennum greiðsluskilmálum Norðuráls nema um annað sé samið.

 

Lokauppgjör

 • Eigi síðar en þremur mánuðum eftir lokaúttekt (og þar með skil samkvæmt gr. 26.3. skilmála þessara) á verki eða verkhluta samkvæmt innkaupapöntun skal verktaki senda Norðuráli fullnaðarreikning vegna þess verks eða hluta.
 • Reikningurinn skal byggður á þóknunum, sem tilgreindar eru í þjónustusamningi.
 • Eftir að verktaki hefur lagt fram fullnaðarreikning fyrir verk eða verkhluta getur hann ekki haft uppi frekari kröfur vegna þess verks. Verktaki skal senda með lokareikningi yfirlýsingu um að þetta sé lokagreiðsla fyrir verk eða verkhluta og að verktaki afsali sér rétt til að gera frekari kröfur á Norðurál vegna viðkomandi verks.
 • Ef ekki næst sátt á milli verktaka og Norðuráls um lokauppgjör, áskilur Norðurál sér rétt til að halda eftir þeirri upphæð sem ekki næst samkomulag um, þar til sættir hafa náðst.
 • Innan eins mánaðar frá samþykkt lokareiknings skal Norðurál ljúka greiðslum að fullu, þó með þeim undantekningum sem fram koma í skilmálum þessum.

 

Almennar upplýsingar um innkaup

 

Innkaupadeild Norðuráls, sími 430 1000, netfang innkaup hjá nordural.is

Bókhaldsdeild Norðuráls, sími 430 1000, netfang bokhald hjá nordural.is